Menu
logo

barnastarf

Þjóðleikhús barnanna

 

Þjóðleikhúsið hefur allt frá upphafi lagt mikla áherslu á barnasýningar og leikhúsuppeldi, einkum með glæsilegum sýningum á Stóra sviðinu.

Árið 2006 var opnað sérstakt svið fyrir barnasýningar í Þjóðleikhúsinu og hlaut það nafnið Kúlan. Kúlan er helguð fyrstu leikhúsreynslunni og  leiklistaruppeldi þar sem ungir áhorfendur fá að kynnast leikhúsinu og töfrum þess. Í Kúlunni er boðið upp á Sögustund fyrir leikskólabörn, smábarnasýningar og smærri barnasýningar.

Árið 2013 var stofnað sérstakt brúðuleikhús á Brúðuloftinu. Brúðuloftið er samastaður Brúðuheima, leikhúss Bernds Ogrodniks, brúðuleikara og brúðugerðarmeistara. Á Brúðuloftinu er boðið upp á heillandi brúðusýningar fyrir börn og alla unnendur brúðleikhúss.

Leikárið 2013-2014 sýnum við barnasýningar á fjórum sviðum, í Kúlunni, á Stóra sviðinu, í Leikhúskjallaranum og á Brúðuloftinu (Leikhúsloftinu). Það er okkur sérstakt ánægjuefni að á þessu leikári verður boðið upp á alls tíu leiksýningar fyrir börn í Þjóðleikhúsinu.

Kúlan er í sama húsi og Kassinn við Lindargötu 7 á bak við Þjóðleikhúsið. Gengið er inn um sama inngang og í Kassann, en niður stigann. Í Kúlunni eru sýndar stuttar leiksýningar í litlu rými, þar sem yngstu leikhúsgestirnir eru leiddir inn í töfraheim leikhússins við aðstæður sem henta aldri þeirra og þroska.

Brúðuloftið er í aðalbyggingunni, eins og Stóra sviðið. Gengið er inn um aðalinngang við Hverfisgötu, og svo upp á loft.


Kúlukort á barnasýningar á minni sviðunum

Með Kúlukortinu bjóðum við miða á sérlega hagstæðu verði á barnasýningar á minni sviðunum, en kortið kostar aðeins 5.000 kr. og gildir á þrjár sýningar í Kúlunni, á Brúðuloftinu (Leikhúsloftinu) og í Leikhúskjallaranum.

Sögustund

Á hverju hausti býður Þjóðleikhúsið börnum í elstu deildum leikskóla í heimsókn í leikhúsið með kennurum sínum til að kynnast töfraheimi leikhússins. Með Sögustund vill Þjóðleikhúsið leggja sitt af mörkum til að kynna börnum heim leikhússins, því að leikhúsferðir geta veitt ungum sem öldnum mikla gleði, örvað þroska og eflt hæfileika okkar til að takast á við lífið og tilfinningar okkar. Sögustund hefur notið mikilla vinsælda hjá leikskólum og á hverju hausti hafa vel á fimmta þúsund leikskólabörn frá allflestum leikskólum á höfuðborgarsvæðinu komið í heimsókn til okkar í leikhúsið.

Skoðunarferðir um leikhúsið

Fjölmargir hópar skólafólks leggja leið sína í Þjóðleikhúsið á ári hverju, til að fá leiðsögn um Þjóðleikhúsbygginguna og til að kynnast lífinu í leikhúsinu.

 

Bakkaborg hópmynd 1-2.JPG