Þórarinn Eldjárn

  • Þórarinn Eldjárn
Þórarinn þýðir Samþykki og Jónsmessunæturdraum fyrir Þjóðleikhúsið leikárið 2018-2019.

Þórarinn Eldjárn nam bókmenntir og heimspeki við Háskólann í Lundi í Svíþjóð og lauk þaðan fil kand prófi vorið 1975. Síðan hefur hann starfað sem rithöfundur og þýðandi.

Þórarinn hefur sent frá sér fjölda frumsaminna verka, ljóðabækur, smásagnasöfn, skáldsögur og leikrit, og auk þess þýtt bókmenntaverk fyrir fullorðna og börn, einkum úr Norðurlandamálum og ensku. Verk eftir Þórarin hafa verið þýdd á Norðurlandamál, þýsku, ensku og frönsku. Þórarinn hefur samið nokkur leikrit, ýmist einn eða í félagi við aðra, Völuspá, Ó muna tíð, revíuna Skornir skammtar, söngleikinn Gretti og asna- og viskustykkið Ég vil auðga mitt land. Þórarinn hefur þýtt ýmis leikrit, meðal annars eftir Dario Fo, Luis Rego og Philippe Bruneau, Bengt Ahlfors, Neil Simon, Astrid Lindgren, Pam Gems, Göran Tunström, Per Olov Enquist, Slawomir Mrozek, Laurence Boswell, August Strindberg, Henrik Ibsen, Lisu Knutzon og Ingmar Bergman, auk þess sem hann hefur samið og þýtt söngtexta fyrir leiksýningar.

Þórarinn hefur hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar fyrir ritstörf sín, meðal annars verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu 1998, barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur, Lóð á vogarskál íslenskra bókmennta og Sögustein. Hann var borgarlistamaður Reykjavíkur 2008. Skáldsaga hans Brotahöfuð var tilnefnd til Aristeion, evrópsku bókmenntaverðlaunanna og til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.

Þórarinn þýddi Lé konung Shakespeares fyrir sýningu Þjóðleikhússins 2011 og Macbeth sem leikhúsið sýndi 2012. Bæði þessi verk komu út á bókum hjá Vöku/Helgafelli. Auk Jónsmessunæturdraums vinnur Þórarinn nú einnig að nýrri Hamletþýðingu fyrir Þjóðleikhúsið.

Meðal nýlegra verka Þórarins eru smásagnasafnið Þættir af séra Þórarinum og fleirum (2016). Nú í ár komu svo út ljóðabókin Vammfirring og einnig barnaljóðabókin Ljóðpundari sem Sigrún Eldjárn myndskreytti..