Stefán Baldursson

Stefán Baldursson leikstýrir Efa í Þjóðleikhúsinu leikárið 2017-2018.

Stefán hefur starfað sem leikstjóri í um fjóra áratugi og á að baki yfir áttatíu leikstjórnarverkefni á sviði.

Stefán lauk námi í leikhús- og kvikmyndafræðum frá Stokkhólmsháskóla 1971.

Stefán var leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur í Iðnó 1980-87. Hann var þjóðleikhússtjóri 1991-2005. Hann var óperustjóri Íslensku óperunnar 2007-2015.

Meðal leikstjórnarverkefna Stefáns í Þjóðleikhúsinu eru Kaupmaður í Feneyjum, Góða sálin í Sesúan, Grænjaxlar, Öskubuska, Sumargestir, My Fair Lady og mörg leikrit Guðmundar Steinssonar, þar á meðal Stundarfriður en sú sýning varð vinsælasta íslenska verkið sem þá hafði verið sýnt í Þjóðleikhúsinu og fór í leikferð til sjö borga Evrópu.Meðal annarra sýninga hans í Þjóðleikhúsinu eru Brúðuheimili, Villiöndin, Horfðu reiður um öxl, Sorgin klæðir Elektru, Dínamít  og Veislan en sú sýning hlaut ellefu tilnefningar til Íslensku leiklistarverðlaunanna, Grímunnar 2003, meðal annars sem sýning ársins og fyrir bestu leikstjórn. Stefán leikstýrði hér Öllum sonum mínum sem hlaut sex tilnefningar til Grímunnar 2011, meðal annars sem sýning ársins og fyrir bestu leikstjórn. Síðasta leikstjórnarverkefni hans í Þjóðleikhúsinu var Sporvagninn Girnd.

Af leikstjórnarverkefnum Stefáns hjá Leikfélagi Reykjavíkur má nefna Sölku Völku, Barn í garðinum, Gísl, Draum á Jónsmessunótt, Dag vonar, Amadeus og Fanný og Alexander.

Stefán leikstýrði óperunni Ragnheiði eftir Gunnar Þórðarson. Sýningin hlaut 10 tilnefningar til Grímunnar vorið 2014 og var valin besta sýning leikársins. Hann leikstýrði einnig  Óperuperlum og óperunni Rigoletto.

Meðal verkefna Stefáns í öðrum leikhúsum hérlendis eru sýningar hjá Alþýðuleikhúsinu og  Leikfélagi Akureyrar. Ég er mín eigin kona á vegum Leikhússins Skámána, frumuppfærsla frönsku óperunnar Föðurlandið (Le Pays) hér á landi á vegum Listahátíðar í Reykjavík og Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hann hefur leikstýrt fjölmörgum sýningum Nemendaleikhússins, síðast Stræti 2010. Ennfremur sýningu Skámána á Killer Joe, sem var tilnefnd til átta Grímuverðlauna 2007, þar á meðal fyrir bestu leikstjórn.

Stefán hefur leikstýrt fjölmörgum sýningum í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Bandaríkjunum, þeirra á meðal Sölku Völku í Osló og Örebro í Svíþjóð, Villiöndinni og Stræti í Árósum, Stund gaupunnar og Degi vonar í Álaborg. Þá leikstýrði hann frumuppfærslu á verkinu Yves Montand – menneske eftir Jesper Vigant í Rialto-leikhúsinu í Kaupmannahöfn haustið 2005. Hann leikstýrði óperunni Rigoletto við Opera Zuid í Maastricht í Hollandi. árið 2015.

Hann hefur leikstýrt yfir sextíu leikritum fyrir útvarp og ýmsum sjónvarpsverkefnum, þ.á.m. áramótaskaupum, Liðinni tíð, Stundarfriði og Næturgöngu.

Stefán hlaut Menningarverðlaun DV í leiklist 1979, í fyrsta sinn sem þau voru veitt. Hann hefur hlotið ýmsar aðrar viðurkenningar, m.a. verðlaun úr Minningarsjóði frú Stefaníu Guðmundsdóttur. Þá hafa sýningar hans hlotið fjölda tilnefninga til Grímunnar. Veislan hlaut 11 tilnefningar 2003, m.a.fyrir bestu leikstjórn og sem sýning ársins; Killer Joe hlaut 8 tilnefningar 2007, m.a. fyrir bestu leikstjórn og sem sýning ársins; Allir synir mínir hlaut 6 tilnefningar 2011 þar á meðal fyrir bestu leikstjórn og sem sýning ársins og óperan Ragnheiður hlaut 10 tilnefningar 2014, þar á meðal fyrir bestu leikstjórn og hlaut svo Grímunuverðlaunin sem Sýning ársins 2014.Stefán hlaut Fálkaorðuna 2001 fyrir störf sín að leiklistarmálum og var gerður að heiðursfélaga Leikfélags Reykjavíkur 2013.  Árið 2016 hlaut hann Heiðursverðlaun Sviðslistasambands Íslands.