Menu
logo
20.mars 2017

Frumsýning á Tímaþjófnum

Ný leikgerð af Tímaþjófnum, einni vinsælustu skáldsögu Steinunnar Sigurðardóttur, verður frumsýnd í Kassanum í Þjóðleikhúsinu á föstudagskvöldið. Höfundur leikgerðar er Melkorka Tekla Ólafsdóttir. Leikstjóri er Una Þorleifsdóttir og í uppsetningu hennar öðlast skáldsaga Steinunnar nýtt líf á leiksviðinu á einstakan og hrífandi hátt. Samspil texta, tónlistar og sviðshreyfinga skapar margslunginn heim ástar, höfnunar og þráhyggju. 

 

Steinunn Sigurðardóttir er einn virtasti rithöfundur þjóðarinnar. Skáldsaga hennar Tímaþjófurinn hefur átt miklum vinsældum að fagna bæði hér heima og erlendis frá því hún kom út árið 1986. Nú birtist verkið í fyrsta sinn á leiksviði.

 

Tímaþjófurinn er einstakt verk um leynilegt ástarævintýri, höfnun og missi, og þá sársaukafullu þráhyggju sem ást í meinum getur orðið. Verk sem er skrifað af djúpum mannskilningi og meitluðum húmor.

 

Nína Dögg Filippusdóttir leikur hina vel ættuðu, sjálfsöruggu og glæsilegu Öldu Ívarsen, tungumálakennara við Menntaskólann í Reykjavík, sem ætíð hefur boðið heiminum byrginn, en reynist varnarlaus þegar ástin loks grípur hana fyrir alvöru, óvænt og miskunnarlaust. Það er Björn Hlynur Haraldsson sem leikur Anton, manninn sem Alda elskar. Mæðgurnar Ölmu og Siggu, systur og systurdóttur Öldu, leika mæðgurnar Edda Arnljótsdóttir og Snæfríður Ingvarsdóttir. Oddur Júlíusson fer með ýmis hlutverk í sýningunni.

 

Höfundur sviðshreyfinga er Sveinbjörg Þórhallsdóttir og Eva Signý Berger hannar leikmynd og búninga. Um tónlist og hljóðmynd sér Kristinn Gauti Einarsson og lýsingu hannar Ólafur Ágúst Stefánsson.

  

Sjá nánar um sýninguna hér.