Björn Ingi Hilmarsson

Leikari

  • bjorn-ingi-2018
Björn Ingi stýrir barna- og fræðslustarfi Þjóðleikhússins. Hann leikur jafnframt í Ronju ræningjadóttur á leikárinu 2018-2019.

Björn Ingi útskrifaðist úr Leiklistarskóla Íslands árið 1990. Hann hefur leikið í fjölda leiksýninga í Borgarleikhúsinu, Þjóðleikhúsinu, með leikhópum og í Svíþjóð. Hann var um skeið fastráðinn leikari við Borgarleikhúsið.

Meðal hlutverka hans í Borgarleikhúsinu eru Richard Hannay í 39 þrep, Biff í Sölumaður deyr, Stanley í Sporvagninn Girnd, Pozzo í Beðið eftir Godot, Bill Calhoun í Kysstu mig Kata,  Pétur Stokkmann í Fjandmaður fólksins, Arkadi Nikolajvits í Feður og Synir,  Pilatus í Jesus Christ Superstar, Solyoni í Þrjár systur og Tinkarlinn í Galdrakarlinn í Oz.

Björn Ingi hefur starfað með Íslenska dansflokknum og tekið þátt í fjölmörgum dans- og dansleikhúsuppfærslum. Hann starfaði með spunahópnum Follow the fun um árabil. 

Hann lék Loka sögumann í uppfærslu Íslensku  óperunnar á Niflungarhringnum á Listahátíð 1994.  

Björni Ingi hefur leikið í yfir tuttugu sjónvarps- og kvikmyndaverkefnum.

Árin 2010-2015 starfaði Björn Ingi í Svíþjóð, og lék yfir 600 sýningar á sænsku, aðallega hjá Teater Pero í Stokkhólmi. Hann lék í sjónvarpsþáttunum Äkta människor sem framleiddir voru af sænska ríkissjónvarpinu (SVT).

Hann lék í uppfærslu Annars sviðs og Norræna hússins á danska verðlaunaleikritinu Enginn hittir einhvern sem sýnt var á Akureyri, Reykjavík og í Færeyjum, en þar lék hann á færeysku.

Vorið 2016 hóf Björn Ingi störf við þjóðleikhúsið að nýju og leikstýrði sýningunni Lofthræddi örninn Örvar sem fór á sex vikna leikferð um landið. Ári síðar tók hann við barna- og fræðslustarfi Þjóðleikhússins. Hann hefur einnig leikstýrt hér  sýningunni Oddur og Siggi sem fór á leikferð um landið og var sýnd á Stóra sviðinu fyrir skólabörn og sýningunni Ég get í Kúlunni.

Björn Ingi mun leikstýra sýningu Grænlenska Þjóðleikhússins á Ronju Ræningjadóttur í janúar 2019.