Ronja ræningjadóttir

Ronja ræningjadóttir vefleikskrá
Þú getur líka keypt prentaða leikskrá!
Leikarar og tónlistarfólk
RonjaSalka Sól Eyfeld
BirkirSigurður Þór Óskarsson
MatthíasÖrn Árnason
LovísaVigdís Hrefna Pálsdóttir
Lovísa (til vara)Selma Björnsdóttir
BorkiBaldur Trausti Hreinsson
ValdísEdda Arnljótsdóttir
Valdís (til vara)Birgitta Birgisdóttir
Skalla-PésaEdda Björgvinsdóttir
Litli-SkrattiOddur Júlíusson
Bjarni SnæbjörnssonStyrkár
Kráka / skógarnornÞórey Birgisdóttir
BrekiBjörn Ingi Hilmarsson
Breki (til vara)Snorri Engilbertsson
Bersi Sölvi Viggósson Dýrfjörð
Ræningi / grádvergur Ágúst Örn Börgesson Wigum
Ræningi / grádvergur Pétur Steinn Atlason
Skógarnorn / grádvergur / rassálfamamma / huldufólk / Borkaræningi (hópstjóri barna)Ísabella Rós Þorsteinsdóttir
Skógarnorn / grádvergur / rassálfamamma / huldufólk / Borkaræningi (hópstjóri barna)Kolbrún María Másdóttir
Rassálfur / grádvergur / skógarnorn / litla RonjaSelma Rún Rúnarsdóttir
Rassálfur / grádvergur / skógarnorn / litla RonjaRakel María Gísladóttir
Rassálfur / grádvergur / yrðlingurHrafnhildur Hekla Hólmsteinsdóttir
Rassálfur / grádvergurDaði Víðisson
Rassálfur / grádvergur / yrðlingurMikael Köll Guðmundsson
Rassálfur / grádvergur Ólöf Birna Ólafsdóttir
Rassálfur / grádvergur / skógarnorn / litla RonjaAgla Bríet Gísladóttir
Rassálfur / grádvergur / skógarnorn / litla Ronja / yrðlingurTinna Hjálmarsdóttir
Rassálfur / grádvergur / yrðlingurAlmar Örn Arnarson
Rassálfur / grádvergurLúkas Emil Johansen
- Hljómborð, harmonikka og hljómsveitastjórnHjörtur Ingvi Jóhannsson
- Tréblásturshljóðfæri og slagverk / ræningiAron Steinn Ásbjarnarson
- RafbassiIngibjörg Elsa Turchi
- Trommur og slagverkMagnús Örn Magnússon
- Fiðla, banjó og mandólín / ræningiMatthías Stefánsson
- Kassagítar og rafgítar / ræningiRögnvaldur Borgþórsson
Aðstandendur
- Höfundur
Astrid Lindgren - Leikgerð
Annina Enckell - Tónlist og söngtextar
Sebastian - Leikstjórn
Selma Björnsdóttir - Tónlistarstjórn og útsetningar
Hjörtur Ingvi Jóhannsson - Danshöfundar
Birna Björnsdóttir og Auður B. Snorradóttir - Leikmynd
Finnur Arnar Arnarson - Búningar
- Lýsing
Ólafur Ágúst Stefánsson - Myndband
Ingi Bekk - Hljóðmynd
Aron Þór Arnarsson og Kristinn Gauti Einarsson - Þýðing leiktexta
Þorleifur Hauksson - Þýðing söngtexta
Böðvar Guðmundsson - Sýningastjórn
Elín Smáradóttir - Aðstoðarleikstjórn
Hildur Jakobína Tryggvadóttir - Textaaðstoð
Tryggvi Freyr Torfason - Bardagaatriði
Oddur Júlíusson - Leikgervi
María Th. Ólafsdóttir, Silfá Auðunsdóttir, Ásta S. Jónsdóttir og Þóra G. Benediktsdóttir
- Förðun og hárkollugerð
Silfá Auðunsdóttir (yfirumsjón), Ingibjörg G. Huldarsdóttir, Valdís Karen Smáradóttir - Hárgreiðsla
Þóra Guðbjörg Benediktsdóttir (yfirumsjón), Guðrún Erla Sigurbjarnadóttir - Búningadeild
Berglind Einarsdóttir (deildarstjóri og yfirumsjón sýningar), Ásdís Guðný Guðmundsdóttir, Hjördís Sigurbjörnsdóttir, Leila Arge, Sonny Þorbjörnsdóttir, Ingveldur E. Breiðfjörð (búningaumsjón) - Búningaumsjón á sýningum
Sigurbjörg Stefánsdóttir, Guðríður Hafsteinsdóttir, Aníta Rós Þorsteinsdóttir - Leikmunir
Ásta Sigríður Jónsdóttir (yfirumsjón) - Hljóðmaður
Eysteinn Aron Halldórsson - Ljósastjórn
Hermann Karl Björnsson - Stóra sviðið, yfirumsjón
Haraldur Levi Jónsson
- Leikmyndarsmíði og -málun
Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins og sviðsmenn
- Yfirsmiður
Michael John Bown - Smiðir
Arturs Zorgis, Alex Hatfield, Hildur Evlalía Unnarsdóttir, Gísli Bjarki Guðmundsson - Yfirformlistamaður
Björgvin Már Pálsson - Málarar og formlistamenn
Rebecca Scott Lord, Dagur Alex Ingason, Guðjón Bergmann, Viðar Jónsson, Sigurlaug Knudsen - Sviðsmenn
Haraldur Levi Jónsson, Gísli Bjarki Guðmundsson, Eglé Sipaviciute, Siobhán Antoinette Henry, María Arnardóttir, Margrét Agnes Iversen, Arnar Geir Gústafsson, Hera Katrín Aradóttir - Umsjón með börnum
Anna Róshildur Benediktsdóttir Bøving, Arngunnur Hinriksdóttir, Selma Rán Lima - Ljósmyndir
Olga Helgadóttir - Sýningarréttur
Nordiska Aps - Copenhagen - Frumsýning
Stóra sviðið, 15. september 2018
Astrid Lindgren
Manst þú eftir Línu Langsokk, sterku stelpunni með rauðu flétturnar sem á apa og hest og fulla kistu af gullpeningum? Kannastu við Emil í Kattholti, sem gerði ótal fyndin skammarstrik og þurfti að dúsa í smíðaskemmunni þar sem hann dundaði sér við að tálga spýtukarla? Manstu eftir Snúð og Jónatan Ljónshjarta, sem lentu í ævintýrum í Nangijala? Og hefurðu kynnst sjálfri Ronju ræningjadóttur, sem þessi leiksýning fjallar um? Ef þú þekkir þessar sögupersónur þekkir þú líka Astrid Lindgren, því það var hún sem samdi bækurnar um þær.
Astrid Lindgren skapaði margar aðrar skemmtilegar sögupersónur, eins og til dæmis börnin í Ólátagarði, Míó, Madditt, Kalla á þakinu, leynilögreglumanninn Karl Blómkvist og börnin á Saltkráku. Allar þessar litríku persónur og ævintýri þeirra hafa gert Astrid Lindgren að einum vinsælasta barnabókahöfundi í heimi. Eftir mörgum bókum hennar hafa verið gerðar kvikmyndir, teiknimyndir og leikrit, rétt eins og söngleikurinn um Ronju ræningjadóttur sem núna er sýndur í Þjóðleikhúsinu.
Astrid Lindgren fæddist árið 1907 og lést árið 2002, 94 ára að aldri. Hún ólst upp í Smálöndunum í Svíþjóð, á bóndabæ sem heitir Nes, nálægt þorpinu Vimmerby. Kannski manstu eftir því að Emil í Kattholti er líka úr Smálöndum? Astrid ólst upp í gömlu, rauðu húsi með eplatrjám í kring. Svo virðist sem hún og systkini hennar hafi lifað fjörugu lífi líkt og krakkarnir í Ólátagarði og æskuár hennar verið hamingjurík. Astrid segir að það sem hafi gert bernskuna svona skemmtilega hafi verið að börnin í Nesi hafi búið í senn við öryggi og frelsi. Öryggið fólst í því að í kringum þau var alltaf fullorðið fólk sem þau gátu treyst og leitað til hvenær sem var. Frelsið kom til af því að fullorðna fólkið var svo upptekið við vinnu sína að það hafði ekki tíma til að hafa stöðugt auga með krökkunum. Astrid hefur lýst því hvernig börnin klifruðu í trjánum og eftir húsþökum, stukku ofan af heysátum, bjuggu til sín eigin neðanjarðargöng og busluðu í ánni áður en þau lærðu að synda.
Astrid starfaði meðal annars sem ritari, og vann við fjölmiðla og bókaútgáfu, en hún byrjaði ekki að senda frá sér bækur fyrr en hún var komin undir fertugt. Astrid eignaðist tvö börn, Karin og Lars, og fyrstu sögur sínar samdi hún til að skemmta þeim. Þegar Karin var sjö ára veiktist hún af lungnabólgu og kvöld eitt bað hún mömmu sína að segja sér sögu um stelpu sem ætti að heita Lína Langsokkur. Næstu kvöld spann Astrid upp sögur um þessa stelpu án þess að vita í upphafi neitt um hana nema það að hún héti mjög skrýtnu nafni og hlyti þess vegna að vera mjög skrýtin stelpa. Astrid hélt áfram að semja sögur um Línu Langsokk fyrir Karin og vini hennar og síðar skrifaði hún þær niður. Hún gaf Karin handritið á tíu ára afmælinu hennar og sendi síðan afrit til bókaútgefanda. Hún var svolítið kvíðin yfir því að senda frá sér sögu um svona óþekka og skrýtna stelpu og í bréfi sem hún sendi útgefandanum stóð: „Í þeirri von að þið kallið ekki á barnaverndarnefndina“!
Fyrsta bókin um Línu kom út árið 1945 og varð strax mjög vinsæl. En þó voru ýmsir sem hneyksluðust á bókinni og höfðu áhyggjur af því að nú færu börn að hegða sér eins og Lína. „Ekkert eðlilegt barn hámar í sig heila rjómatertu í kaffiboði“, skrifaði einn gagnrýnandi. Astrid var svo sem sammála því. En hún bætti við: „Ekkert eðlilegt barn lyftir heldur upp heilum hesti með annarri hendinni. En sú sem getur það ætti að fara létt með að gleypa í sig heila rjómatertu!“
Sagnaheimur Astridar Lindgren er fjölbreytilegur. Sumar bækur hennar lýsa lífi í sveit eða smábæ, aðrar gerast í borg. Sumar sækja efnivið í daglegt líf, en aðrar gerast í heimi ímyndunaraflsins og ævintýranna. Margar bækur Astridar eru bráðfyndnar, aðrar ógurlega spennandi og í sumum er fjallað um sorgleg viðfangsefni. Meðal þess sem einkennir bækur Astridar er hlýja, kímnigáfa og lífsgleði, og rík tilfinning fyrir því ævintýralega í lífinu. En Astrid er líka óhrædd við að takast á við alvarlegar spurningar, um líf og dauða, gott og illt.
Skáldsagan um Ronju ræningjadóttur kom fyrst út árið 1981, og er ein af vinsælustu bókum Astridar Lindgren. Þekkt sænsk kvikmynd frá árinu 1984 er byggð á bókinni, og til eru ýmsar leikgerðir af sögunni. Söngleikurinn sem Þjóðleikhúsið sýnir nú var frumsýndur í Danmörku árið 1991 og danski tónlistarmaðurinn Sebastian samdi lög og söngtexta. Söngleikurinn var sýndur í Borgarleikhúsinu 1992 og 2006, en er nú sýndur í fyrsta sinn í Þjóðleikhúsinu.
Tónlist
Söngtextar
Úlfasöngurinn
Úti heyri ég úlfsins gól,
inni vagga ég barni,
næðir vindur um hlíð og hól,
hér er logi á arni.
Þú úlfur, úlfur, ber þig burt,
barn í örmum mér vef ég,
þú úlfur, úlfur, ber þig burt,
barn mitt þér aldrei gef ég.
Úlfur vælir um vetrarnótt,
vel skal barninu hlífa.
Sultur hefur að honum sótt,
hann vill barn í sig rífa.
Þú úlfur, úlfur, ber þig burt, o.s.frv.
Sof nú væran, ég vagga þér,
veröld bíður þín síðar,
sofðu rótt sem ég raula mér,
reikar úlfur um hlíðar.
Þú úlfur, úlfur, ber þig burt, o.s.frv.
Ronja ræningjadóttir
Ronja Ræningjadóttir, ræningjakóngsins dóttir,
hún er glöð, já, hún er glöð,
því mamma hennar fæddi
hana þegar þrumuveðrið æddi.
Ronja Ræningjadóttir, ræningjakóngsins dóttir,
hvar er hún, já hvar er hún?
Milli grænna greina
hlustar hún á fuglasönginn hreina.
Ronja aðeins skelfist skógarnornir
er skrækja þær og fljúga ólmar um.
Menn og nornir fjendur eru fornir.
Feldu þig í skógi skjótt,
hyldu þig uns húmar nótt,
hestum bjóddu góða nótt.
Ronja Ræningjadóttir, ræningjakóngsins dóttir.
Hann er stór og hraustur mjög,
kann því ei að kvarta
nema Ronja renni með hans hjarta.
Ronja Ræningjadóttir, ræningjakóngsins dóttir,
komdu heim, já komdu heim.
Kvaldir illum kvíða
allir heima eirðarlausir bíða.

Anímónusöngur
Ljósan daginn anímónur anga,
fuglar syngja, flæðir geislaglit um vanga.
Þegar rökkvar rökkurvættir ganga,
rassálfar og næturskrímsl í trjánum hanga.
Ó, anímónur,
blómin hreinu, hyljið gengin spor,
ó, anímónur,
hvítu vinir, það er komið vor.
Allan daginn allt á þönum þýtur,
allir keppast upp á sínar eigin spýtur.
Þegar rökkvar stjarnan ljósa lítur
lítinn dverg sem skelfdum, rauðum augum gýtur.
Ó, anímónur,
breiðið á mig ykkar hvíta lín,
ó, anímónur,
undir stjörnuskini, blómin mín.
Ó, anímónur,
blómin hreinu, hyljið gengin spor,
ó, anímónur,
hvítu vinir, það er komið vor.
Grádvergasöngur
Áfram nú, grádvergar, grádvergar smá,
við skulum slá,
við skulum flá.
Áfram nú, grádvergar, grádvergar smá,
við skulum slá,
við skulum flá.
Grádvergar, henni nú göngum við frá,
hún er ein hér að þvælast,
já, það skal hún fá,
skal hún, já,
bíta, slá,
berja, flá,
skal hún, fá,
uns hún byltist um æpandi bakinu á,
gul og blá.
Áfram nú, grádvergar, grádvergar smá,
við skulum gá,
við skulum sjá.
Grádvergar, mannvera gengur nú hjá,
hún að launum skal hártog
og löðrunga fá,
einn tvo, þrjá
skal hún sjá,
skal hún, já,
skal hún fá,
uns hún byltist um æpandi bakinu á,
gul og blá.
Prumpsöngur
Ef fylgisveinar fógetans
birtast, birtast hér,
ef fylgisveinar fógetans
birtast hér,
við látum eins og ekkert sé,
agnarlítið beygjum hné,
og hneppum linda, losum þveng,
leysum buxnastreng
og beygjum okkur, einn, tveir, þrír
og ógurlegur heyrist gnýr.
Prumpurumpurump prump
Prumpurumpurump
prumpurumpu.
Prumpurumpurump, prump
Prumpurumpurump
Og þeir fjúka. Hvurt? Burt!
Og þeir fjúka. Hvurt? Burt!
Ef gægist hingað glyrna flá
grá, grádverga, þá
ef gægist hingað glyrna flá
grá, grá, þá
við látum eins og ekkert sé,
agnarlítið beygjum hné
svo blasi allra augum við
allsbert rassgatið,
við beygjum okkur einn, tveir, þrír
og ógurlegur heyrist gnýr.
Prumpurumpurump prump
o.s.frv.
Ef Borkaþjófar birtast hér,
Borkaþjófar hér,
ef Borkaþjófar birtast hér,
Borka hér,
við látum eins og ekkert sé,
agnarlítið beygjum hné
og byrjum stormablástur þar,
- byrgjum nasirnar -,
og þrumustorminn þeir svo fá
sem þegar opnaðist vítisgjá.
Þrumurumugný, prump
þrumurumugný,
þrumurumu,
þrumurumugný, prump,
þrumurumugný.
Og fjúka síðan. Hvurt? Burt!
Og fjúka síðan. Hvurt? Burt!
Söngur Birkis og Ronju
Hver segir þú eigir skóginn?
Hver segir skóginn átt þú?
Hver segir: Þú átt þessa refi?
Hver segir: Hellinn átt þú?
Hann er mín eign meir en þín eign
láttu allt hér eiga sig,
ég var fyrst að finna hellinn hér,
farðu nú, burt með þig!
Þú skalt þegja, þessi skógur á sig alveg einn,
uglur, refi, birni, fugla á hér ekki neinn.
15x Do!
Þau á hér ekki neinn.
Ekki neinn!
Eins og steinn
skaltu halda þér saman, já hypjaðu þig.
Hættu nú.
Heldur þú
að þér lánist að losna við mig?
Ha?
Hver segir þú eigir fuglinn,
himinblámann og tréð?
Lát hann fljúga burt frjálsan
en þú flýgur ei með.
Þetta er mitt tré meir en þitt tré,
láttu allt hér eiga sig.
Ég varð fyrst að finna hreiðrið hér,
farðu nú, burt með þig!
Þú skalt þegja, þessi skógur á sig alveg einn,
o.s.frv…
Ekki neinn!
Eins og steinn
skaltu o.s.frv…
Hver segir: Blómið er þitt blóm?
Hver segir: Engið átt þú?
Hver segir: Býin eru þín bý?
Bara þau styngju þig nú!
Það er mitt blóm meir en þitt blóm,
af því fyrst ég fann þau hér,
þú kannt ekki nafn á neinni jurt!
Farðu nú! Forða þér!
Vittu því að þessi skógur á sig alveg einn,
einnig skógardýraskarinn á sig alveg einn.
Ræningjasöngurinn
Við hraustan eigum höfðingjann,
þótt hugsun snjöll ei prýði hann.
Hans hjarta á sér engan brest
að því við vitum best.
Hann gerir margt að gamni sín,
hann bergir mjöð og brennivín,
og yfir krásum kátur gín,
gættu, gættu þín.
Já, höfðinginn sér hrósar snjall
og hljómar eins og generall,
og hann veit allt um ekki neitt,
vottast vítt og breitt.
Óvinirnir fjörkipp fá,
flýr þar hver sem betur má,
ef þeir sjá hans svarta koll
setur að þeim hroll.
Komi menn hann auga á,
ýmsir flýja, sumir fá
iðraverk og óskapast,
aðrir hláturskast.
Já, ein er þó í okkar flokk
sem engan ber á höfði lokk,
já, háðsglott margur henni gaf,
hárið datt því af.
Hér lítil stúlka leikur hjá
sem líkjast föður sínum má.
Ég vildi að ég væri fín
eins og mamma mín.
Já, úrvalskonu eigum við
sem oft má þjást við manns síns hlið.
Já, fyrir ást, var eitt sinn sagt,
skal allt, skal allt í sölur lagt.
Óvinirnir fjörkipp fá,
o.s.frv….
Við hraustan eigum höfðingjann,
um hark og slagsmál dreymir hann,
svo það er bæði synd og sorg
að enginn ráðist á hans borg!
Óvinirnir fjörkipp fá,
o.s.frv….
Þvottadagur
Nú skulu allir upp að skoða,
burt með skít og burt með hroða,
í einni röð hér allir standi
enginn má nú vola.
Það er kominn þvottadagur,
þá skal ykkur skola.
Það er kominn þvottadagur,
þá skal okkur skola.
Burt með lýsnar, burt með flærnar,
sápuþvoið súrar tærnar,
þjófaklærnar þvoið líka,
það mun engan skaða.
Það er kominn þvottadagur,
þá skal ykkur baða.
Það er kominn þvottadagur,
þá skal okkur baða.
Ef það kemur á mig vatn
ákaft fæ ég kvefið.
Já, ef þú þværð þér ekki strax
þá af þér slít ég nefið!
Ef það kemur á mig vatn
iðrakveisu fæ ég.
Og ef þú þværð þér ekki strax
þig utanundir slæ ég.
Sápan fer í augun,
gættu að hvað þú gerir.
Mér er sama þó þið hérna
hímið lengur berir.
Það á að skrúbba þjó og krika,
það á að bora í nefið líka,
ef þið sýnið undanbrögð
þá er mér að mæta.
Það er kominn þvottadagur,
þá skal ykkur væta.
Það er kominn þvottadagur,
þá skal okkur væta.
Vatnið er svo kalt, svo kalt,
krókna ég í þessu.
Ef þú lætur lengi svona
lem ég þig í klessu.
Ekki þarf ég þrifabað,
þvoði ég mér í bárum.
Flónið þitt, þú fórst í sjóinn
fyrir tíu árum!
Sápan fer í augun,
gættu að hvað þú gerir!
Mér er sama þó þið hérna
hímið lengur berir.
Það er kominn þvottadagur,
þá skal okkur baða.

Vorsöngur
Það er vor!
Það er vor og nú sækjum við sólina inn.
Það er vor, vo-ho-hor!
Allt er svo indælt um sinn.
Það er vor
og nú teygum við vorloftið tært og svo milt,
það er vor, vo-ho-hor.
Sálin er sólskini fyllt.
Það er vor.
Eftir vetrarins þrálátu þraut
þá kom vor.
Mildur þeyvindur ísana braut,
þá kom vor.
Er það nú
sem við dönsum og förum í höfrungahlaup?
Er það nú? Ú-ú-ú.
í hástökk og skógarkapphlaup.
Það er nú!
Útí tunglsljósi hitti ég hjartansvin minn.
Það er nú. Jú-hú-hú!
Og með honum ég leyndardóm finn!
Það er vor.
Eftir vetrarins þrátlátu þraut
þá kom vor.
Mildur þeyvindur ísana braut.
Þá kom vor.
Rassálfasöngur
Kurru etta, kurru etta?
Kurru þa og hitt og hitt og etta?
Kurru bæði svona illa láta?
Þetta er gáta.
Allar gátur eru gátur.
Kurru eru allar gátur gátur?
Kurru vitum við svo agnarlítið?
Þa er þó skrýtið.
Akkurru öll þau læti, þau öskur og óp
Þau hoppa og skoppa og skammast.
Já, akkurru þá?
Akkurru , akkurru þá, þá, þá?
Akkurru, akkurru?
Kurru etta, kurru etta?
Kurru þa og hitt og hitt og etta?
Kurru bæði svona illa láta?
Þetta er gáta.
Þa er gáta hve þau láta,
að þau slá og bíta svo þau gráta.
Kurru brosa þau svo bæði saman?
Er etta gaman?
Akkurru tala þau saman, brosa svo breitt?
Því spyrja þau svo aldrei okkur?
Nei, akkurru þá?
Kurru etta, kurru etta?
Kurru þa og hitt og hitt og etta?
Kurru bæði svona illa láta?
Þetta er gáta.
Akkurru þau svo fara og koma á ný?
Því fara þau burtu er dimmir?
Já, akkurru þá?
Kurru við þá gátu stöðugt strita?
Til þess að vita!!!
Útför Skalla-Pésu
Vina mína,
við munum hittast aftur eitt sinn.
Langt í burtu er friðinn að finna,
vina mín,
við munum hittast aftur eitt sinn.
Langt í burtu þar sjáumst við aftur,
vina mín.
Sofðu vært, vina mín,
sjáumst aftur.
Viðtal við Selmu Björnsdóttur leikstjóra
Hvers vegna varstu spennt fyrir því að setja Ronju ræningjadóttur á svið?
Bókin um Ronju ræningjadóttur var ein af mínum uppáhaldsbókum í æsku, ég sá myndina líka nokkrum sinnum. Ronja er kvenhetja sem ég leit upp til og geri ennþá. Hún er sjálfstæð og hugrökk stelpa sem er óhrædd við að bjóða gömlum gildum byrginn og hún er fylgin sér.
Uppáhaldspersóna í sögunni um Ronju?
Ronja sjálf, því ég fann samhljóm með henni í æsku. Mig langaði að vera hún þegar ég var lítil og búa í Matthíasarborg.
Er eitthvað sem við getum lært af sögunni um Ronju ræningjadóttur?
Já, það er margskonar mikilvægur boðskapur í þroskasögu Ronju, en uppáhaldssetningin mín í verkinu er eftirfarandi setning sem Ronja segir við Birki: „Ég er að hugsa um hvað það er auðvelt að eyðileggja allt, alveg að ástæðulausu.“ Það er boðskapur sem snertir mig mikið.
Uppáhaldsbók eftir Astrid Lindgren?
Það er erfitt að svara því, ég las margar bækur eftir Astrid Lindgren þegar ég var barn. Ronja ræningjadóttir er kannski í mestu uppáhaldi, en einnig Bróðir minn Ljónshjarta og Lína Langsokkur. Börnin í Ólátagarði og Emil í Kattholti eru ekki langt undan.
Hvernig kviknaði áhugi þinn á leiklist?
Ég byrjaði að leika sem barn í Þjóðleikhúsinu, lék Kamillu í Kardemommubænum þegar ég var tíu ára. Þar kviknaði áhuginn minn og hann hefur bara aukist með árunum.
Hefur leikhúsið mikilvægu hlutverki að gegna?
Leikhúsið á að spegla samtímann, hrista upp í honum og gagnrýna hann en líka segja okkur sögur og ævintýri, bæði úr samtímanum og frá því gamla daga. Það er fátt skemmtilegra en að setjast í sætið sitt í leikhúsinu og upplifa töfrana á sviðinu, að fá að fara í ferðalag um ókunnar slóðir og kynnast nýjum persónum, eða sjá æskuhetjurnar sínar lifna við á sviðinu.
Hvaða ráð myndir þú gefa krökkum sem hafa áhuga á því að leika?
Að fara á leiklistarnámskeið og vera dugleg að koma í leikhúsið og sjá leiksýningar.
Viðtöl við börn og unglinga í leiksýningunni
Kolbrún María Másdóttir
er í 3. bekk í Verslunarskóla Íslands
Reynsla af leiklist?
Hér í Þjóðleikhúsinu lék ég Kamillu í Kardemommubænum, ég lék líka í Oliver! og Fjarskalandi. Ég byrjaði að æfa dans hjá Dansskóla Birnu Björns þegar ég var sex ára og hef tekið þátt í sýningum á vegum skólans. Ég bjó í Dubai í sex ár, og tók þar þátt í margskonar nemendasýningum. Ég lék í söngleiknum Framleiðendunum á vegum Nemendamóts Versló.
Uppáhaldspersóna í Ronju?
Lovísa, hún er svo sterk kvenpersóna og góð fyrirmynd. Hún stendur vel á sínu, stjórnar heimilinu og er nógu ákveðin til þess að ræningjarnir hlýði henni.
Er eitthvað sem við getum lært af sögunni um Ronju ræningjadóttur?
Ekki trúa í blindni öllu því sem maður heyrir, maður verður að finna út úr því sjálfur hvað er satt. Ronju var til dæmis alltaf kennt að líta á Borkaræningja sem óvini og að þeir væru allir illmenni, en svo kemst hún að því að Borki og hans fólk er bara mjög svipað Matthíasi og hans fólki.
Eftirlætisbók eftir Astrid Lindgren?
Lína Langsokkur, Lína er svo skemmtilegur karakter.
Hvað er mest spennandi við leikhúsið?
Leikhúsið býður upp á ákveðið frelsi til að takast á við ólíka hluti, þar er hægt að tala um hluti sem eru tabú, ögra fólki og skemmta því. Sjálf hef ég mest gaman af söngleikjum.
Hvers vegna er leikhús mikilvægt?
Það býður fólki upp á að móta sér skoðanir á allskyns málum og veitir góða afþreyingu.
Pétur Steinn Atlason
er í 1. bekk í Verslunarskóla Íslands
Reynsla af leiklist?
Ég lék í Bláa hnettinum í Borgarleikhúsinu. Ég hef verið í listhóp í Sönglist í sex ár, leikið í jólaleikriti Borgarbarna og í tveimur útvarpsleikritum.
Uppáhaldspersóna í Ronju?
Litli-Skratti, mér finnst Oddur leika hann rosalega vel, hann er svo fyndinn.
Er eitthvað sem við getum lært af sögunni um Ronju ræningjadóttur?
Að dæma ekki fólk af útlitinu eða því sem blasir við manni í fyrstu.
Eftirlætisbók eftir Astrid Lindgren?
Lína Langsokkur, hún var oft lesin fyrir mig þegar ég var lítill. Mér fannst öll prakkarastrikin sem Lína gerði svo skemmtileg.
Hvað er mest spennandi við leikhúsið?
Sjálfur hef ég mest gaman af því að fara á farsa.
Hvers vegna er leikhús mikilvægt?
Maður á alltaf skilið að hlæja aðeins!
Ísabella Rós Þorsteinsdóttir
er á 3. ári í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ
Reynsla af leiklist?
Hér í Þjóðleikhúsinu lék ég í Fjarskalandi, Leitinni að jólunum, Dýrunum í Hálsaskógi, Oliver! og Kardemommubænum. Í Borgarleikhúsinu lék ég í Línu Langsokk, Beðið eftir Godot og Fanný og Alexander, þar sem ég lék Fanný. Ég lék í kvikmyndinni Bjarnfreðarson, hef leikið í stuttmyndum og auglýsingum og unnið við talsetningu. Ég hef æft dans frá fimm ára aldri hjá Dansskóla Birnu Björns og hef komið fram sem dansari við ýmis tækifæri.
Uppáhaldspersóna í Ronju?
Litli-Skratti sem Oddur leikur, hann er svo fyndinn og skemmtilegur, alger klaufi.
Er eitthvað sem við getum lært af sögunni um Ronju ræningjadóttur?
Já, mikilvægi þess að kunna að fyrirgefa öðrum, allt verður svo miklu betra eftir að fólk hefur náð að sættast.
Eftirlætisbók eftir Astrid Lindgren?
Lína Langsokkur, hún er skemmtilegur karakter, sterk stelpa sem sýnir okkur að stelpur geta allt.
Hvað er mest spennandi við leikhúsið?
Það að vera á sviði hefur heillað mig alveg frá því að ég var lítil. En sem áhorfanda finnst mér skemmtilegast að sjá söngleiki, og hrífast með stuðinu í fjölmennum atriðum, þar sem verið er að syngja og dansa.
Hvers vegna er leikhús mikilvægt?
Leikhúsið eflir menninguna og veitir fólki almenna skemmtun.
Ágúst Örn Börgesson Wigum
er í 1. bekk í Verslunarskóla Íslands
Reynsla af leiklist?
Hér í Þjóðleikhúsinu lék ég í Í hjarta Hróa hattar, Óvitum, Macbeth og Oliver. Í Borgarleikhúsinu lék ég í Bláa hnettinum og Línu Langsokk. Svo lék ég í Stefán rís í Gaflaraleikhúsinu. Ég hef leikið í kvikmyndunum Eldfjalli og Hvalfirði, sjónvarpsþáttaröðinni Hrauninu, Stundinni okkar, Áramótaskaupinu og stuttmyndum fyrir Kvikmyndaskóla Íslands. Ég hef líka talsett teiknimyndir og kvikmyndir. Fyrir leik minn í Hvalfirði fékk ég tilnefningu til Edduverðlaunanna og var valinn leikari ársins á Brooklyn International Film Festival.
Uppáhaldspersóna í Ronju?
Skalla-Pésa, hún er svo skemmtilegur karakter. Hún segir oft hluti án þess að átta sig á því hvað það sem hún er að segja hljómar fáránlega, og getur verið kaldhæðin án þess að hafa ætlað sér það.
Er eitthvað sem við getum lært af sögunni um Ronju ræningjadóttur?
Að vera opin fyrir breytingum, og halda ekki of fast í það sem við eigum að venjast.
Eftirlætisbók eftir Astrid Lindgren?
Kalli á þakinu. Ég man að þegar ég var lítill langaði mig að vera strákurinn í sögunni, mér fannst svo töff að eiga vin sem getur flogið með mann um!
Hvað er mest spennandi við leikhúsið?
Eitt af því sem mér finnst áhugavert við að leika er að þegar maður er á sviði getur maður verið maður sjálfur, og þarf ekki að passa inn í einhvern ramma sem samfélagið hefur skapað manni. Sem áhorfanda finnst mér áhugaverðast að sjá sýningar sem fá mann til að hugsa. Mér finnst líka gaman að fylgjast með leikurum takast á við sín hlutverk, og þá sérstaklega hlutverk sem krefjast þess af leikaranum að hann kafi djúpt í persónuna til að finna út hvaða manneskja þetta er.
Hvers vegna er leikhús mikilvægt?
Eins og aðrar listgreinar þá getur leikhúsið gefið fólki mjög mikið, og kveikt hugmyndir sem geta jafnvel haft áhrif á framtíð okkar allra.
Sölvi Viggósson Dýrfjörð
er á öðru ári í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ
Reynsla af leiklist?
Ég lék titilhlutverkið í Billy Elliot og lék líka í Bláa hnettinum í Borgarleikhúsinu, og núna er ég að leika í sirkussöngleiknum Slá í gegn hér í Þjóðleikhúsinu.
Uppáhaldspersóna í Ronju?
Í þessari uppsetningu er það væntanlega Skalla-Pésa, hún er bara svo fyndin, algert æði.
Er eitthvað sem við getum lært af sögunni um Ronju ræningjadóttur?
Í Ronju er áhugavert að skoða hvernig rígur milli fólks og hópa getur byggst upp, og endað illa. Líka hvernig manneskja sem þú þekkir vel er í þínum augum bara frábær og góð, en svo þegar þú sérð hana með augum annarra þá kannski kemur ýmislegt annað í ljós.
Eftirlætisbók eftir Astrid Lindgren?
Mér fannst mjög gaman að Börnunum í Ólátagarði þegar ég var lítill, svo horfði ég líka mikið á þætti um Línu Langsokk.
Hvað er mest spennandi við leikhúsið?
Það fer eftir tímabilum, stundum fæ ég nóg af einhverju, og þá langar mig til að sjá eitthvað allt annað. Ef maður sér mikið af svipuðu efni, hvort sem það eru söngleikir, dramatísk leikrit, listrænar, abstrakt sýningar eða farsar, þá fer mann að langa til að sjá eitthvað allt annað. Ég finn fyrir ákveðnu frelsi við að leika og standa á sviði, það er alltaf eitthvað nýtt að gerast, og maður getur farið inn í annan heim. Það er frábært ef maður er kannski heima hjá sér og leiðist, kemur svo í leikhúsið og getur verið önnur manneskja í tvo tíma!
Hvers vegna er leikhús mikilvægt?
Leikhús, bíómyndir og bækur geta sýnt fólki lífið í ólíkum myndum, aðstæður sem fólk hefur ekki sjálft lent í, og þannig opnað heiminn fyrir fólki. Fólk getur lært ýmislegt af leikhúsinu, og það er gott fyrir samfélagið. Sem dæmi má nefna krakka eða ungling sem tekur ekki mark á skömmum, en ef hann svo sér leiksýningu um sömu aðstæður, og sér hvernig hlutirnir geta endað, þá skilur hann þetta betur. Svo er leikhús líka bara skemmtilegt, og skemmtun er mikilvæg.
Selma Rún Rúnarsdóttir
er í 6. bekk í Sjálandsskóla
Reynsla af leiklist?
Ég lék í Fjarskalandi og Í hjarta Hróa hattar hér í Þjóðleikhúsinu. Ég æfi dans í Dansskóla Birnu Björns.
Uppáhaldspersóna í Ronju?
Rassálfarnir eru mjög skemmtilegir, þeir eru eins og lítið barn sem er nýfætt í heiminn, að skoða allt og bregðast við öllu. En ég myndi fá martröð af grádvergunum!
Er eitthvað sem við getum lært af sögunni um Ronju ræningjadóttur?
Já, ekki fara frá foreldrum sínum - foreldrar mínir eru eitt það mikilvægasta í lífi mínu! Líka að vera hugrakkur, því ef þú treystir á sjálfan þig þá geturðu allt sem þú vilt.
Eftirlætisbók eftir Astrid Lindgren?
Ég elska Lottu! Þegar ég var lítil og horfði á Emil í Kattholti tálga alla þessa karla, skildi ég að maður getur bara búið til eitthvað úr einhverju, og það geri ég í smíði. Og svo er Lína Langsokkur mitt uppáhald, hún er alger hetja, ég lærði svo mikið af henni, hún er svo sterk, eins og Ronja, hugsar bara: „Ég kann þetta ekki, en ég mun bara læra þetta!“
Hvað er mest spennandi við leikhúsið?
Það er svo gaman að vera í leikhúsinu, fólkið er svo skemmtilegt, hlær með manni og segir manni skemmtilegar sögur. Ég villist eiginlega aldrei baksviðs. Svo er svo gaman að láta fólkinu í salnum líða vel, mér líður betur í hjartanu eftir hverja sýningu. Mér finnst gaman að sjá sýningar sem fá mig til að hlæja en eru líka sorglegar, eins og Oddur og Siggi sem var sýning um einelti, þar var mikið af tilfinningum, sumt var sorglegt, annað rosalega fyndið. Það er bæði gott að gráta og hlæja í leikhúsi.
Rakel María Gísladóttir
er í 7. bekk í Valhúsaskóla
Reynsla af leiklist?
Hér í Þjóðleikhúsinu lék ég í Fjarskalandi og Í hjarta Hróa hattar. Ég er í fimleikum og æfi píanóleik.
Uppáhaldspersóna í Ronju?
Í leikritinu er það Ronja, mér finnst Salka passa svo vel í hlutverkið. Í myndinni eru það rassálfarnir, mér finnst þeir svo krúttlegir og skemmtilegir.
Er eitthvað sem við getum lært af sögunni um Ronju ræningjadóttur?
Já, að ræna ekki. Það er ekki fallegt að taka eitthvað sem einhver annar á í leyfisleysi, og þú vilt ekki fara í fangelsi og vera þar það sem eftir er ævinnar, heldur eiga skemmtilegt líf!
Eftirlætisbók eftir Astrid Lindgren?
Bækurnar um Lottu, amma var alltaf að lesa þær fyrir mig.
Hvað er mest spennandi við leikhúsið?
Mér finnst gaman að prófa ný hlutverk, fá hljóðnema og fara á svið. Mér finnst mjög gaman að sjá leiksýningar eins og Í hjarta Hróa hattar, sem eru spennandi, smá draugalegar og mjög skemmtilegar.
Hrafnhildur Hekla Hólmsteinsdóttir
er í 6. bekk í Selásskóla
Reynsla af leiklist?
Ég hef leikið í skólaleikritum, verið í dansi hjá JSB og fimleikum, og er í barnakór Langholtskirkju.
Uppáhaldspersóna í Ronju?
Ronja sjálf, hún er svo opin og tilbúin að takast á við marga hluti, er ekki smeyk við neitt.
Er eitthvað sem við getum lært af sögunni um Ronju ræningjadóttur?
Bara að vera vinir.
Eftirlætisbók eftir Astrid Lindgren?
Ég hef alltaf elskað Línu Langsokk, hún er svo fyndin persóna.
Hvað er mest spennandi við leikhúsið?
Að kynnast nýjum hlutum, prófa eitthvað nýtt.
Daði Víðisson
er í 7. bekk í Melaskóla
Reynsla af leiklist?
Ég hef verið á námskeiðum hjá Sönglist og tekið þátt í nemendasýningum. Ég hef leikið aukahlutverk í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum og aðalhlutverk í útskriftarverkefni nemanda í Kvikmyndaskóla Íslands.
Uppáhaldspersóna í Ronju?
Rassálfarnir, þeir eru svo fyndnir og skemmtilegir.
Er eitthvað sem við getum lært af sögunni um Ronju ræningjadóttur?
Í sögunni lærir Ronja að heimurinn er stærri en einn lítill ræningjasalur, hann er risastór, og Matthíasarskógur er bara eitt lítið brot af heiminum. Það er svo miklu meira til í heiminum en við höldum.
Eftirlætisbók eftir Astrid Lindgren?
Bróðir minn Ljónshjarta, hún er svo rosalega falleg og ævintýraheimurinn í henni er svo flottur.
Hvað er mest spennandi við leikhúsið?
Leikhúsið er svo töfrandi. Ég hef mjög gaman af tónlist og í leikhúsi hef ég mest gaman af söngleikjum, stuðinu, dansinum og tónlistinni, sérstaklega ef það er góð blanda af rólegum lögum og stuðlögum.
Mikael Köll Guðmundsson
er í 5. bekk í Vesturbæjarskóla
Reynsla af leiklist?
Ég lék apann Herra Níels í Línu Langsokk og lék líka í Bláa hnettinum í Borgarleikhúsinu. Ég hef leikið í auglýsingum. Í sumar lék ég eitt af aðalhlutverkunum í sjónvarpsþáttunum Flateyjargátunni sem verða sýndir í vor.
Uppáhaldspersóna í Ronju?
Ég elska ræningjana, þeir eru svo skemmtilegir.
Er eitthvað sem við getum lært af sögunni um Ronju ræningjadóttur?
Maður á ekki að taka neitt af öðrum án leyfis, því þá verða þeir ofsalega reiðir og leiðir.
Eftirlætisbók eftir Astrid Lindgren?
Emil í Kattholti er auðvitað alltaf skemmtilegur, en núna er ég að lesa Bróður minn Ljónshjarta, og það er mjög róleg og friðsæl bók.
Hvað er mest spennandi við leikhúsið?
Að hitta nýtt fólk og vinna með skemmtilegu fólki. Svo er alltaf gaman að sýna fyrir alla sem koma í leikhúsið.
Ólöf Birna Ólafsdóttir
er í 5. bekk í Flataskóla
Reynsla af leiklist?
Ég hef verið á leiklistarnámskeiðum hjá leikfélaginu Draumum og Sönglist. Ég æfi dans í Dansskóla Birnu Björns, er í barnakór Vídalínskirkju og er að læra á píanó.
Uppáhaldspersóna í Ronju?
Ronja sjálf. Henni finnst, eins og mér, svo gaman að fara út og lenda í ævintýrum.
Er eitthvað sem við getum lært af sögunni um Ronju ræningjadóttur?
Það er gott að vera hjá fjölskyldunni sinni.
Eftirlætisbók eftir Astrid Lindgren?
Bróðir minn Ljónshjarta, hún er svo spennandi, mig langaði alltaf svo mikið að vita hvað gerðist næst í henni.
Hvað er mest spennandi við leikhúsið?
Ævintýrin sem allir lenda í.
Agla Bríet Gísladóttir
er í 10. bekk í Hagaskóla
Reynsla af leiklist?
Ég hef leikið í Vesalingunum, Dýrunum í Hálsaskógi, Macbeth, Fjalla-Eyvindi og Höllu, Í hjarta Hróa hattar og Fjarskalandi hér í Þjóðleikhúsinu. Ég lék í kvikmyndinni Vonarstræti og stuttmyndinni Ungum, en hef líka leikið í Áramótaskaupinu, Steypustöðinni og tónlistarmyndböndum. Ég kom fram með Stuðmönnum í Hörpu, var í úrslitum Jólastjörnunnar og kom fram á jólatónleikum Björgvins Halldórssonar. Ég hef æft söng hjá Söngskólanum í Reykjavík, dans hjá Jazzballetskóla Báru og er í áhaldafimleikum í Fjölni.
Uppáhaldspersóna í Ronju?
Rassálfarnir, þeir eru svo skemmtilegir og fyndnir, og gera sýninguna svo skemmtilega.
Er eitthvað sem við getum lært af sögunni um Ronju ræningjadóttur?
Að þora að taka áhættu, en fara ekki fram úr sér. Að gera það sem manni finnst skemmtilegt.
Eftirlætisbók eftir Astrid Lindgren?
Bróðir minn Ljónshjarta og Elsku Míó minn voru uppáhaldsbækurnar mínar mjög lengi, þær eru fallegar sögur og ég las þær eiginlega á hverjum degi þegar ég var lítil. Bróðir minn Ljónshjarta er um hugrekki og mér fannst það hjálpa mér.
Hvað er mest spennandi við leikhúsið?
Þegar ég kem í leikhúsið er ég svo spennt fyrir því sem gerist næst, þetta er allt svo lifandi. Ég pæli líka mjög mikið í því hvað allir eru að gera baksviðs, hvað sé í gangi á bak við það sem við sjáum, því ég veit að það eru svo margir sem vinna við eitt leikrit, miklu fleiri en þeir sem sjást.
Tinna Hjálmarsdóttir
er í 6. bekk í Hofsstaðaskóla
Reynsla af leiklist?
Ég hef verið í sýningum hjá leikfélaginu Draumum, sumarnámskeiði hjá Sönglist og æft dans hjá Dansskóla Birnu Björns.
Uppáhaldspersóna í Ronju?
Matthías, mér finnst hann svo fjörugur og hann verður svo fyndinn þegar hann verður reiður. Mér finnst líka gaman að sjá hvað Matthías og Ronja geta verið fúl hvort út í annað, en samt eru þau svo góðir vinir.
Er eitthvað sem við getum lært af sögunni um Ronju ræningjadóttur?
Að góðir vinir geta orðið mjög reiðir hvor út í annan, en svo verður fólk að sættast.
Eftirlætisbók eftir Astrid Lindgren?
Bróðir minn Ljónshjarta, hún er svo falleg. Það er svo skrýtið að hugsa um að bræðurnir eru uppi á himnum.
Hvað er mest spennandi við leikhúsið?
Bara allt. Mér finnst fjörugar og fyndnar sýningar, sem geta líka verið smá óhuggulegar, skemmtilegastar.
Almar Örn Arnarson
er í 7. bekk í Holtaskóla í Keflavík
Reynsla af leiklist?
Ég lék í Dýrunum í Hálsaskógi hjá Leikfélagi Keflavíkur og hef tekið þátt í námskeiðum í skapandi starfi hjá Keflavíkurkirkju. Ég er að læra á trompet.
Uppáhaldspersóna í Ronju?
Mér finnst rassálfarnir mjög sætir!
Er eitthvað sem við getum lært af sögunni um Ronju ræningjadóttur?
Ýmislegt um vináttuna, til dæmis að ef vinátta er mikilvæg og sterk þá truflar fjarlægð í einhvern tíma hana ekki.
Eftirlætisbók eftir Astrid Lindgren?
Ég hélt mikið upp á Bróður minn Ljónshjarta þegar ég var lítill, en hún var fyrsta bókin sem mamma las fyrir mig.
Hvað er mest spennandi við leikhúsið?
Að fá að kynnast svona mörgum, flottum krökkum og nýju fólki.
Lúkas Emil Johansen
er í 8. bekk í Hagaskóla
Reynsla af leiklist?
Ég lék aðalhlutverk í kvikmyndinni og sjónvarpsþáttunum Víti í Vestmannaeyjum og í sjónvarpsþáttunum Loforðið. Ég lék líka í sjónvarpsþáttunum Fólkinu í blokkinni og Áramótaskaupinu, og hef leikið í stuttmyndum. Ég lék í Óvitum í Þjóðleikhúsinu og er í leiklistarskóla Borgarleikhússins.
Uppáhaldspersóna í Ronju?
Ronja.
Er eitthvað sem við getum lært af sögunni um Ronju ræningjadóttur?
Ekki dæma aðra. Fyrst voru Ronja og Birkir óvinir út af átökum á milli foreldranna en það breyttist hratt þegar þau kynntust.
Eftirlætisbók eftir Astrid Lindgren?
Bróðir minn Ljónshjarta og Ronja.
Hvað er mest spennandi við leikhúsið?
Leiklistin sjálf. Annars hef ég mest gaman af fjörugum og skemmtilegum sýningum.
Myndbönd
Umfjöllun