16. Sep. 2018

Frábærar viðtökur á frumsýningu á Ronju

“Ein allra besta uppsetningin á Ronju” sagði tónskáldið Sebastian að frumsýningu lokinni.
  • Ronja ræningjadóttir frumsýning
    Frumsýning á Ronju ræningjadóttur. Tónskáldið Sebastian ásamt Sigurði Þór Óskarssyni (Birki), Sölku Sól Eyfeld (Ronju) og Selmu Björnsdóttur leikstjóra.

Fjölskyldusöngleikurinn Ronja ræningjadóttir var frumsýndur á laugardaginn og voru viðtökur áhorfenda hreint út sagt frábærar.
Tónskáldið Sebastian , sem samdi bæði tónlist og söngtexta fyrir söngleikinn á sínum tíma og var viðstaddur frumsýninguna, sagði að þessi uppsetning á Ronju væri ein sú allra besta, en hann hefur séð um 35 uppfærslur á verkinu frá frumflutningnum árið 1991.
Silja Aðalsteinsdóttir, sem skrifaði um sýninguna á TMM , var einnig afar hrifin af sýningunni og sagði meðal annars:

  • “Þessi sýning er geysimikið sjónarspil þar sem öll brögð og brellur leiksviðsins eru notuð.”
  • “Salka Sól var dásamleg Ronja, í einu orði sagt, þokkafull á sviði, einstaklega skýrmælt og söngurinn vitanlega frábær. Sigurður Þór var eins og sniðinn fyrir hlutverk Birkis … Hinn ástsæli Skalla-Pétur… var snilldarlega leikinn af Eddu Björgvinsdóttur. … Örn og Vigdís Hrefna… túlka persónur sínar af skilningi og syngja vel; einkum fær Vigdís Hrefna að nýta sína einstöku sönghæfileika.”
  • “Tónlistin var dillandi fjörug og kraftmikil … Dansar þeirra Birnu Björnsdóttur og Auðar B. Snorradóttur voru tröllslega flottir”
  • “Ég þakka innilega fyrir þessa góðu skemmtun”

Dagný Kristjánsdóttir, sem skrifaði um sýninguna á Hugrás , var sömuleiðis afar hrifin í umfjöllun sem hún nefndi “Dásamlega Ronja ræningjadóttir” og sagði meðal annars:

  • “Þjóðleikhúsið opnar leikárið með gullfallegri sýningu á söngleiknum um Ronju ræningjadóttur”
  • “Leikmyndin býr til hugmyndaríka umgjörð … lýsing Ólafs Ágústs Stefánssonar er sömuleiðis bæði mystísk og markviss … Dansatriðin í sýningunni eru verk Birnu Björnsdóttur og Auðar B. Snorradóttur og voru óvenjulega vel af hendi leyst, sviðið nýtt mjög vel og uppbygging dansatriða flott.”
  • “Vigdís Hrefna Pálsdóttir kom á óvart í fallegum söngvum Lovísu og kórsöngurinn var með afbrigðum góður.”
  • “Senuþjófurinn og krúttsprengjan voru þó rassálfarnir sem áhorfendur féllu greinilega fyrir og fögnuðu mjög.”
  • “Verkið stendur og fellur með hlutverki Ronju. Salka Sól Eyfeld fer afskaplega vel með það og túlkar þessa mögnuðu stelpu af einlægni og styrk sem gerir hana bæði sannfærandi og heillandi. … Sigurður Þór Óskarsson fer líka afar vel með hlutverk Birkis”

Nú þegar er uppselt á 30 sýningar á verkinu, og lausir miðar rjúka út þegar þeir eru settir í sölu. Sjá nánar um Ronju ræningjadóttur hér .

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími