Sólveig Arnarsdóttir

Leikkona

Sólveig leikur í Þínu eigin leikriti - Goðsögu og Súper í Þjóðleikhúsinu leikárið 2018-2019.

Sólveig Arnarsdóttir útskrifaðist úr leiklistarháskólanum Ernst Busch í Berlín árið 1999. 

Hún hefur leikið í fjölda sýninga hjá Þjóðleikhúsinu, LR og í leikhúsum í Þýskalandi og Sviss, auk þess sem hún hefur leikið í yfir fjörutíu sjónvarps- og kvikmyndum. 

Meðal verka sem hún hefur leikið í hér í Þjóðleikhúsinu má nefna Óvin fólksins, Hafið, Engla alheimsins, Strompleik, Böndin á milli okkar, Öxina og jörðina, Virkjunina og Engisprettur.

Sólveig hafði leikið töluvert áður en hún hélt utan til náms, og má þar nefna að hún fór með titilhlutverkið í Evu Lunu hjá Borgarleikhúsinu, lék í Litlu fjölskyldufyrirtæki og Í deiglunni í Þjóðleikhúsinu og í Litla sótaranum og Carmen í Íslensku óperunni. 

Eftir að hún lauk námi lék hún titilhlutverkið í Heimili Bernörðu Alba hjá B.A.T. Studiobühne "Ernst Busch" og Gabrielle í Schnitt ins Fleish hjá Maxim Gorki Theater í Berlín. Hún var á föstum samningi við Borgarleikhúsið í Wiesbaden, Staatstheater Wiesbaden, frá 2014-2017, þar sem hún lék 14 aðalhlutverk á þremur árum, meðal annars Geirþrúði drottningu í Hamlet, Arkardinu í Mávinum og titilrulluna í Mutter Courage eftir Brecht.

Sólveig hefur leikið í fjölda sjónvarps- og kvikmynda. Hér á Íslandi lék hún meðal annars aðalhlutverk í kvikmyndinni Inguló, í Lof mér að falla, Ófærð, Svörtum englum og Regínu. ÍÞýskalandi hefur hún leikið í Herz, Sternzeichen, Be.Angeled, Downhill City, Der Letzte Bus in Paradies, Wo das Meer ins Badezimmer Fliesst og Don Carlos. Einnig hefur hún leikið m.a. í sjónvarpsmyndunum Das Duo - Tod am Strand, Das Duo - Im Falschen Leben, Schluss mit Lustig, Geschichten aus dem Nachbarhaus, September og Zwischen Nacht und Tag.

Haustið 2019 flytur Sólveig til Berlínar og fer þar á fastan samning hjá Volksbühne.

Sólveig fékk Edduverðlaunin fyrir leik sinn í Svörtum englum. Hún var tilnefnd til Grímunnar fyrir leik sinn í Englum alheimsins.