01. Sep. 2019

Ómar orðabelgur og Velkomin heim í leikferð

Tvær leiksýningar frá Þjóðleikhúsinu, önnur fyrir börn og hin fyrir unglinga, leggja af stað í leikferð um landið í dag

Tvær leiksýningar frá Þjóðleikhúsinu hefja leikför um landið í dag, en ferðin hefst á Patreksfirði. Nýtt barnaleikrit, Ómar orðabelgur , er sýnt fyrir elstu börn í leikskólum og yngstu börn í grunnskólum, og samstarfsverkefnið Velkomin heim er sýnt fyrir unglinga.

Eitt af markmiðum Þjóðleikhússins er að bjóða börnum að upplifa töfra leikhússins, óháð búsetu og efnahag, og því stendur það fyrir sérstökum boðssýningum á fjölmörgum stöðum á landinu. Þjóðleikhúsið hefur á undanförnum árum boðið ungum börnum í leikhús, en nú bætast sýningar fyrir unglinga við.

Gunnar Smári Jóhannesson leikur og semur Ómar orðabelg . Í sýningunni sláumst við í för með Ómari orðabelg í leit að uppruna orðanna. Hvaðan kemur orðið fíll? Afhverju segjum við fægiskófla? Er appelsína epli frá Kína? Ómar orðabelgur ferðast um heim orðanna og kynnist allskonar skrýtnum orðum, en eitt orð mun hann kannski aldrei skilja til fulls. Dauðinn. Hvað er að deyja? Og hvað gerist eftir dauðann? Dauðinn er orð sem allir þekkja en veit einhver hvað það þýðir í raun?

María Thelma Smáradóttir flytur eigin einleik, Velkomin heim í uppsetningu Trigger Warning, sem vakti mikla athygli á liðnu leikári, og hefur nú verið aðlagaður unglingastiginu. Í leiksýningunni Velkomin heim segir leikkonan María Thelma Smáradóttir sögu móður sinnar, fjallar um líf hennar í Taílandi og reynslu hennar þegar hún kom fyrst til Íslands fyrir 26 árum.

Með þeim Gunnari Smára og Maríu Thelmu í för eru Juliette Louste, sem sér um lýsingu, og Haraldur Levi Jónsson, úr sviðsdeild Þjóðleikhússins. Mikið ferðalag er nú fyrir höndum fyrir hópinn, en sýnt verður á um 30 stöðum víða um land á leikárinu, og er tilhlökkunin mikil að færa börnum og unglinum um land allt leiklist.

 

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími