Karen Briem

Karen gerir búninga fyrir Jónsmessunæturdraum í Þjóðleikhúsinu leikárið 2018-2019.

Karen ólst upp í Mexíkó og á Íslandi, en hefur einnig búið við nám og störf í Bretlandi, Danmörku og Þýskalandi.

Hún lærði tískuhönnun í Københavns Mode- og Designskole og lauk árið 2013 meistaragráðu í búningahönnun frá London College of Fashion.

Karen vinnur búninga á fjölbreyttum sviðum og þvert á listgreinar. Hún hefur meðal annars unnið búninga fyrir HATARI, VÖK, Sigurrós og Ellie Golding.

Frá 2014 til 2015 starfaði hún í búningadeild Her Majesty's Theatre í West End leikhúshverfi London að uppsetningu Phantom of the Opera.

Árið 2016 sótti hún gestavinnustofu í Spokane í Bandaríkjunum þar sem hún vann að gagnvirkum búningum og árið eftir var hún við gestavinnustofu í Hämeenkyrö í Finnlandi.

Síðustu ár hefur Karen að mestu unnið við uppsetningar í Þýskalandi þar sem hún hannaði búninga fyrir Die Edda í Staatstheater Hannover. Verkið hlaut hin virtu þýsku leikhúsverðlaun Der Faust árið 2018. Þá vann hún einnig búninga fyrir sýninguna Macbeth í Staatstheater Hannover á síðasta ári.

Um þessar mundir vinnur hún að búningum fyrir uppsetningu á verkinu Die Räuber í Theatre Basel í Sviss.