Bjarni Snæbjörnsson

Bjarni leikur í Ronju ræningjadóttur, Jónsmessunæturdraumi og sirkussöngleiknum Slá í gegn hér í Þjóðleikhúsinu leikárið 2018-2019. Hann leikur einnig í samstarfsverkefninu Insomnia. 

 Bjarni  lauk leikaranámi með BFA gráðu frá leiklistardeild Listaháskóla Íslands 2007. Bjarni kláraði 5. stig í söng frá Söngskólanum í Reykjavík árið 2001 og er einnig með diplómu frá söngskólanum Complete Vocal Institute í Kaupmannahöfn. Árið 2015 lauk hann MA gráðu í listkennslu frá LHÍ.

Bjarni hefur sungið, leikið og skemmt við mýmörg tækifæri í um 20 ár og má þar helst nefna sem annar hluti dúettsins Viggó og Víóletta, í söngleikjatónleikaröðinni Ef lífið væri söngleikur og við ótalmörg brúðkaup, afmæli, árshátíðir og önnur gleðileg tilefni. Hann hefur leikið í Borgarleikhúsinu, hjá Leikfélagi Akureyrar og í Þjóðleikhúsinu þar sem hann tók þátt í Vesalingunum og samstarfsverkefninu Stertabendu. Þá hefur hann einnig leikið mikið með sjálfstæðum leikhópum í gegnum árin í Tjarnarbíói og víðar. Bjarni hefur sést á skjám landsmanna, t.d. í Hæ Gosa, Áramótaskaupinu og Stellu Blómkvist.  Þá hefur Bjarni verið hluti af sýningarhópi Improv Ísland frá upphafi.

www.facebook.com/bjarniperformer

www.instagram.com/bjarni.snaebjornsson