Menu
logo
Hleyptu þeim rétta inn
Hleyptu þeim rétta inn

Hleyptu þeim rétta inn

eftir Jack Thorne, byggt á bók og kvikmyndahandriti eftir John Ajvide Lindqvist

Um sýninguna


"Ógeðslega góð sýning! ... sæluhrollur"

★★★★

Hringbraut


"Lára Jóhanna vinnur leiksigur í hlutverki Elíar ... Glæsilegt allt og fagmannlegt!"

JSJ, Kvennablaðið


★★★

Morgunblaðið 


★★★

Fréttablaðið


★★★

DV


Hrífandi verk um einelti, einsemd og óvenjulega vináttu.


Unglingsstrákurinn Óskar er einmana og vinalaus, og lagður í gróft einelti í skóla. Þegar hin dularfulla Elí flytur inn í íbúðina við hliðina á honum, þar sem hann býr einn með móður sinni, umturnast tilvera hans.

Þegar undarlegir og óhugnanlegir atburðir fara að eiga sér stað á svæðinu, áttar Óskar sig smám saman á því hvert leyndarmál Elí er. Hún er vampíra, sem verður að nærast á blóði fólks til að komast af. En hún er líka einstaklingur sem er einmana og utangarðs, rétt eins og Óskar sjálfur. Smám saman þróast á milli Óskars og Elís vinátta sem hvorugt þeirra átti von á eða gat látið sig dreyma um.


Hvað myndir þú taka til bragðs ef nýi nágranninn þinn væri vampíra?


Leikritið Hleyptu þeim rétta inn er byggt á metsölubók og kvikmynd sænska rithöfundarins Johns Ajvides Lindqvists. Sænska kvikmyndin hefur notið mikillar hylli og var endurgerð í Hollywood undir nafninu Let Me In. Leikritið Let the Right One In hefur verið sýnt við miklar vinsældir í Royal Court leikhúsinu í London, Skoska þjóðleikhúsinu, St. Ann's Warehouse í New York og á Norðurlöndunum.


Hrollvekjandi fantasía sem hreyfir við þér, og hefur gagntekið áhorfendur víða um heim.


Aldursviðmið: Fyrir fullorðna og óhrædda unglinga frá 13 ára aldri.

Atriði í sýningunni geta vakið óhug.


Þjóðleikhúsið býður áhorfendum upp á umræður eftir 6. sýningu verka, með þátttöku leikara og listrænna aðstandenda.

Ath. vegna óhjákvæmilegra breytinga á sýningadagsetningum verða umræðurnar eftir sýninguna sun. 13. mars.

Umræðurnar taka um 20 mínútur og fara fram á sviði að sýningu lokinni.


Verkið er sýnt samkvæmt samkomulagi við Marla Rubin Productions Ltd.

Verð

Verð: 4950 kr.

Lengd sýningar

1 klst. 55 mín. 

Hvar og hvenær

Frumsýning:
10.03.2016 
Svið:
Stóra sviðið 

Aðstandendur

Sýningardagar

Hér koma sýningardagarnir...

Fræðsluefni

Fræðslupakki - kennsluefni fyrir kennara, nemendur og aðra áhugasama.


Náðu þér í pdf hér.


Textann er einnig að finna hér að neðan: 


 

Hleyptu þeim rétta inn

eftir John Ajvide Lindqvist

Leikgerð: Jack Thorne

 

Kennsluefni

eftir Endre Sannes Hadland


 

Hvað myndirðu gera ef nágranni þinn væri vampýra?

 

Í leikritinu Hleyptu þeim rétta inn kynnumst við unglingsstráknum Óskari sem lendir einmitt í þessu. Þegar hin dularfulla Elí flytur inn í næstu íbúð umturnast skyndilega tilvera Óskars sem hefur fram að því verið einmana og vinalaust fórnarlamb eineltis. Það kemur í ljós að Elí er vampýra en hún er ekki síður einmana en hann sjálfur. Kynni þeirra Elí breytast í vináttu sem hvorugt þeirra átti von á eða lét sig dreyma um.

 

Sagan gerist í myrkri og vetrargaddi í litlum og kuldalegum bæ og er blóði drifin, yfirnáttúruleg og hroðaleg frásögn af einmanaleika og hvernig það er að vera utangarðs. Hún er samt ekki síður saga um vináttu og innri styrk. Hleyptu þeim rétta inn er óvenjuleg sýning. Hún er blóðug og myrk saga um yfirnáttúrulega atburði – en engu að síður sakleysisleg, skemmtileg og full af fyrirheitum. Rammi sýningarinnar er dæmigert og hversdagslegt umhverfi en meira býr að baki, eins og í flestum vampýrusögum – eitthvað yfirnáttúrulegt, hræðilegt og fagurt. Vampýrur eru þjóðsagnaverur – hvað skyldi gerast ef þjóðsagnavera réðist inn í daglegt líf okkar?

 

Um sýninguna:

 

Leikritið Hleyptu þeim rétta inn er byggt á metsölubók og fyrstu skáldsögu Johns Ajvides Lindqvists og marglofaðri kvikmynd Thomasar Alfredson um eineltisþolandann Óskar sem býr í Blackeberg, einum af mörgum smábæjum rétt fyrir utan Stokkhólm. Blackeberg er sótthreinsaður af dularfullum fyrirbærum, fullur af fólki sem lifir sínu lífi, fer í vinnuna eða skólann, fær örorku- eða atvinnuleysisbætur, glápir á sjónvarp, drekkur, elskar, kvelur hvert annað og þefar lím í kjallaranum.

 

Í einni af mörgum bæjarblokkum býr Óskar. Foreldrar hans eru fráskilin, Jonni og Mikki leggja hann í einelti í skólanum, og hann á eiginlega enga vini. Hvorki mamma, pabbi, kennararnir eða aðrir sem eiga að gæta að velferð hans sjá í hvaða aðstöðu hann er – og enginn axlar ábyrgðina á því að hjálpa honum. Einn góðan veðurdag eignast hann nýjan nágranna, Elí, stelpu sem er öðruvísi en allar aðrar stelpur sem Óskar hefur kynnst. Í hyldjúpri einsemdinni tekur Óskar því tveimur höndum þegar Elí býður honum vináttu sína. En veit hann hverju hann er að hleypa inn? Ýmislegt tekur að gerast í köldu og dimmu úthverfinu og einn daginn finnst myrtur maður, skorinn á háls og búið að taka honum blóð. Ekkert finnst á morðstaðnum nema fáeinir blóðdropar …

 

Um höfundinn:

 

Fyrsta skáldsaga Johns Ajvides Lindqvists var hrollvekjan La den rette komme inn eða Hleyptu þeim rétta inn. Sögusviðið var úthverfið Blackeberg í Stokkhólmi þar sem hann ólst sjálfur upp. Hann segist semja hrollvekjur en verk hans hafa líka að geyma sérlega vandaðar lýsingar í anda félagslegrar raunsæisstefnu og margir telja hann einn besta sögumann Svíþjóðar. Lindqvist hefur vakið mikla athygli fyrir að blanda saman bókmenntagreinum, félagslegum raunsæisbókmenntum og fantasíum eða spennutryllum, og bækur hans hafa verið gefnar út í 33 löndum fram að þessu.

 

Tvívegis hefur verið gerð kvikmynd eftir La den rette komme inn, sænsk mynd sem Thomas Alfredsson leikstýrði og bandarísk mynd leikstjórans Matts Reeves, Let Me In.

 

Leikgerð Jacks Thornes byggir á sænsku kvikmyndinni og skáldsögu Johns Ajvides Lindqvists.

 

Um vampýrur:

 

Úr leikskrá:

Vampýrur og vampýrubanar breytast í takt við breytingar í samfélaginu. Samspil hetju og andhetju dregur upp mynd af því sem samfélagið óttast og hvernig það leysir vandamálin.

 

Samband okkar við blóðsuguna hefur þróast úr ótta við hana upp í að finnast hún heillandi. Vampýrur hafa sjaldan verið eins vinsælar og á okkar dögum. Herskarar af unglingsstúlkum standa á öndinni af hrifningu á glimmerprinsinum í Twilight-sögunum, í hlutverkaleikjum velja þátttakendur að vera vampýrur og nokkurn veginn allt með höggtennur selst eins og heitar lummur. Þess vegna er spennandi að skoða hvernig vampýran og vampýrubaninn hafa tekið breytingum í tímans rás, segir Jørgen Riber Christensen, skrímslafræðingur við Álaborgarháskóla. „Augsýnilega breytist túlkun á vampýrum í sögulegu samhengi úr ótta við þær sem tákn um óhefta kynhvöt kvenna yfir í síðari tíma rómantíska upphafningu á vampýrunni,“ segir hann.

 

Vampýrur eru ótrúlega vinsælar og um þær er hægt að finna óendanlega mikið efni. Óteljandi kvikmyndir, bækur, tölvu- og hlutverkaleikir hafa komið út. Efnið er svo umfangsmikið að það er ógjörlegt að lýsa því í stuttri grein. Vampýrur geta ýmist verið hetjur eða illvirkjar en það er sama hvort er, óhugnaðurinn sem fylgir þeim heillar fólk.

 

„Ég held að nútímamenn séu reiðubúnir að taka á móti vampýrunni. Vampýrur eru orðnar svo flóknar að þær geta meira að segja tekið að sér hið hefðbundna hlutverk van Helsing-persónunnar. „Þannig er hægt að segja að nú á dögum búi skrímslið bæði í vampýrunni og í öflunum sem reyna að uppræta hana,“ segir Christensen.

(Grein í leikskrá La den rette komme inn, Rogaland Teater 2015)

 

Verkefni handa nemendum um sýninguna:

(Verkefnin er hægt að leysa einstaklingsbundið, tveir og tveir saman eða í hópvinnu.)

 

- Fyrir sýningu:

 • Hvernig býstu við að sýningin sé eftir að hafa lesið textana hér að ofan?
 • Sýningin hefur verið kölluð raunsæ vampýrusaga – við hverju býstu miðað við þá lýsingu?
 • Hverju býstu við af sýningunni fyrst þar eru auglýstir yfirnáttúrulegir atburðir?
 • Hvað finnst þér sjálfum/sjálfri um vampýrur? Af hverju heldurðu að við mannfólkið höfum áhuga á vampýrusögum?
 • Ef þú dregur ályktun af því sem þú hefur lesið um sýninguna – af hverju heldurðu þá að hún heiti Hleyptu þeim rétta inn?
 • Sýningin er byggð á bók eftir John Ajvide Lindqvist, La den rette komme inn. Sagan hefur verið kvikmynduð, bæði í Svíþjóð og Bandaríkjunum. Reyndu að finna allt sem þú getur um höfundinn, bókina og kvikmyndirnar.

 

- Eftir sýningu:

 

Fagurfræði og form:

 

 • Stóð sýningin undir væntingum þínum? Hvers vegna / hvers vegna ekki?
 • Hvað fannst þér gott? Hvað fannst þér slæmt? Rökstyddu svarið.
 • Fyrir sýninguna var lofað yfirnáttúrulegum atburðum í raunsæju umhverfi. Hvernig fannst þér takast til við að uppfylla loforðið?
 • Í sýningunni er notað talsvert af sviðsbrellum – hvað fannst þér um þær? Voru einhverjar trúverðugri en aðrar? Voru brellurnar of margar, of fáar eða hæfilega margar? Rökstyddu svarið.
 • Hvað fannst þér um leikmyndina? Voru notuð einhver tákn sem þú þekkir? Hvaða hugrenningatengsl urðu til hjá þér?
 • Geturðu sagt eitthvað um það hvernig ljós, litir, hljóð og tónlist voru notuð í uppsetningunni?
 • Að hvaða leyti finnst þér þessi sýning öðruvísi en aðrar leiksýningar sem þú hefur séð?
 • Er leiksýningin fyrst og fremst þjóðfélagslegt raunsæi, fantasía, spennutryllir eða hryllingssaga? Eða kannski eitthvað annað? Rökstyddu skoðanir þínar.

 

Þema:

 

 • Eftir að hafa séð sýninguna – af hverju heldurðu þá að hún heiti Hleyptu þeim rétta inn?
 • Hleyptu þeim rétta inn fjallar um það að vera öðruvísi en aðrir. Hvaða samlíkingar við samfélag okkar er hægt að gera með hliðsjón af vampýrunni Elí?
 • Að hvaða leyti getur unglingur verið öðruvísi en aðrir í nútímasamfélagi?
 • Í sýningunni er líka sögð saga um einelti. Óskar og Elí taka hart á þeim sem beita eineltinu. Finnst þér það rétt eða rangt? Rökstyddu svarið.
 • Í sýningunni er varpað fram spurningunni um hvað raunverulega myndi gerast ef vampýra flytti í næstu íbúð. Finnst þér viðbrögð Óskars og annarra trúverðug? Hvernig heldurðu að þú hefðir sjálf(ur) brugðist við ef þetta hefði komið fyrir þig?
 • Sagan gerist á æskuárum höfundarins, á níunda áratugnum. Sástu eitthvað í sýningunni sem þú heldur að væri öðruvísi ef sagan ætti að gerast í dag?
 • Heldurðu að það sé auðveldara eða erfiðara að alast upp nú á dögum en áður fyrr? Rökstyddu svarið.
 • Vampýrusögur eru mjög vinsælar nú á dögum. Hvað finnst þér líkt/ólíkt með sýningunni og öðrum sögum sem þú hefur séð um vampýrur?
 • Sumir hafa haldið því fram að vampýrur séu sú þjóðsagnapersóna sem við bæði elskum og óttumst mest. Af hverju heldurðu að okkur þyki sögur af vampýrum heillandi?
 • Hvort fjallar söguþráðurinn meira um einmanaleika eða vampýrur? Færðu rök fyrir svarinu.
 • Væri hægt að segja þessa sögu eins vel ef ekkert yfirnáttúrulegt gerðist og þar væru engar vampýrur? Rökstyddu svarið.

 

Bónusspurningar:

 

 • Sagan La den rette komme innhefur verið kvikmynduð. Horfðu á kvikmyndina og svaraðu svo eftirfarandi spurningum:
  • Hvernig fannst þér myndin? Hvað fannst þér gott? Hvað fannst þér slæmt? Rökstyddu svarið.
  • Hvort fannst þér betra – kvikmyndin eða leiksýningin? Rökstyddu svarið.
  • Var einhver munur á kvikmyndinni og leiksýningunni? Ef svo er, hvað var þá ólíkt – og af hverju heldurðu að það hafi verið ólíkt?
  • Hvernig uppfyllti kvikmyndin væntingar þínar eftir að þú hafðir séð leiksýninguna?
  • Hvort finnst þér yfirnáttúrulegir atburðir eiga betur heima í kvikmyndum eða í leikhúsi? Hvað finnst þér vera helsti munurinn á tjáningarmiðlunum tveimur?

 

Heimildir: Leikskrá, Teatermagasinet, handrit: La den rette komme inn

 

 

Umfjöllun

Lára Jóhanna vinnur leiksigur í hlutverki Elíar ... Glæsilegt allt og fagmannlegt!

Jakob S. Jónsson, Kvennablaðið.is

"Blóðug spenna frá upphafi til enda!

... Öll þessi þemu og minni fá að blómstra í handriti og sýningu ... [eineltisatriðin] eru svo trúverðuglega gerð og feykilega vel útfærð af leikurunum. ... það er arfagóðum leik þeirra Þrastar Leós og Margrétar Kötlu að þakka að við skiljum þessar persónur og hlutverk þeirra fyrir söguna sem slíka. ...

Mestu munar auðvitað um Sigurð Þór Óskarsson og Láru Jóhönnu Jónsdóttur í hlutverkum Óskars og Elíar. Sagan hverfist um þau og þeirra samband og þau fá ágætis persónur af hálfu höfundar til að moða úr og nýta sér það til fulls – umkomuleysi Óskars í upphafi og framanaf er vel túlkað af Sigurði Þór, sem og vöxtur þessa drengs og styrkur hans í lokin, þegar hann getur sagt skilið við það sem hann elskar af því hann elskar það. Betri gerast þroskasögur ekki. Lára Jóhanna vinnur leiksigur í hlutverki Elíar og það er hrein unun að sjá hvernig hún hleypur á milli tilfinningasviða, frá ærslum til dularfullrar rósemi, frá ákveðni til efa, allt svo rökrétt, lifandi og kvikt að það er ljóst frá upphafi að þessi undarlega ekkimanneskja ber uppi söguna, knýr hana áfram af miskunnarleysi og ást í senn, allt til hins fallega lokaatriðis, þar sem fórnin sem færð er verður gjöfin sem maður fær. ...

Þýðing Magneu J. Matthíasdóttur hljómaði vel ... það er auðséð að leikstjórinn Selma Björnsdóttir er bæði leikari, söngvari og dansari. Hún leggur áherslu á léttleika og lipurð sem sýnir sig í öguðum hreyfingum og markvissum skiptingum í tempói sem undirstrika mystík efnisins ... Þá var gaman að sjá hversu markvisst var unnið með allar línur í leikstjórn ... Glæsilegt allt og fagmannlegt! Tónlist Högna Egilssonar og hljóðmynd hans og Elvars Geirs Sævarssonar magnar vitaskuld stemninguna, ýtir undir óhug og viðheldur spennunni óaðfinnanlega. Þetta er lykillinn að þeim töfrum leikhússins sem setja mark sitt á alla sýninguna.

En þá er komið að því sem gnæfir yfir allri sýningunni og gefur henni svip og mátt. Leikmyndin, hönnuð af Höllu Gunnarsdóttur. Þessi makalausa leikmynd er í einu orði sagt frábær! Gotísk í anda, bæði klassískrar gotíkur í því að hún teygir sig upp, upp – og er það eflt með vídeólist og framúrskarandi lýsingu Ólafs Ágústs Stefánssonar – og einnig síðgotíkur og nútímagotíkur í því að hún er máluð í daufum svörtum tón og byggð upp af ferningum sem minna á Mondrian og De Stijl. Snyrtileg tenging gotíkur við nútíma! .... allar sviðsskiptingar voru glæsilegar og öruggar og framkvæmdar í anda og tempói sýningarinnar! Það er óhætt að taka ofan fyrir sviðsmönnum og tæknimönnum Þjóðleikhússins fyrir þeirra framlag til flæðis sýningarinnar, sem hvergi brást og átti mikinn hlut í að viðhalda spennunni frá upphafi til enda!"


Ógeðslega góð sýning ... sæluhrollur

★★★★

Sigmundur Ernir Rúnarsson, Hringbraut

"Uppsetning Þjóðleikhússins á leikverkinu Hleyptu þeim rétta inn, sem frumsýnt var í gærkvöld er með eftirminnilegustu sýningum þess á síðustu árum. Ekki einasta kemur verkið sjálf á óvart, heldur og sérlega geislandi, hrífandi og kraftmikill leikur aðalleikendanna, að ógleymdri snjallri leikmynd, ljósum og tónum.

Í sem fæstum orðum er þetta ógeðslega góð sýning í bestu merkingu þeirra lýsingarorða sem hér fylgja einni og sömu setningunni. Það sumpart margtæmda minni sem blóðsugan er á sviði, tjaldi og bókum lifnar hér við með svo óvenjulega sannferðugum hætti að áhorfandinn getur ekki annað en hrifist með. Óvænt vinfengi blóðsugu við undirokaðan dreng er hlaðin vísunum og táknum. Og vel að merkja; galin atburðarásin gengur einfaldlega upp.

Galdur sýningarinnar felst þó öðru fremur í sjálfri uppfærslunni; samspili tónlistar og myndbanda, leikmyndar og ljósa sem ber hugvitssemi og fagmennsku vitni - og raunar í svo stórum skömmtum að það hríslast um mann sæluhrollur á köflum. Hér sannast enn einu sinni hvað tæknivinnsla í íslensku leikhúsi er orðin framsækin og fyllilega á pari við það sem best þekkist á stærstu sviðum.

Og leikurinn, maður lifandi, hvergi er þar veikan blett að finna, en má ég þó öðru fremur hampa tveimur leikurum; sjaldan hef ég séð tvö ungmenni eiga sviðið með þvílíkum tilþrifum og Lára Jóhanna Jónsdóttir og Sigurður Þór Óskarsson sýndu áhorfendum Þjóðleikhússins í gærkvöld í rullum blóðsugunnar Elí og stráksins Óskars. Ekkert feilpúst, fjarri því, heldur þvert á móti rífandi sjálfstraust í hverri einustu hreyfingu upp og niður sviðið, í hvaða svipmóti sem var, hverju orði, öllum áherslum og skýrmælgi.

Ég gekk inn á sýninguna með varann á mér; jæja, einhver vampýrusýning úr sænskri bók ... en gekk út lýstur galdri leikhússins, nánast dáleiddur.

Fjórar stjörnur, minnst - og takk fyrir mig.


Sigurður Þór gerði sér góðan mat úr hlutverki Óskars

★★★

Silja Björk Huldudóttir, Morgunblaðið

"... Leikhópurinn stendur sig engu að síður vel undir stjórn Selmu Björnsdóttur. Oddi Júlíussyni og Hallgrími Ólafssyni tókst að draga upp skarpa mynd af drengjum sem vita að í grimmum og ofbeldisfullum úthverfaheiminum stendur valið milli þess að éta eða vera étinn, ef svo má að orði komast. Stefán Hallur Stefánsson skapaði kómíska örmynd af Kúrt sjoppukarli og var réttilega ógnvekjandi sem Jimmy, stóri bróðir Jonna, í lokauppgjörinu örlagaríka. Katla Margrét Þorgeirsdóttir fékk ekki úr miklu að moða í hlutverki móðurinnar, en bjó til skýra mynd af drykkfelldri og þreyttri konu. Þresti Leó Gunnarssyni tókst að vekja samúð í hlutverki Hákons sem fórnar sér fyrir Elí í veikri von um ást að launum. Sigurður Þór gerði sér góðan mat úr hlutverki Óskars og skilaði jafnt örvæntingu hans og gleði með sannfærandi hætti. ...

Uppfærslan býður upp á ýmsar flottar, sjónrænar myndir undir þrunginni tónlist Högna Egilssonar. Lokauppgjörið við kvalara Óskars var vel útfært ... Leikmynd Höllu Gunnarsdóttur var vegleg..."


Leikmyndina hannar Halla Gunnarsdóttir og tekst einstaklega vel til. 

★★★

Sigríður Jónsdóttir, Fréttablaðið

"Þröstur Leó hefur þann einstaka hæfileika að vekja upp samúð áhorfenda, jafnvel með fyrirlitlegum persónum. Í hans höndum er Hákon ekki ófreskja heldur maður í leit að ást. ... Hallgrímur Ólafsson leikur hinn umkomulausa Mikka af næmni. ... Selma Björnsdóttir sér um leikstjórnina og hún er einkar lunkin við að skapa eftirminnileg sjónræn augnablik á sviðinu. ... Umgjörðin er að mestu til fyrirmyndar. Leikmyndina hannar Halla Gunnarsdóttir og tekst einstaklega vel til. Ólafur Ágúst Stefánsson skyggir þessi köldu skúmaskot með stórfínni lýsingu sem gefur leikmyndinni ógnandi blæ. Myndbandshönnun Rimas Sakalauskas er sömuleiðis tilkomumikil ... hljóðmynd [Högna Egilssonar] og Elvars Geirs Sævarssonar sem er þrumandi fín."


Salurinn hélt niðri í sér andanum

Dagný Kristjánsdóttir, Hugrás

"Það er ekki auðvelt að endurvinna þetta efni fyrir leiksviðið en mér finnst Selmu Björnsdóttur hafa tekist vel upp hér. ... Leikmynd Höllu Gunnarsdóttur og glæsileg lýsing Ólafs Ágústs Stefánssonar endurskapa kuldann og líflausa náttúruna umhverfis á áhrifaríkan hátt sem myndar hárrétta umgerð fyrir mannlífið sem þrífst í blokkinni. ... í einni bestu og eftirminnilegustu senu sem ég hef séð lengi. Salurinn hélt niðri í sér andanum. Sigurður Þór Óskarsson býr til heillandi Óskar ... Það var lygilegt að sjá hvað Lára Jóhanna Jónsdóttir hefur náð góðu valdi á hlutverkinu á þeim stutta tíma sem var til umráða. Hún nær að skila dýptinni í þessu ógæfusama fyrirbæri sem er gert barn að eilífu ... Ekkert er einfalt í þessu verki og það er fjölmargt í því sem hægt er að nota til að ræða við unglinga."


Leikararnir standa sig allir með prýði

★★★

Bryndís Loftsdóttir, DV

"Það er fagnaðarefni að fá vampíruverk á svið Þjóðleikhússins enda umgjörð hússins með sínum dumbrauðu tjöldum einstaklega vampíruvæn. ... Leikararnir standa sig allir með prýði ... Sigurður Þór Óskarsson er sannfærandi í hlutverki unglingsins Óskars. Oddur Júlísson og Hallgrímur Ólafsson eiga fínan samleik sem jafnaldrar Óskars og Stefán Hallur Stefánsson er nær óþekkjanlegur í hlutverki sjoppukallsins. ... Óvænt stjarna verksins var svo Baldur Trausti Hreinsson í hlutverki sínu sem Villi leikfimikennari. Selma Björnsdóttir leikstýrir verkinu. Hún er flink að búa til fallegar senur og sviðshreyfingar ..."

Myndasafn