Kristín Jóhannesdóttir

Kristín Jóhannesdóttir leikstýrir Samþykki í Þjóðleikhúsinu leikárið 2018-2019

Kristín Jóhannesdóttir stundaði nám í bókmenntafræði (License ès lettres) og kvikmyndafræði í Montpellier og París og lauk þaðan maîtrise og DEA (f.hl. doktorsgráðu) í kvikmyndafræðum. Hún lauk ennfremur lokaprófi frá CLCF í kvikmyndaleikstjórn.

Kristín hefur skrifað handrit, og leikstýrt stuttmyndum, myndböndum og sjónvarpsmyndunum Líf til einhvers og Glerbrot. Hún er einnig höfundur handrita, framleiðandi og leikstjóri leikinna kvikmynda í fullri lengd, Á hjara veraldar (1983) og Svo á jörðu sem á himni (1992). Myndir hennar hafa verið sýndar víða erlendis og unnið til verðlauna á fjölmörgum hátíðum.

Kristín hefur verið frá upphafi virkur þátttakandi í uppbyggingu kvikmyndasviðs á Íslandi, hefur setið í stjórnum allra fagfélaganna, í stjórn Kvikmyndasjóðs, Listahátíðar, Kvikmyndahátíðar og Kvikmyndaklúbbs Íslands ofl.

Í leikhúsum hefur Kristín meðal annars leikstýrt Strompleik, Brennuvörgunum, Utan gátta, Svörtum hundi prestsins, Karma fyrir fugla, Segulsviði og Föðurnum í Þjóðleikhúsinu, Dómínó, Sumrinu '37, Ofanljósi, Horft frá brúnni, Vorið vaknar, Einhver í dyrunum, Beðið eftir Godot (í samvinnu við Kvenfélagið Garp), Rautt og Húsi Bernhörðu Alba í Borgarleikhúsinu, Svívirtum áhorfendum í Stúdentaleikhúsinu, Leikslokum í Smyrnu í Nemendaleikhúsinu og Draumleik hjá Listaháskóla Íslands. Einnig leikstýrði hún óperunni Tunglskinseyjunni sem frumflutt var í Peking og sýnd á Stóra sviði Þjóðleikhússins. Kristín hefur leikstýrt fjölda verkefna í útvarpi.

Kristín hlaut Grímuna - Íslensku leiklistarverðlaunin fyrir leikstjórn sína á Utan gátta eftir Sigurð Pálsson, en sýningin hlaut alls sex Grímuverðlaun, meðal annars sem leiksýning ársins. Hún var tilnefnd til Grímunnar fyrir leikstjórn sína á Föðurnum, Rautt og Endatafli. Hún hlaut Menningarverðlaun DV fyrir leikstjórn sína á Svörtum hundi prestsins. Hún hlaut heiðursverðlaun Eddunnar árið 2013.