Nina Raine

  • Nina-Raine-photo-credit-Jack-Ladenburg-use-free-of-charge-

Nina Raine er eitt þekktasta leikskáld Breta af yngri kynslóðinni, en hún starfar einnig sem leikstjóri. Samþykki er hennar fjórða leikrit. Verkið var frumflutt í Breska þjóðleikhúsinu í apríl árið 2017 og flutt yfir á West End í kjölfar mikilla vinsælda. Áður hafði Raine skrifað leikritin Rabbit, Tribes og Tiger Country, en nýjasta leikrit hennar Stories var frumflutt í Breska þjóðleikhúsinu nú í október.

Fjölskylda Ninu Raine er mikið bókmenntafólk, en foreldrar hennar eru Craig Raine, ljóðskáld og gagnrýnandi, og Ann Pasternak Slater, bókmennafræðingur, þýðandi og fyrrum háskólakennari í Oxford. Ann er systurdóttir rússneska rithöfundarins Boris Pasternak.

Nina Raine stundaði nám í enskum bókmenntum við Christ Church háskólann í Oxford og útskrifaðist þaðan með láði árið 1998. Hún hlaut styrk til starfsnáms í leikstjórn við Royal Court leikhúsið í London, en það leikhús er heimsþekkt fyrir að hlúa að samtímaleikritun. Í Royal Court var Raine aðstoðarleikstjóri í nokkrum sýningum, meðal annars My Zinc Bed í leikstjórn Davids Hare, Far Away í leikstjórn Stephens Daldry, Mouth to Mouth í leikstjórn Ians Rickson, Presence í leikstjórn James Kerr og Fucking Games í leikstjórn Dominics Cooke.

Fyrsta leikrit Raine, Rabbit, fjallar um unga, einhleypa konu, sem þrátt fyrir velgengni er ósátt við sjálfa sig og þjökuð af þeim væntingum sem gerðar eru til hennar. Leikritið gerist á 29 ára afmælisdegi aðalpersónunnar, en nokkrir vinir og fyrrverandi elskhugar hennar hafa komið saman á bar í tilefni afmælisins. Létt spjall um vinnu, ástarsambönd og kynlíf snýst upp í heiftúðug átök kynjanna. Raine bauð nokkrum af stærri leikhúsunum í London verkið til sýninga, en hafði ekki erindi sem erfiði og ákvað að setja það sjálf upp í litlu Off West End leikhúsi í London, Old Red Lion, árið 2006. Hispurslaus umfjöllun höfundarins um ungt fólk í samtímanum og kynjabaráttu vakti mikla athygli og sýningin var flutt yfir í Trafalgar Studios á West End sama ár. Raine hlaut Evening Standard verðlaunin og Critic’s Circle verðlaunin sem efnilegasta leikskáld ársins fyrir verkið. Það var í kjölfarið sýnt á Brits Off Broadway Festival í New York og víðar.

Annað leikrit Raine, Tribes, var frumflutt í Royal Court leikhúsinu árið 2010, í leikstjórn Rogers Michell. Verkið er fjölskyldudrama um takmarkanir mannlegra samskipta og þörf manneskjunnar fyrir að tilheyra hópi. Aðalpersóna verksins er heyrnarlaus, ungur maður sem elst upp í fjölskyldu þar sem gerð er afdráttarlaus krafa um samheldni og ást, um leið og fjölskyldumeðlimir leyfa sér árásargirni, yfirgang og drottnunargirni í samskiptum hver við annan. Foreldrar heyrnarlausa piltsins tóku í upphafi þá ákvörðun að láta hann ekki læra táknmál heldur varalestur, og sáu fyrir sér að þannig myndi hann best læra að bjarga sér í samfélagi hinna heyrandi. Þegar pilturinn verður ástfanginn af ungri stúlku sem talar táknmál og er virkur þátttakandi í samfélagi heyrnarlausra, fær hann nýja sýn á líf sitt og fjölskyldu sína. Raine er í þessu verki að fást við hugmyndir um fjölskylduna sem „ættbálk“, með sínar eigin reglur og gildi. Verkið vakti mikla athygli þegar það var frumsýnt í Bretlandi, en naut enn meiri vinsælda þegar það var sýnt vestan hafs, í New York og Los Angeles. Raine hlaut Drama Desk verðlaunin og New York Drama Critics’ Circle verðlaunin fyrir leikritið, og var tilnefnd til Olivier verðlaunanna. 

Leikrit Raine Tiger Country var frumflutt hjá Hampstead Theatre árið 2011 í leikstjórn höfundar. Verkið gerist á sjúkrahúsi í London og fjallar um krefjandi aðstæður sem nokkrir læknar og hjúkrunarfræðingar á spítalanum lenda í. Höfundurinn beinir sjónum að siðferðilegum álitamálum sem heilbrigðisstarfsfólk getur staðið frammi fyrir, togstreitunni á milli vinnu og einkalífs, tilfinninga og faglegra vinnubragða.

Samþykki, eða Consent á frummálinu, var frumflutt í Breska þjóðleikhúsinu í apríl árið 2017, í samstarfi við Out of Joint, í leikstjórn Rogers Michell. Þetta kraftmikla verk um samskipti kynjanna, vináttu, ástarsambönd, kynferðisofbeldi, traust og svik hlaut afar góðar viðtökur. Í kjölfar mikilla vinsælda sýningarinnar var hún flutt yfir í Harold Pinter Theatre á West End í maí á þessu ári.

Nýjasta verk Raine er Stories, sem frumflutt var í Breska þjóðleikhúsinu nú í október í leikstjórn höfundar. Aðalpersóna verksins er 39 ára gömul, einhleyp kona, sem er staðráðin í að eignast sitt fyrsta barn. Verkið lýsir oft og tíðum grátbroslegum tilraunum hennar til að láta draum sinn um að eignast fjölskyldu rætast, en í stað þess að notast við gjafasæði ókunnugs aðila ákveður hún að rannsaka hvort einhverjir af vinum hennar og kunningjum gætu reynst góðir og viljugir sæðisgjafar. Um leið skoðar höfundur fyrirbærið sögur, meðal annars út frá þeirri hugmynd að í raun séu aðeins til sjö gerðir af sögum, sem allar sögur séu tilbrigði við.

Meðal verka sem Raine hefur leikstýrt, auk eigin leikrita, eru samvinnuverkefnið Unprotected hjá Liverpool Everyman leikhúsinu árið 2006, en fyrir sýninguna hlaut hún TMA verðlaunin fyrir leikstjórn, Behind the Image eftir Alia Bano hjá Royal Court árið 2008 og Shades eftir Alia Bano hjá Royal Court leikhúsinu árið 2009, sem hún hlaut Critic‘s Circle og Evening Standard verðlaunin fyrir í flokki efnilegustu nýliða. Hún leikstýrði Jumpy eftir April De Angelis hjá Royal Court árið 2011, og í kjölfarið hjá Duke of York‘s Theatre á West End. Hún leikstýrði einnig Longing, leikgerð byggðri á smásögum eftir Tsjekhov, hjá Hampstead Theatre árið 2013.