Sjáðu leikárið 2018-2019

Sala leikhúskorta er hafin!
Tryggðu þér kort núna á aðeins 17.900 kr.

Kaupa leikhúskort

Samþykki

Spennuþrungið nýtt leikrit um völundarhús sannleikans, fullt af nístandi húmor

Kraftmikið, splunkunýtt verk sem sló í gegn í Breska þjóðleikhúsinu á liðnu leikári, og hefur nú verið flutt yfir á West End.

Hvers vegna er réttlætisgyðjan yfirleitt sýnd með bundið fyrir augun? Er hún óhlutdræg? Eða getur hún verið blind á tilteknar staðreyndir?

Í vinahópi nokkurra lögfræðinga eru skiptar skoðanir á umdeildu dómsmáli. Lykilvitnið er kona sem tilheyrir heimi sem virðist í órafjarlægð frá lífi vinanna. En brátt er mál þessarar ókunnugu konu farið að hafa ófyrirsjánlegar afleiðingar á samskipti þeirra og ástarsambönd.

Hvernig getum við fengið fullvissu um hvað er satt og hvað logið? Hver er munurinn á hefndarþorsta og leit að réttlæti? Eru allir jafnir fyrir lögunum?

Kraftmikið. Eitt skemmtilegasta og snjallasta leikrit Ninu Raine.

Independent


 • Eftir Nina Raine
 • Leikstjórn Kristín Jóhannesdóttir
 • Frumsýning 2.11.2018
 • Svið Stóra sviðið

Einræðisherrann

Siggi Sigurjóns mætir Charlie Chaplin!
Meistaraverk Charlies Chaplins á leiksviði, í bráðskemmtilegri, nýrri gerð.

Leikgerð Nikolajs Cederholms af kvikmyndinni Einræðisherranum sló rækilega í gegn hjá Nørrebro-leikhúsinu í Kaupmannahöfn á liðnu leikári, og gagnrýnendur hlóðu lofi á sýninguna!

Nú gefst íslenskum leikhúsgestum kostur á að sjá Sigga Sigurjóns stíga á svið í hlutverki flækingsins sem verður einræðisherra fyrir röð mistaka.

Heillandi, bráðskemmtileg og frumleg leiksýning um valdasýki, möguleika mennskunnar í trylltri veröld og baráttuna fyrir friði í heiminum. 

Allt gengur upp. Hláturinn glymur. Efniviður sem vekur þig til umhugsunar.

Politiken


 • Eftir Charlie Chaplin. Leikgerð: Nikolaj Cederholm
 • Leikstjórn Nikolaj Cederholm
 • Frumsýning 26.12.2018
 • Svið Stóra sviðið

Loddarinn

Hárbeitt verk eftir meistara gamanleikjanna

Franska leikskáldið Molière er sannkallaður meistari gamanleikjanna og leikrit hans um loddarann Tartuffe er eitt hans allra vinsælasta verk.

Hræsnaranum Tartuffe hefur tekist að ávinna sér traust og aðdáun heimilisföðurins Orgons og vefja honum um fingur sér, fjölskyldu hans til óbærilegrar hrellingar.  Smám saman er Tartuffe farinn að stjórna lífi heimilisfólksins. Þegar Orgon fær þá flugu í höfuðið að gifta dóttur sína Tartuffe eru góð ráð dýr.

Leikstjóri sýningarinnar, Stefan Metz, er íslenskum leikhúsunnendum að góðu kunnur fyrir sýningar á borð við Eldraunina og Horft frá brúnni. Í helstu hlutverkum eru Hilmir Snær Guðnason, Guðjón Davíð Karlsson og Nína Dögg Filippusdóttir. Hallgrímur Helgason þýðir verkið, sem er á leikandi ljóðmáli. 

 • Eftir Molière
 • Leikstjórn Stefan Metz
 • Frumsýning 27.4.2019
 • Svið Stóra sviðið

Jónsmessunæturdraumur

Fyndinn og erótískur gamanleikur

Einn vinsælasti gamanleikur Shakespeares, þar sem draumur og veruleiki mætast. Ímyndunarafl, erótík og spenna...!

Hermía og Lísander elska hvort annað út af lífinu. En Demetríus elskar líka Hermíu, og Helena elskar Demetríus... Og faðir Hermíu hótar að taka hana af lífi, ef hún giftist ekki þeim manni sem hann hefur valið henni. Ungu elskendurnir flýja út í skóg, en það er Jónsmessunótt og nú ráða töfrarnir ríkjum.

Eldfjörugur gamanleikur í nýrri þýðingu Þórarins Eldjárns. Yngsta kynslóð leikara lætur til sín taka ásamt nokkrum af okkar helstu gamanleikurum!

 • Eftir William Shakespeare
 • Leikstjórn Hilmar Jónsson
 • Frumsýning 22.2.2019
 • Svið Stóra sviðið

"Fly Me to the Moon"

Nýtt verk eftir höfund hins geysivinsæla leikrits Með fulla vasa af grjóti

Bráðskemmtilegt og hjartnæmt verk um tvær kjarnakonur sem hafa alltaf þurft að hafa fyrir lífinu, en standa skyndilega frammi fyrir möguleikanum á að eignast svolítinn pening með auðveldum hætti. Það þarf kannski bara að svindla smá...

Leikkonurnar Ólafía Hrönn og Anna Svava sameina krafta sína í þessum nýja tvíleik eftir Marie Jones, höfund leikritsins Með fulla vasa af grjóti sem naut fádæma vinsælda í Þjóðleikhúsinu.

 • Eftir Marie Jones
 • Leikstjórn Marie Jones
 • Frumsýning 28.9.2018
 • Svið Kassinn

SÚPER - þar sem kjöt snýst um fólk

Benedikt Erlingsson leikstýrir bráðfyndnu, nýju verki eftir Jón Gnarr

Nýtt og bráðfyndið leikrit, fullt af "gnarrískum" húmor og pælingum, í leikstjórn Benedikts Erlingssonar.

Fólk hittist í stórmarkaði og á í einlægum samræðum - eða er það bara að tala við sjálft sig? Fólk finnur vörur sem næra ekki bara skrokkinn heldur andann líka og finnur hluti sem gera það heilsteyptara. 

"Þú þekkir fólk á vörunum sem það kaupir", segir ekkert máltæki.

Átta leikarar leika í verkinu, en meðal þeirra eru Jón Gnarr, Edda Björgvinsdóttir og Eggert Þorleifsson.

 • Eftir Jón Gnarr
 • Leikstjórn Benedikt Erlingsson
 • Frumsýning 6.4.2019
 • Svið Kassinn

Þitt eigið leikrit - Goðsaga

Það er þitt að ákveða hvað gerist næst!

Bækur Ævars Þórs Benediktssonar, þar sem lesandinn ræður því hvað gerist næst, hafa notið gífurlegra vinsælda meðal yngri lesenda. Nú er komið að þér að stjórna framvindunni í þínu eigin leikriti!

Söguheimurinn er norræna goðafræðin, full af hrikalegum hetjum og stórhættulegum skrímslum. Engar tvær sýningar verða eins, því áhorfendur ráða því hvað gerist! Muntu sigra Miðgarðsorminn eða gleypir hinn hræðilegi Fenrisúlfur þig? Ætlarðu að gerast barnapía fyrir Loka eða líst þér betur á að verja sjálfa Valhöll fyrir jötnum og hrímþursum?

Ævintýraleg og spennandi sýning, þar sem allt getur gerst!

 • Eftir Ævar Þór Benediktsson
 • Leikstjórn Stefán Hallur Stefánsson
 • Frumsýning 26.1.2019
 • Svið Kúlan

Slá í gegn

Sirkussöngleikur eftir Góa með tónlist Stuðmanna

Slá í gegn stóð sannarlega undir nafni síðastliðinn vetur. Það hefur verið stappfullt á sýningarnar og nú heldur fjörið áfram!

Stór hópur leikara, dansara, sirkuslistamanna og tónlistarfólks skapar litríkan, óvæntan og fjölbreyttan heim. Ólafía Hrönn, Örn Árna, Edda Björgvins, Jón Gnarr, Siggi Sigurjóns, Snæfríður Ingvars, Siggi Þór og fjölmargir aðrir leikhúslistamenn fara á kostum!

Sýningar hefjast aftur 24. ágúst - tryggðu þér miða í tíma!

Söngleikurinn sigldi fram úr okkar björtustu vonum. Þvílík skemmtun!

Stuðmenn


Slá í gegn

 • Eftir Guðjón Davíð Karlsson. Tónlist: Stuðmenn
 • Leikstjórn Guðjón Davíð Karlsson
 • Fyrsti sýningardagur 24.8.2018
 • Svið Stóra sviðið
Svartalogn

Svartalogn

Heillandi verk um óvæntu möguleikana í lífinu

Falleg og áhrifamikil sýning sem snerti fjölmarga leikhúsgesti djúpt á liðnu vori.

Heillandi verk um óvæntu möguleikana í lífinu, byggt á samnefndri skáldsögu Kristínar Marju Baldursdóttur.

Flóru finnst hún hafa glatað öllu því sem áður gaf lífi hennar gildi, en smám saman er eins og hún byrji að kynnast sjálfri sér upp á nýtt. Getur verið að henni sé ætlað nýtt hlutverk? Áhrifamikið verk um áskoranir á nýju æviskeiði, óvenjulega vináttu og sameiningarmátt tónlistarinnar. 

Þessi sýning er frábær. Enginn ætti að láta hana framhjá sér fara.

Edda Björgvinsdóttir


 • Eftir Leikgerð: Melkorka Tekla Ólafsdóttir, byggð á skáldsögu Kristínar Marju Baldursdóttur
 • Leikstjórn Hilmir Snær Guðnason
 • Fyrsti sýningardagur 21.9.2018
 • Svið Stóra sviðið

Nýr og endurbættur Kassi

Sumar af eftirminnilegustu sýningum Þjóðleikhússins á undanförnum árum hafa verið settar upp í Kassanum. Skemmst er að minnast Tímaþjófsins, Efa og Föðurins svo nokkrar áhrifaríkar sýningar séu nefndar. Nú verður sumarið nýtt til þess að koma fyrir nýjum og þægilegri sætum, auk þess sem gestarými verður endurbætt. Tæknibúnaður verður einnig endurnýjaður að hluta.

Velkomin í Kassann á nýju leikári!
 • Frumsýning 13.9.2018

Velkomin heim!

Hvað merkir það að eiga heima einhvers staðar?

Vala Rún fæddist á hrísgrjónaakri í Taílandi um miðja 20. öldina. Hún veit ekki hvenær hún á afmæli, bara að hún fæddist einhvern tímann á monsúntímabilinu. Hún kynntist aldrei föður sínum, missti móður sína sex ára og var meira og minna á eigin vegum eftir það. Árið 2019 stendur dóttir hennar á leiksviði í Þjóðleikhúsinu, fyrsta konan af asískum uppruna sem útskrifast af leikarabraut Listaháskóla Íslands.

Í leiksýningunni Velkomin heim! segir leikkonan María Thelma Smáradóttir sögu móður sinnar, fjallar um líf hennar í Taílandi og reynslu hennar þegar hún kom fyrst til Íslands fyrir 26 árum.

Völu Rún fannst hún aldrei eiga heima neins staðar í Taílandi. Á Íslandi leið henni eins og hún væri komin heim, og þó þekkti hún hér engan fyrir og talaði ekki tungumálið. Hvað er það að eiga heima einhvers staðar? Hvað er heimaland? 

Í samstarfi við leikhópinn Trigger Warning.

 • Eftir Maríu Thelmu Smáradóttur
 • Leikstjórn Andrea Vilhjálmsdóttir
 • Frumsýning 2.2.2019
 • Svið Kassinn

Insomnia

Brandarinn sem aldrei deyr

Hvernig væri heimurinn ef lögmál Friends væru allsráðandi? 

Hvort sem þú ert með Ross eða Rachel í liði, hvort sem þú ert meiri Phoebe eða Chandler, hvort sem þú elskar eða hatar Friends er þetta verk sem á erindi við þig.

Grímuverðlaunahópurinn Stertabenda skoðar áhrifin sem vinsælustu gamanþættir okkar tíma hafa haft á sjálfsmynd kynslóða í hárbeittri og bráðfyndinni sýningu. 

Í samstarfi við leikhópinn Stertabendu.

 • Eftir Amalie Olesen og leikhópinn Stertabendu
 • Leikstjórn Gréta Kristín Ómarsdóttir
 • Frumsýning 9.11.2018
 • Svið Kassinn

Ég heiti Guðrún

Barátta konu fyrir því að hafa stjórn á eigin lífi

Leikritið Ég heiti Guðrún hefur farið sigurför um Norðurlönd frá því verkið var frumflutt árið 2014.

Guðrún nýtur velgengni, hún er glæsileg, góður blaðamaður, snilldarkokkur og á marga góða vini. Hún er kona sem hefur fulla stjórn á eigin lífi, þangað til...

Ég heiti Guðrún er sorglegur gamanleikur um innilega vináttu fjögurra kvenna. Þegar Guðrún er greind með Alzheimer 55 ára gömul ákveða vinkonurnar að styðja hana allt til hinstu stundar. Sjúkdómur Guðrúnar fær þær allar til að velta fyrir sér lífinu sem þær hafa lifað og ákvörðunum sem þær hafa tekið.

Leikarar eru Elva Ósk Ólafsdóttir, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Sigrún Waage og Vigdís Gunnarsdóttir.

Í samstarfi við leikhópinn Leiktóna.

 • Eftir Rikke Wölck
 • Leikstjórn Pálína Jónsdóttir
 • Frumsýning 5.10.2018
 • Svið Kúlan

Fjallkonan fríð - eða hefur hún hátt?

Fjallkonan skoðuð á fullveldisafmæli

Leikhúslistakonur 50+


Í sýningunni verður Fjallkonan sem tákn skoðuð og mátuð við baráttu kvenna í gegnum tíðina, í tali og tónum og misléttum dúr. 

Helga Thorberg hefur umsjón með verkefninu. Sýningin er hluti af opinberri dagskrá aldarafmælis fullveldis Íslands.

Í samstarfi við Leikhúslistakonur 50+ 

 • Leikstjórn María Sigurðardóttir
 • Frumsýning 3.11.2018
 • Svið Þjóðleikhúskjallarinn

Dansandi ljóð

Leikverk byggt á ljóðum

Leikhúslistakonur 50+


Leikverkið er byggt á ljóðum Gerðar Kristnýjar. Verkið fjallar um líf ungrar konu og er saga hennar túlkuð í ljóðum, óbundnu máli, tónlist, söng og dansi.

Meðal þeirra sem fram koma eru Edda Björgvinsdóttir, Ragnheiður Steindórsdóttir, Anna Kristín Arngrímsdóttir, Bryndís Petra Bragadóttir, Guðbjörg Thoroddsen, Halla Margrét Jóhannesdóttir, Júlía Hannam, Rósa Guðný Þórsdóttir, Sólveig Hauksdóttir og Vilborg Halldórsdóttir.

Tónlistina í sýningunni semur og flytur Margrét Kristín Sigurðardóttir (Fabúla). Danshöfundar eru Ásdís Magnúsdóttir og Ingibjörg Björnsdóttir. Búningahöfundur er Helga Björnsson.

Í samstarfi við Leikhúslistakonur 50+ .

 • Eftir Leikgerð Eddu Þórarinsdóttur byggð á textum eftir Gerði Kristnýju
 • Leikstjórn Edda Þórarinsdóttir
 • Frumsýning 11.5.2019
 • Svið Þjóðleikhúskjallarinn

Moving Mountains

Íslenski sviðslistahópurinn Marble Crowd flytur fjöll með leikgleðina að vopni í þessu sjónræna sviðsverki sem var frumsýnt vorið 2017 á aðalsviði Kampnagel leikhússins í Hamborg. Verkið er nú í fyrsta sinn sýnt á Íslandi. Moving Mountains in Three Essays hefur hlotið frábærar viðtökur gagnrýnenda og áhorfenda og var tilnefnt til gagnrýnendaverðlauna tímaritsins Tanz sem sýning ársins, en jafnframt var Marble Crowd valinn sem ein af rísandi stjörnum sviðslista í Þýskalandi. Fimm höfundar segja söguna af því að flytja fjöll. Óvæntur atburður flækist fyrir þeim. Að flytja fjöll er að reyna hið ómögulega. Í röð tilrauna leitast Marble Crowd við að flytja fjöll með hreyfingum, sögum og sjónarspili. En hvað er fjall? Er það heilagur staður eða bara stórt steinasafn? Moving Mountains verður á dagskrá alþjóðlegu sviðslistahátíðarinnar í Reykjavík, Everybody's Spectacular.
 • Frumsýning 14.11.2018

Reykjavík Kabarett

Hinn ótrúlegi Reykjavík Kabarett tryllir fólk í Þjóðleikhúskjallaranum á föstudagskvöldum í haust. Í sýningunni er blandað saman burlesque, kabarett, sirkuslistum, dragi, töfrum og tónlist... með skvettu af fullorðinsbröndurum. Brotin úr púsluspili skemmtiatriða koma úr ýmsum áttum. Erlendir og íslenskir gestir koma héðan og þaðan og verða engar tvær sýningar eins, en allar verða þær löðrandi skemmtilegar. Nánar má lesa um hverja sýningu fyrir sig á heimasíðu kabarettsins.

Salur er opnaður hálftíma fyrir sýningu og er frjálst sætaval. Sýningin er bönnuð innan 18 ára og myndatökur eru með öllu bannaðar. 

Sýningin er ekki fyrir þá sem eru viðkvæmir fyrir dónabröndurum eða undrum mannslíkamans!


""Reykjavík Kabarett leysir kynveruna, dónann og húmoristann í manni úr ánauð." - Páll Óskar"
""Ég hef ALDREI hlegið jafn mikið. Það voru hætt að koma úr mér hljóð ég hló svo mikið!”
- Fjóla Heiðdal, gestur.
 • Frumsýning 7.9.2018

>