Menu
logo
Heimkoman
Heimkoman

Heimkoman

eftir Harold Pinter

Um sýninguna

★★★★

Morgunblaðið


Meistaraverk Nóbelsskáldsins Pinters

Teddy snýr óvænt heim á æskuheimili sitt í London með eiginkonu sinni Ruth, eftir að hafa kennt heimspeki við háskóla í Bandaríkjunum í sex ár. Ruth uppgötvar áður óþekktar hliðar á eiginmanni sínum þegar hún kynnist fjölskyldu hans: föður hans Max, fyrrum slátrara, föðurbróður hans Sam sem er bílstjóri, og bræðrum hans tveimur, hórmangaranum Lenny og boxaranum Joey. Þessir óhefluðu karlmenn taka að bítast um athygli Ruthar og samskiptin á heimilinu verða sífellt ofsafengnari.

Leikrit Harolds Pinters hafa mörg hver allt að því hversdagslegt yfirbragð, en í þeim býr óvenjulegur kraftur, og undir yfirborðinu leynast heiftúðug átök, kynferðisleg spenna, kúgun og ótti. Heimkoman var frumflutt árið 1965, hlaut Tonyverðlaunin sem besta leikrit ársins og er af mörgum talið magnaðasta verk Pinters.


Þjóðleikhúsið býður áhorfendum upp á umræður eftir 6. sýningu verka, með þátttöku leikara og listrænna aðstandenda.

Umræðurnar taka um 20 mínútur og fara fram á sviði að sýningu lokinni.

Umræður eftir 6. sýningu á Heimkomunni 29. október.

Verð

Verð: 4950 kr.

Lengd sýningar

2 klst. 30 mín. 

Hvar og hvenær

Frumsýning:
10.10.2015 
Svið:
Stóra sviðið 

Aðstandendur

Sýningardagar

Hér koma sýningardagarnir...

Harold Pinter

Harold Pinter (1930-2008) er talinn eitt frumlegasta og merkasta leikskáld Breta á síðari hluta tuttugustu aldar. Pinter skrifaði um þrjá tugi leikrita fyrir svið, útvarps- og sjónvarpsleikrit og kvikmyndahandrit. Hann starfaði einnig sem leikari og leikstjóri. Á efri árum lét Pinter æ meira til sín taka á opinberum vettvangi í mannréttindabaráttu og stjórnmálaumræðu. Pinter hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 2005.


Harold Pinter fæddist í London árið 1930 og ólst upp í verkamannahverfinu Hackney, foreldrar hans voru gyðingar og hann var einkabarn. Sprengjuárásirnar á London í síðari heimsstyrjöldinni, sem hann upplifði sem barn, höfðu djúpstæð áhrif á hann. Megn andúð Pinters á hvers konar ofbeldi, sem kemur glöggt fram í verkum hans, vaknaði snemma. Hann neitaði á sínum tíma að gegna herþjónustu af samviskuástæðum, var leiddur fyrir rétt og þurfti að greiða fjársekt.

Pinter lék talsvert í skólaleikritum og byrjaði að yrkja ljóð tólf ára að aldri. Hann keppti jafnframt í spretthlaupi á æskuárunum og var alla tíð mikill áhugamaður um krikket. Hann hlaut inngöngu í hinn virta leiklistarskóla Royal Academy of Dramatic Art árið 1948 en hætti fljótlega í leiklistarnáminu. Hann lék næsta áratuginn með ýmsum atvinnuleikhópum en hann átti síðar, samhliða höfundarferli sínum, eftir að leika í ýmsum sviðsverkum, útvarpsleikritum, sjónvarpsmyndum og kvikmyndum, meðal annars í eigin verkum. Síðasta hlutverk hans á sviði var einleikurinn Síðasta segulband Krapps eftir Samuel Beckett, sem hann lék veikur af krabbameini, bundinn við hjólastól, í Royal Court Theatre árið 2006.

Pinter giftist leikkonunni Vivien Merchant árið 1956 og eignaðist með henni einn son. Þau skildu og Pinter kvæntist rithöfundinum Antoniu Fraser árið 1980.


Verk

Pinter sendi frá sér sín fyrstu ljóðmæli árið 1950 en fyrstu leikverk sín, einþáttungana The Room og The Dumb Waiter, skrifaði hann árið 1957. Fyrsta leikrit Pinters í fullri lengd var The Birthday Party (Afmælisveislan, 1958). Verkið hlaut harða dóma þegar það var frumflutt og var aðeins sýnt nokkrum sinnum. Einn áhrifamesti gagnrýnandi samtímans, hjá The Sunday Times, átti þó eftir að birta afar lofsamlega gagnrýni um verkið og sagði: "Af þessu leikriti að dæma býr Pinter yfir frumlegustu, mest sláandi og eftirtektarverðustu hæfileikum sem fyrirfinnast í leikhúslífi Lundúnaborgar ... Við munum heyra af Pinter og Afmælisveislunni aftur, þrátt fyrir það sem höfundurinn og leikverkið máttu þola í síðustu viku. Leggið þessi nöfn á minnið." Gagnrýnandinn varð sannspár og Afmælisveislan átti síðar eftir að verða eitt vinsælasta leikverk skáldsins. Það var kvikmyndað árið 1968 og hefur verið sviðsett í fjölda uppsetninga víða um heim.

Útvarpsleikrit Pinters A Slight Ache (Dálítil óþægindi) var flutt árið 1959 og sviðsett tveimur árum síðar. Pinter sló í gegn með The Caretaker (Húsverðinum) sem var frumflutt árið 1960 og kvikmyndað árið 1963. Með The Homecoming (Heimkomunni, 1965) festi hann sig í sessi sem eitt áhugaverðasta leikskáld samtímans, en verkið var kvikmyndað árið 1969.

Meðal annarra þekktra leikrita Pinters má nefna Landscape (1969), Silence (1969), Old Times (Liðin tíð, 1971), No Man’s Land (1975), Betrayal (Svik, 1978, kvikmyndað 1981), Moonlight (1993), Ashes to Ashes (1996) og Celebration (Fagnaður, 2000).

Pinter skrifaði útvarpsleikrit, sjónvarpsleikrit og kvikmyndahandrit, byggð á eigin verkum og annarra. Af þekktum kvikmyndahandritum hans má nefna The Servant (1963), Accident (1967), The Go-Between (1971), The French Lautinant’s Woman (1981), The Trial (1993) og Sleuth (2007). Pinter samdi einnig ljóð og sendi frá sér ýmsa texta um hræringar í samtímanum, greinar í þágu í mannréttindabaráttu af ýmsu tagi og hugleiðingar um stjórnmál. Leikstjórnarverkefni hans í leikhúsi, útvarpi og kvikmyndum voru á fimmta tug.


Barátta fyrir mannréttindum

Síðustu 25 árin tók Pinter virkan þátt í stjórnmálaumræðu og baráttu fyrir ýmsum mannréttindamálum. Hann gagnrýndi stjórnvöld oft harkalega. Einkum var hann harðorður í gagnrýni sinni á hernaðarstefnu Bandaríkjanna og Bretlands, en hann var til dæmis andvígur Persaflóastríðinu 1991, hernaðaraðgerðum Bandaríkjanna í Afganistan 2001 og innrásinni í Írak 2003. Hann fór á vegum alþjóðasamtaka rithöfunda, PEN-klúbbsins, ásamt Arthur Miller til Tyrklands árið 1985 til að beita sér gegn pyntingum á rithöfundum sem sátu í fangelsi af stjórnmálaástæðum. Leikrit hans Mountain Language er innblásið af kúgunaraðgerðum Tyrkja gagnvart tungumáli Kúrda. Hann tók þátt í starfi Cuba Solidarity Campaign gegn viðskiptabanni Bandaríkjanna gegn Kúbu og skrifaði undir yfirlýsingu Jews for Justice for Palestinians árið 2005.


Verðlaun og viðurkenningar

Mikill fjöldi greina og bóka hefur verið skrifaður um Harold Pinter og verk hans. Hann var heiðraður á margvíslegan hátt fyrir ritstörf sín og framlag sitt til leiklistarinnar og hlaut meðal annars eftirtaldar viðurkenningar fyrir ævistarf sitt: Légion d'Honneur (2007), Europe Theatre Prize (2006), Companion of Honour (2002), Laurence Oliver Special Award (1996) og David Cohen Prize (1995). Hann hefur einnig hlotið Tony verðlaunin og Evening Standard verðlaunin fyrir verk sín. Þegar Pinter voru veitt Nóbelsverðlaunin árið 2007 var hann afar illa haldinn af krabbameini, sem hann hafði barist við frá árinu 2001. Hann gat því ekki veitt verðlaununum viðtöku í eigin persónu en sendi myndbandsupptöku af ræðu sem leikin var við verðlaunaafhendinguna. Ræðan var 46 mínútur að lengd, en í henni gagnrýndi hann meðal annars bandarísk stjórnvöld harðlega fyrir innrásina í Írak. Ræðunni hefur verið sjónvarpað og hún gefin út á DVD.


Leikritun Pinters

Harold Pinter þykir hafa einstæðan stíl sem leikskáld. Leikrit hans hafa mörg hver hversdagslegt yfirbragð, en í þeim býr óvenjulegur kraftur, og undir yfirborðinu leynast heiftúðug átök, afbrýðisemi, kynferðisleg spenna, kúgun og ótti. Persónurnar berjast við að halda aftur af hvötum sínum og viðhalda tökunum á sjálfum sér og lífi sínu, en milli þeirra ríkir gjarnan viðkvæmt valdajafnvægi sem getur hæglega farið úr skorðum ef einhver utanaðkomandi brýtur sér leið inn í lokaðan heim þeirra. Samtöl Pinters þykja einstök. Orðræðan er í senn hversdagsleg og óræð, full af undirtexta og merkingarþrunginni þögn. Pinter beitir gjarnan húmor og íróníu á sérstæðan hátt. Í leikritum Pinters er áherslan gjarnan á persónusköpun, samtöl og undirtexta fremur en atburðarás. Fyrstu leikritum Pinters er gjarnan lýst sem “gamanleikjum ógnarinnar” en leikritunum sem hann skrifaði um miðbik ferils síns sem "minningaleikritum". Síðustu leikverk Pinters fela gjarnan í sér pólitíska ádeilu. 


Pinter á Íslandi

Mörg leikrita Pinters hafa verið sett upp á Íslandi, en Þjóðleikhúsið setur nú upp Heimkomuna (2015). Þjóðleikhúsið sýndi Afmælisveisluna árið 2012 og hlaut sýningin sjö tilnefningar til Grímunnar, meðal annars sem sýning ársins. Þjóðleikhúsið hefur einnig sýnt Húsvörðinn (1962), Liðna tíð (1974) og einþáttungana Biðstöð og Það er nú það á Stefnumóti (1990), en Liðin tíð var einnig tekið upp fyrir Sjónvarp. Þjóðleikhúsið sýndi ennfremur Fagnað á Stóra sviðinu árið 2006, og stóð fyrir Pinterþingi í tengslum við uppsetninguna. Alþýðuleikhúsið, P-leikhúsið og Íslenska leikhúsið hafa sett upp eftirtalin leikverk: Einskonar Alaska, Kveðjuskál, Heimkoman, Elskhuginn, Vörulyftan og Húsvörðurinn. Leikfélag Akureyrar, Leikfélag Reykjavíkur og Sögn stóðu í sameiningu að uppsetningu leikritsins Svik. Leikritin Mömmudrengur, Dálítil óþægindi, Húsvörðurinn, Landslag, Fjölskylduraddir, Einskonar Alaska, Svik, Til ösku, Kvöldskólinn og Afmælisveislan hafa verið flutt í Ríkisútvarpinu.

M.T.Ó.

Úr gagnrýni

Silja Aðalsteinsdóttir - TMM.is

(http://tmm.forlagid.is/?p=3745):

„Þetta er þrususýning þar sem allir vita nákvæmlega hvað þeir eru að gera. ... Leikararnir eru hver öðrum betri ...“

 

Dagný Kristjánsdóttir - Hugrás.is

(http://hugras.is/2015/10/heim-kom-hun/):

„Listilega vel skrifað og margrætt leikrit, fullt af reiði og þjáningum karla sem hata konur og berjast um völd. Ein kona stendur andspænis fimm körlum sem sjá í henni það sem þeir þrá. Afbragðs góðir leikarar túlka þennan heim af list ...“

 

Hlín Agnarsdóttir - Kastljós

„Það gekk allt upp. Allir vissu hvað þeir voru að gera. Nálgun leikstjóra er þannig að það er góður lestur á verkin. Textameðferðin er algjört konfekt. Þeir eru allir góðir. ... Ég vil hvetja fólk til að fara og sjá Pinter; frábær texti, frábær uppsetning og fantagóður leikur.“

 

Þorgeir Tryggvason - Morgunblaðið, 13 October 2015:

****

„Leiklega séð eru ekki veikir blettir, ögun og nákvæmni í fyrirrúmi. ... Umgjörðin er snjöll, vinna leikhópsins fyrsta flokks. Útkoman fyrirsjáanlega áhrifarík.“

 

Myndasafn