John Patrick Shanley

  • John-Patrick-Shanley-2

John Patrick Shanley (f. 1950) er bandarískt leikskáld og leikstjóri, en hann hefur einnig skrifað kvikmyndahandrit og leikstýrt kvikmyndum. Verk hans hafa unnið til fjölda verðlauna og má þar nefna Óskarsverðlaunin, Golden Globe-verðlaunin, Pulitzerverðlaunin og Tonyverðlaunin.

Efi: dæmisaga (Doubt: A Parable) er þekktasta leikrit Shanleys. Verkið var frumflutt í Manhattan Theatre Club í New York árið 2004 og sett upp á Broadway árið eftir. Verkið hlaut Obie-, New York Drama Cirtics' Circle-, Drama Desk-, Pulitzer- og Tonyverðlaunin og hefur verið sýnt víða um heim. Shanley byggði handrit sitt að kvikmyndinni Doubt á leikritinu. Hann leikstýrði sjálfur myndinni sem var frumsýnd árið 2008. Í aðalhlutverkum voru Meryl Streep, Philip Seymour Hoffman, Amy Adams og Viola Davis. Þau voru öll tilnefnd til Óskarsverðlaunanna fyrir leik sinn í myndinni. Shanley var tilnefndur til Óskarsverðlaunanna og Golden Globe-verðlaunanna fyrir handrit myndarinnar. Árið 2012 skrifaði Shanley líbrettó fyrir óperu sem var byggð á Efa, með tónlist eftir Douglas J. Cuomo.

Umhverfið í Efa minnir um margt á æskuslóðir Shanleys. Hann er kominn af írskum innflytjendum og ólst upp í Bronx í New York. Þar gekk hann í kaþólskan skóla sem var starfræktur af nunnum úr reglu Kærleikssystranna. Shanley segist hafa orðið fyrir miklum áhrifum frá einum af fyrstu kennurum sínum, systur Margaret McEntee, og segir persónu systur James í leikritinu byggða á henni. Kvikmyndin Doubt var tileinkuð McEntee, en hún var einnig ráðgjafi við gerð myndarinnar.

Í verkamannahverfinu sem Shanley ólst upp í bjuggu einkum fjölskyldur af írskum og ítölskum uppruna, líkt og í því umhverfi sem Efi gerist í. Hann segir þröngsýni og kynþáttafordóma hafa verið ríkjandi, og þetta hugarfar hafi átt afar illa við hann. Shanley hefur sagt frá því að hann hafi stöðugt verið að lenda í slagsmálum, allt frá sex ára aldri, þótt hann hafi sjaldan átt upptökin að þeim sjálfur. „Fólk leit á mig og reiddist við það eitt að sjá mig“, sagði hann í viðtali. „Ég held að ástæðan hafi verið sú að það áttaði sig á því að ég sá í gegnum það.“ Shanley lenti ítrekað upp á kant við skólakerfið og hefur sjálfur sagt svo frá, í gamansömum tón, að sér hafi verið vísað úr leikskóla heilagrar Helenu, hann hafi verið útilokaður frá hádegisverðinum í skóla heilags Antóníusar og rekinn úr Cardinal Spellman gagnfræðaskólanum. Eftir fyrsta árið í háskóla var honum gert að taka sér leyfi, og þá skráði hann sig í herinn um tíma. Að lokum útskrifaðist hann þó sem dúx með B.S.-próf frá New York háskóla (Steinhardt School of Culture, Education, and Human Development) árið 1977, en þar lagði hann stund á leiklistarkennslufræði.

Shanley hefur skrifað á þriðja tug leikrita og gjarnan leikstýrt sjálfur frumuppfærslum verka sinna. Leikrit hans eru mjög oft á fjölunum í Bandaríkjunum en þau hafa einnig verið þýdd á ýmis tungumál og leikin víða um heim. Fyrsta leikrit hans sem vakti verulega athygli var Danny and the Deep Blue Sea sem sýnt var bæði í New York og London árið 1984. Verkið var sett upp á Íslandi í leikstjórn Ásgeirs Sigurvaldasonar á vegum Andleikhússins árið 1992 undir heitinu Danni og djúpsævið bláa. Meðal annarra þekktra verka hans eru Italian American Reconciliation, Beggars in the House of Plenty og Four Dogs and a Bone. Meðal nýjustu verka hans eru Storefront Church, Outside Mullingar, Prodigal Son og The Portuguese Kid.

Shanley hefur skrifað nokkur kvikmyndahandrit og hlaut hann Óskarsverðlaunin fyrir handritið að kvikmyndinni Moonstruck (1987), með Cher og Nicolas Cage í aðalhlutverkum. Við afhendingu verðlaunanna sagðist hann vilja þakka "öllum sem einhvern tímann hafa kýlt eða kysst mig, og öllum sem ég hef einhvern tímann kýlt eða kysst."