Menu
logo
10.apríl 2017

Álfahöllin frumsýnd við góðar viðtökur

Viðtökur frumsýningargesta á Álfahöllinni, nýrri leiksýningu eftir Þorleif Örn Arnarsson, sem frumsýnd var síðastliðið föstudagskvöld, voru afar góðar og risu gestir úr sætum til að hylla leikhúslistafólkið að sýningu lokinni.


Í ljósi gríðarlegra samfélagsumbrota hér heima og erlendis leggur Þorleifur Örn Arnarsson leikstjóri og listafólk Þjóðleikhússins af stað í óvissuferð til að rannsaka samfélag okkar og stöðu leikhússins í samfélaginu.


Vígsla Þjóðleikhússins vorið 1950 markaði tímamót í íslensku menningarlífi, og baráttan fyrir því að reisa þetta mikla menningarhús var knúin áfram af sterkri hugsjón um hlutverk og mikilvægi listarinnar. Leikhópurinn skoðar hvernig þessum hugsjónum hefur reitt af, og um leið er sjónum beint að knýjandi spurningum um samfélag okkar.

Þegar Íslendingar ákváðu að ráðast í byggingu Þjóðleikhúss var landið sárafátækt, en þjóðin skynjaði nauðsyn þess að reisa sér leikhús, sem væri „leikvangur tómstundanna og vígvöllur hugsjóna og gagnrýni, þar sem menn rísa þó heilir og sáttir að morgni eftir bardaga kvöldsins“. Listinni var ætlað vera skuggsjá og vegvísir þjóðarinnar.

Álfahallir hafa í gegnum tíðina verið í huga þjóðarinnar staðir hugarflugsins og draumanna, þar sem hægt er að flýja ömurleika raunveruleikans, skjótast undan biturri fátæktinni og hörðu veðrinu. Arkitekt Þjóðleikhússins, Guðjón Samúelsson, sá fyrir sér á sínum tíma að Þjóðleikhúsið yrði eins og voldugur hamar, híbýli huldufólks, þar sem fegurð lífsins blasti við þegar inn væri gengið.

Leiksýningin Álfahöllin býður upp á tækifæri til að stíga út úr raunveruleikanum og inn í fantasíuna, í þeim tilgangi að skoða okkur sjálf, á tímum þar sem er mikill efnahagslegur uppgangur um leið og ákveðinn hluti þjóðarinnar býr við sára fátækt.

Hvernig reiðir hugsjónum frumkvöðlanna af í dag? Hvaða hugsjónir eru okkur nauðsynlegar til að búa í heilnæmu samfélagi?

Höfundar handrits eru Þorleifur Örn Arnarsson og Jón Atli Jónasson, meðhöfundar eru Aldís Amah Hamilton, Anna Katrín Einarsdóttir, Arnar Jónsson, Arnbjörg María Daníelsen, Atli Rafn Sigurðarson, Baldur Trausti Hreinsson, Börkur Jónsson, Elvar Geir Sævarsson, Gaukur Úlfarsson, Hallgrímur Ólafsson, Hermann Karl Björnsson, Jóhann Friðrik Ágústsson, Kristín Hauksdóttir, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Ólafur Egill Egilsson, Sigurður Þór Óskarsson, Sunneva Ása Weisshappel, Uwe Gössel, Vigdís Hrefna Pálsdóttir, Þórhildur Þorleifsdóttir og Þórir Sæmundsson,

Leikstjóri sýningarinnar er Þorleifur Örn Arnarsson. Höfundur leikmyndar er Börkur Jónsson. Sunneva Ása Weisshappel hannaði búninga og gervi og Jóhann Friðrik Ágústsson hannaði lýsingu. Tónlist og tónlistarstjórn eru í höndum Arnbjargar Maríu Daníelsen, en hún gerir hljóðmynd ásamt Elvari Geir Sævarssyni. Astoðarleikstjóri og höfundur leikskrár er Anna Katrín Einarsdóttir og dramatúrgar eru Uwe Gössel og Símon Birgisson.

Leikarar í sýningunni eru Aldís Amah Hamilton, Arnar Jónsson, Atli Rafn Sigurðarson, Baldur Trausti Hreinsson, Hallgrímur Ólafsson, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Ólafur Egill Egilsson, Sigurður Þór Óskarsson, Vigdís Hrefna Pálsdóttir og Þórir Sæmundsson.

Sjá nánar um sýninguna hér.