05. Jún. 2019

Listafólk Þjóðleikhússins hlýtur fjölda Grímutilnefninga

Tilnefningar til Grímunnar voru kynntar í gær

Listafólk Þjóðleikhússins hlaut fjölda tilnefninga til Grímunnar þegar tilnefningar voru kynntar í Tjarnarbíói í gær, og óskum við öllum tilnefndum aðilum innilega til hamingju með viðurkenninguna. Verðlaunaafhending Grímunnar mun fara fram í Þjóðleikhúsinu þann 12. júní.

Leiksýningin Súper hlaut alls sjö tilnefningar. Jón Gnarr var tilnefndur í flokknum “leikrit ársins”, Benedikt Erlingsson sem leikstjóri ársins, Gretar Reynisson fyrir leikmynd ársins, Filippía I. Elísdóttir  fyrir búninga ársins, Jóhann Friðrik Ágústsson fyrir lýsingu ársins, Arnmundur Ernst Backman sem leikari ársins í aukahlutverki og Vigdís Hrefna Pálsdóttir sem leikkona ársins í aukahlutverki.

Ronja ræningjadóttir í leikstjórn Selmu Björnsdóttur hlaut tilnefningu sem barnasýning ársins, auk þess sem Birna Björnsdóttir og Auður B. Snorradóttir voru tilnefndar í flokknum “dans- og sviðshreyfingar ársins”.

Þitt eigið leikrit – Goðsaga eftir Ævar Þór Benediktsson í leikstjórn Stefáns Halls Stefánssonar var tilnefnd sem barnasýning ársins, auk þess sem Elvar Geir Sævarsson og Kristinn Gauti Einarsson voru tilnefndir fyrir hljóðmynd ársins.

Loddarinn hlaut tvær tilnefningar. Guðjón Davíð Karlsson var tilnefndur sem leikari ársins í aðalhlutverki og Kristín Þóra Haraldsdóttir var tilnefnd sem leikkona ársins í aukahlutverki.

Jónsmessunæturdraumur hlaut tvær tilnefningar. Pálmi Gestsson var tilnefndur sem leikari ársins í aukahlutverki og Guðjón Davíð Karlsson var tilnefndur sem söngvari ársins.

Samþykki hlaut tvær tilnefningar. Kristín Þóra Haraldsdóttir var tilnefnd sem leikkona ársins í aðalhlutverki og Stefán Hallur Stefánsson var tilnefndur sem leikari ársins í aukahlutverki.

Einræðisherrann hlaut tvær tilnefningar. Anja Gaardbo og Kasper Ravnhøj voru tilnefnd í flokknum “dans- og sviðshreyfingar ársins” og  Karl Olgeirsson, Aron Þór Arnarson og leikmunadeild Þjóðleikhússins hlutu tilnefningu fyrir hljóðmynd ársins.

Marmarabörn voru tilnefnd í flokknum “danshöfundur ársins” fyrir Moving Mountains in Three Essays, sem Marmarabörn sviðsettu í samstarfi við Þjóðleikhúsið.

María Thelma Smáradóttir var tilnefnd í flokknum “sproti ársins” en hún skrifaði og lék sýninguna Velkomin heim sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu í samstarfi við leikhópinn Trigger Warning.

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími