Menu
logo

Um Þjóðleikhúsið

thjodleikhusid_mainmm.jpg

Þegar Alþingi samþykkti byggingu Þjóðleikhússins árið 1923 voru Íslendingar rétt rúmlega 96.000. Árið 2013 komu yfir 111.000 gestir á sýningar Þjóðleikhússins.

Þjóðleikhúsið hefur verið leiðandi stofnun á sviði leiklistar á Íslandi

allt frá opnun þess árið 1950.

 

Þjóðleikhúsið er eign íslensku þjóðarinnar og um starfsemi þess er fjallað í öðrum kafla leiklistarlaga 1998, nr. 138 23. 12.

Á hverju leikári sýnir Þjóðleikhúsið fjölbreytt úrval sviðsverka, með það að markmiði að efla og glæða áhuga landsmanna á list leikhússins.

Á verkefnaskránni eru að jafnaði ný og eldri innlend og erlend verk, klassískar leikbókmenntir, söngleikir, barnasýningar og danssýningar. Sérstök rækt er lögð við innlenda nýsköpun og ný íslensk leikverk. Þjóðleikhúsið leggur einnig ríka áherslu á að efla áhuga og skilning yngri kynslóða á leikhúsinu með sýningum fyrir börn og unglinga og fræðslustarfi.

Séð yfir salinn á Englunum IMG_4078 lítil.jpg

Leikið er á fimm leiksviðum í Þjóðleikhúsinu.

 • Stóra sviðið tekur 505 gesti samtals, í sal (376 sæti) og á svölum (129 sæti). Þegar hljómsveitargryfja eða framsvið eru í notkun geta gestir verið  460.
 • Kassinn við Lindargötu 7 tekur 137 gesti.
 • Kúlan, barnasviðið í kjallara við Lindargötu 7, tekur 80 gesti, en allt að 120 gesti ef setið er á dýnum á gólfinu.  
 • Brúðuloftið (Leikhúsloftið), á efstu hæð í aðalbyggingu, tekur um 100 gesti í sæti.
 • Leikhúskjallarinn í aðalbyggingu tekur um 100-200 gesti. Uppröðun í áhorfendasal er breytileg, og gestir sitja ýmist í sætaröðum eða við borð.


Þjóðleikhúsið hefur afnot af gamla Hæstaréttarhúsinu við Lindargötu 3. Þar er æfingaaðstaða og bóka- og skjalasafn leikhússins til húsa.

Á hverju ári eru um 30 ólíkar sýningar á fjölum leikhússins. Þar af er um tugur nýjar frumsýningar leikhússins, en að auki sýnir leikhúsið verk frá fyrra leikári og samstarfs- og gestasýningar.

Fastráðið starfsfólk leikhússins er um 80 manns, en einnig starfa um 130 lausráðnir starfsmenn við leikhúsið á ári hverju. Eru þá ótaldir starfsmenn gesta- og samstarfsverkefna. 

Þjóðleikhúsið á hlið.JPG

Hlutverk Þjóðleikhússins er að:

 • Glæða áhuga landsmanna á leiklist og þeim listgreinum sem tengjast leiksviði með fjölbreyttu úrvali sýninga.
 • Örva innlenda leikritun og aðra höfundavinnu og stuðla að aukinni samvinnu sviðslistamanna.
 • Stuðla að framþróun í greininni með því að leggja áherslu á faglega úrvinnslu og listræna framsetningu.
 • Efla leiklistaruppeldi með framboði á sýningum sérstaklega ætluðum börnum og ungmennum.
 • Efna til umræðna og verkefna á sviði leiklistar í samvinnu við skóla, félagasamtök og stofnanir.
 • Miðla leiklist um landið með leikferðum og samvinnuverkefnum.

 


Þjóðleikhússtjórar frá upphafi:

1949-1972        Guðlaugur Rósinkrans

1972-1983        Sveinn Einarsson

1983-1991        Gísli Alfreðsson

1991-2004        Stefán Baldursson

2005-2014        Tinna Gunnlaugsdóttir

2015-                Ari Matthíasson

 


Listráð 

2016-2017

Ari Matthíasson þjóðleikhússtjóri, Melkorka Tekla Ólafsdóttir leiklistarráðunautur, Guðjón Davíð Karlsson leikari, Sigurður Sigurjónsson leikari og Tinna Lind Gunnarsdóttir verkefnastjóri.


Þjóðleikhúsráð

- skipað 1. desember 2015 til 30. nóvember 2019 -

Eyþór Laxdal Arnalds formaður, skipaður án tilnefningar,
Herdís Þórðardóttir varaformaður, skipuð án tilnefningar,
Ragnar Kjartansson, skipaður án tilnefningar,
Birna Hafstein, tilnefnd af Félagi íslenskra leikara,
Sara Martí Guðmundsdóttir, tilnefnd af Félagi leikstjóra á Íslandi.

Varamenn:

Guðrún Inga Torfadóttir, skipuð án tilnefningar,
Baldur Óskarsson, skipaður án tilnefningar,
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, skipuð án tilnefningar,
Snorri Freyr Hilmarsson, tilnefndur af Félagi íslenskra leikara,
Páll Baldvin Baldvinsson, tilnefndur af Félagi leikstjóra á Íslandi.

Áheyrnarfulltrúi starfsmanna frá október 2016 er Trygve Jonas Eliassen.