Sólveig Arnarsdóttir

Leikkona

Sólveig Arnarsdóttir útskrifaðist úr leiklistarháskólanum Ernst Busch í Berlín árið 1999. Hún hefur leikið í fjölda sýninga hjá Þjóðleikhúsinu, LR og í leikhúsum í Þýskalandi og Sviss, auk þess sem hún hefur leikið í yfir fjörutíu sjónvarps- og kvikmyndum. Meðal verka sem hún hefur leikið í hér í Þjóðleikhúsinu má nefna Strompleik, Böndin á milli okkar, Öxina og jörðina, Virkjunina og Engisprettur.

Sólveig hafði leikið töluvert áður en hún hélt utan til náms, og má þar nefna að hún fór með titilhlutverkið í Evu Lunu hjá Borgarleikhúsinu, lék í Litlu fjölskyldufyrirtæki og Í deiglunni í Þjóðleikhúsinu og í Litla sótaranum og Carmen í Íslensku óperunni. Hún fór ennfremur með aðalhlutverk í kvikmyndinni Inguló.

Eftir að hún lauk námi lék hún titilhlutverkið í Heimili Bernörðu Alba hjá B.A.T. Studiobühne "Ernst Busch" og Gabrielle í Schnitt ins Fleish hjá Maxim Gorki Theater í Berlín. Sólveig hefur leikið í yfir 40 sjónvarps- og kvikmyndum auk Ingulóar. Hér á Íslandi lék hún í Regínu, en í Þýskalandi hefur hún leikið í Herz, Sternzeichen, Be.Angeled, Downhill City, Der Letzte Bus in Paradies, Wo das Meer ins Badezimmer Fliesst og Don Carlos. Einnig hefur hún leikið m.a. í sjónvarpsmyndunum Das Duo - Tod am Strand, Das Duo - Im Falschen Leben, Schluss mit Lustig, Geschichten aus dem Nachbarhaus, September og Zwischen Nacht und Tag.

Fyrsta hlutverk Sólveigar við Þjóðleikhúsið að námi loknu var Ljóna í Strompleiknum en í kjölfarið fylgdu Sabrina í Edith Piaf, Erna í Böndunum á milli okkar, Þórunn Jónsdóttir í Öxinni og jörðinni og ýmis hlutverk í VirkjuninniSólveig lék í Engisprettum.