Menu
logo

Þjóðleikur

Þjóðleikur  - Þjóðleikhúsið og landsbyggðin

 

Þjóðleikur er leiklistarverkefni haldið að frumkvæði Þjóðleikhússins í samstarfi við fjölmarga aðila á landsbyggðinni. Leikhópum ungs fólks á aldrinum 13-20 ára er boðið að setja upp eitt af þremur nýjum leikverkum sem skrifuð eru sérstaklega fyrir Þjóðleik í hvert sinn. Við uppsetninguna njóta ungmennin stuðnings fagaðila í Þjóðleikhúsinu í formi námskeiða, bæði í Þjóðleikhúsinu og í heimabyggð, og lýkur verkefninu með leiklistarhátíð í viðkomandi landshluta.

 

Markmið Þjóðleiks:

 • Að efla leiklist á landsbyggðinni.

 • Að vekja áhuga ungs fólks á leiklist og efla læsi þess á listformið.

 • Að tengja Þjóðleikhúsið á lifandi hátt við landsbyggðina.

 • Að miðla af fagþekkingu leikhússins til leikhúsáhugafólks í landinu.

 

Þjóðleiksverkefnið er nýsköpunarverkefni með skýr markmið. Þátttaka og áhugi ungmenna á landsbyggðinni hefur aukist og vaxið, en á leikárið 2014-2015 verður fjórða Þjóðleiksverkefninu hrundið af stokkunum. Segja má að verkefnið hafi í heild sinni tekist einstaklega vel.

 

Verkefnið er tvíæringur þar sem fyrra árið er undirbúningsár og það síðara framkvæmdaár.

 

Eitt af því sem kemur í veg fyrir að skólar setji oftar upp leiksýningar er skortur á vönduðum styttri leikverkum fyrir unga leikara. Þjóðleikhúsið lætur því skrifa sérstaklega þrjú ný íslensk leikrit fyrir þessa hópa sem þeir geta valið úr til uppsetningar.

Þjóðleikhúsið mun veita þeim hópum sem taka þátt í Þjóðleik 4 (2014-15) aðstoð í formi faglegrar ráðgjafar og námskeiða frá og með haustinu 2014. Þar verður tekið á þáttum eins og sviðsetningu, sviðstækni, leikstjórn og skipulagi æfingaferlis. Hver hópur sýnir í sinni heimabyggð, en einnig er stefnt að uppskeruhátíð vorið 2015 þar sem allar sýningarnar í hverjum landshluta verða sýndar á sama stað.


Þjóðleikur 1

Verkefninu var fyrst hrundið í framkvæmd árið 2009 sem tilraunaverkefni,  í samstarfi Þjóðleikhússins og Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs (miðstöð sviðslista á Austurlandi) og náði til alls Austurlands, allt frá Vopnafirði til Hafnar í Hornafirði. Þrettán hópar úr grunn- og framhaldsskólum á Austurlandi skráðu sig til leiks, en þátttaka fór langt fram úr björtustu vonum aðstandenda. Yfir 200 austfirsk ungmenni tóku þátt í verkefninu.

 

Þrjú ný 45 mínútna leikrit voru skrifuð sérstaklega fyrir Þjóðleik, en höfundar voru Bjarni Jónsson, Sigtryggur Magnason og Þórdís Elva Þorvaldsdóttir. Hver hópur í Þjóðleik valdi sér eitt af þessum verkum til uppsetningar endurgjaldslaust.

 

Hóparnir frumsýndu þegar þeim hentaði í sinni heimabyggð, en helgina 24.-26. apríl 2009 komu allir hóparnir saman á leiklistarhátíð á Egilsstöðum þar sem öll verkin voru sýnd. Þannig skapaðist einstakt tækifæri fyrir ungt leikhúsáhugafólk til að bera saman bækur sínar og sjá sömu verk í mismunandi uppfærslum, en stemningin var með eindæmum. 

 

Þjóðleikur 2

Þjóðleik 2 var hleypt af stokkunum árið 2011 og að þessu sinni bæði á Austurlandi og Norðurlandi í góðu samstarfi við menningarráð, menningarmiðstöðvar, sveitarfélög, áhugaleikfélög og skóla á svæðunum.

 

Í janúar 2011 fóru leikstjóri, ljósahönnuður og leikmyndahönnuður frá Þjóðleikhúsinu og héldu helgarnámskeið fyrir stjórnendur og tæknifólk sýninganna, annars vegar á Reyðarfirði og hins vegar á Dalvík.

 

Rúmlega 350 ungmenni af Austurlandi og Norðurlandi í 18 leikhópum tóku þátt í verkefninu veturinn 2010-2011. Allar uppsetningarnar voru sýndar tvisvar sinnum á uppskeruhátíðum á Egilsstöðum og á Akureyri fyrstu tvær helgarnar í apríl 2011.

 

Leikskáld Þjóðleiks veturinn 2010-2011 voru Kristín Ómarsdóttir, Jón Atli Jónasson og Brynhildur Guðjónsdóttir og Ólafur Egill Egilsson sem skrifuðu verk í sameiningu.

 

Þjóðleikur 3

Þjóðleikur 2012-2013 – í fimm landshlutum. Á liðnu vori stækkaði hátíðin til muna og Suðurland bættist í hópinn. Þetta var því stærsta Þjóðleikshátíðin til þessa.

 • Vor 2012: Leikskáld voru ráðin til starfa og hófu skriftir. Skiluðu handritum um miðjan október. Í þetta sinn rituðu Hallgrímur Helgason, Hlín Agnarsdóttir og Salka Guðmundsdóttir verkin sem tekin voru til uppsetningar.

 • September 2012: Verkefni kynnt og auglýst eftir þátttakendum / leikhópum.

 • 13. - 14. október 2012 : Námskeið fyrir leikstjóra haldið í Þjóðleikhúsinu. Skoðunarferð um

 • Þjóðleikhúsið, leikskáld kynntu verk sín og stutt námskeið í leikstjórn haldið.

 • Janúar 2013: Þjóðleikhúsið með námskeið í leikstjórn, leikmyndagerð og ljósahönnun í hverjum landshlutanna.

 • Janúar – Apríl 2013: Leikrit eftir leikhöfundana sett upp og sýnd.

 • Apríl-maí: Leiklistarhátíðir: Verk allra hópanna sýnd á einni helgi í hverjum landshluta.

 

 

Þjóðleikur af Akureyri.is.jpg