Menu
logo
Spamalot
Spamalot

Spamalot

eftir Eric Idle (handrit, tónlist, söngtextar) og John du Prez (tónlist)

Um sýninguna

Óborganlega fyndinn nýr söngleikur - með dúndrandi skemmtilegri tónlist!

 

★★★★

Morgunblaðið

 
Söngleikurinn Spamalot er byggður á kvikmyndinni Monty Python and the Holy Grail og hefur verið sýndur við miklar vinsældir á Broadway, West End og víða um heim. Spamalot hlaut Tony verðlaunin og Drama Desk verðlaunin sem besti söngleikur ársins 2005

Hinar goðsagnakenndu frásagnir af Artúr konungi og riddurum hringborðsins birtast hér í glæ­nýjum búningi, þar sem hinar myrku miðaldir og veröld Broadwaysöng­leikja renna saman - og útkoman er vægast sagt dásamlega fyndin.

Hér er öllu tjaldað til sem þarf í góðan söngleik, og miklu meiru en því — hugprúðum hetjum, syngj­andi riddurum, risakanínum, stór­kost­legum söng­atriðum, fljúgandi beljum og glæstum meyjum...

Monty Python–hópurinn hefur í yfir fjóra áratugi notið gífurlegra vinsælda fyrir sjónvarpsþætti sína, kvikmyndir og annað skemmtiefni sem er fullt af satíru og súrrealískum húmor.
Söngleikurinn Spamalot hefur slegið í gegn jafnt hjá eldheitum aðdáendum Monty Python sem öðrum.

Hugprúðir riddarar, dans, söngur og gleði!


Boðið verður upp á nokkrar síðdegissýningar, sem henta vel yngri gestum!

 

 

Verð

Verð: 5650 kr.

Lengd sýningar

2 klst. 20 mín. 

Hvar og hvenær

Frumsýning:
21.02.2014 
Svið:
Stóra sviðið 

Aðstandendur

Tónlistarstjórn

Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson

Sviðshreyfingar

Cameron Corbett

Höfundar

Eric Idle

Astoðarleikstjóri

Gunnar Gunnsteinsson

Sýningastjórn

Þórunn Geirsdóttir

Handrit

Eric Idle

Söngtextar

Eric Idle

Sýningardagar

Hér koma sýningardagarnir...

Söngtextar

Einmitt svona lag

Í söngleikjum í dag
er óumflýjanlegt
að flytja fallegt lag
sem flestir geta þekkt.
En er þetta, einmitt þannig lag?

Það byrjar voða veikt
en vex svo smátt og smátt
og verður fyrir rest
fáránlega hátt.
Og þetta, er einmitt þannig lag.

Núna kemur brú
þá bíð ég meðan þú
kreistir upp tón sem kannsk'er hreinn.
Í faðminn tekur mig
ég frussa smá á þig
svo hækkum við um einn.

Við opnum upp á gátt.
þetter alltof, alltof hátt.
Þú fórst upp í E
— við æfðum það í D.
En þetta er einmitt þannig lag.

Nú stækkar það og rís
— þú stynur eins og grís.
Svona, svona ljúfa mín.
— og þú lyktar eins og svín.
En þetta er einmitt þannig lag.

Hvenær endar þetta lag?
Tjah, vonandi í dag.
Það er eins og íslenskt haust.
Það er enda-fokking-laust.
En þetta er einmitt þannig lag.

Nei, þetta er einum of.
Ég er að fá geðrof.
Þetta drasl er alltof langt.
Og allt við það er rangt!
En þetta er (einmitt) þannig lag.Líttu alltaf á lífsins björtustu hlið.

Þó sumt í heimi hér
henti ekki þér
útlitið sé dökkt og ansi þurrt.
Hættað röfla, hættað tauta.
Heyrðu! Prófaðu að flauta!
Og skautaðu frá áhyggjunum burt.
Ooog ...
Líttu alltaf á lífsins björtustu hlið.
Líttu alltaf á lífsins björtustu hlið.

Ef allt sem sést er eymd
þá ef til vill er gleymd
lífgleðin, sem ratar ekki út.
Ef þú ræsið ráfar í
röltu upp úr því
og skelltu svo á votar varir stút.

Ooog ...
Líttu alltaf á lífsins björtustu hlið.
Líttu alltaf á lífsins björtustu hlið.

Þó lífið líði hjá
það liggur ekkert á
— því dauðinn laumast alltaf upp að þér.
Reyndað sýnast soldið hress
þínar syndir kysstu bless.
Og njóttu — þetta klárast hvorteðer!

Líttu alltaf á lífsins svörtustu hlið.
láttu ekki — eins og það komi þér við.

Lífið þykir skítt
það er ekkert nýtt
— venjulega engri átt það nær.
En hlátur lengir það
það er margsannað.
Og sá hlær best sem síðast að þér hlær.

Líttu alltaf á lífsins björtustu hlið.
Líttu alltaf á lífsins björtustu hlið.

Líttu alltaf á lífsins björtustu hlið. (hækkun)
Líttu alltaf á lífsins björtustu hlið. (hækkun)
Líttu alltaf á lífsins björtustu hlið. (blístur)
Líttu alltaf á hnífsins skörpustu hlið.

Þó lífið líði hjá
liggur ekkert á
— því dauðinn trítlar alltaf upp að þér.

Líttu alltaf á lífsins björtustu hlið.
Líttu alltaf á lífsins björtustu hlið.
Björtustu hlið. Björtustu hlið.


Ekki dauður enn

Ekki dauður enn
ég get ennþá stigið dans.
Ekki dauður enn
skottast um með elegans.

Ekki dauður enn
þó ég drepist kannski senn.
Ekki hringjá lækni
ég er ekki dauður enn.

Ekki dauður enn.
Sagði dauðyflið og hló.
Ekki dauður enn
Skömmu áður en hann dó.

Ekki dauður enn
þó hann drepist kannski senn
send'ann heim og hætt'að trufla dauða menn.

Jæja, þar fór hann
hann féll í dauðadá.
Já, þar fór hann
það líst mér ekki á.
Þú ert dónakall
að dangla svoní hann
(og) drepa þennan dálaglega dánumann.

Þú þarft að skrá — (þig) í grænum hvelli á
reiðistjórnunarnámskeið!

LANSI:
Ég heiti Lancelot
ég lúða slæ í rot.
Mér verður stundum á
að valta yfir þá.

HRÓI:
Ég ætla stríðið í
en ekki' að slást í því.
Ef eitthvað bjátar á
öllu hleyp ég frá.

LANSI:
Heyrðu komdu hér.
Hrói, eftir þér ég bíð.
Ég skal kenna þér
hvernig maður fer í stríð.

BÁÐIR:
(Það) verður hörkufjör
ef ég/þú hleypst með þér/Þér á brott.

HRÓI & LANSI:
Skráum okkur nú.

HRÓI
Hrói!

LANSI
Lancelot!

ALLIR:
Áfram upp á topp.
Artúrs tilvonandi menn.
Áfram ekkert stopp
enginn virðist dauður enn.

Má ég koma með?
músíkalskur gaur ég er.
Annars drepst ég líkast til úr leiðindunum hér.

ALLIR SYNGJA Í EINU:

DAD:
Má ég koma með...

ALLIR:
Ekki dauðir enn
í ævintýraferð
Artúrs eigin menn
af allra bestu gerð.
Þó við dugum stutt
og drepumst sjálfsagt senn.
Við berjumst fyrst við erum ekki dauðir enn.

LANSI:
Ég syng.
Ég hlæ.
Og menn í rot ég slæ.

HRÓI:
Upp sál
upp geð.
ég reynað fylgjast með.

ALLIR:
Við fljóðin eltum fríð
síðan förum við í stríð.

DAD:
Ó, hve fögur ertu hlíð!

ALLIR:
Ekki dauðir enn.
Ekki enn


Finn þinn gral

Ef þú þinn þekkir mátt
þegar mark sett er hátt.
Far þá um fagran dal
finndu gral, helgan gral.

Sýndu styrk, sérhvern dag
syngdu eitt svona lag.
Hlýddu á hjartans val
helgan gral — finn þinn gral.

Lífið er í lúkum þér
leiðir þig — hvert sem það fer.
En það sem þú — átt að gera nú
það veit enginn nema þú.

Þó að leið þín sé löng,
leitin sé ansi ströng.
þó í fés fáir kal
finn þinn gral — helgan gral.

Þegar allt sýnist svart
svei mér þá, kalt og hart.
Þetta er ekkert mál
(hann) er í raun — bara skál.

Lífið er í lúkum þér
leiðir þig — hvert sem það fer.
En það sem þú — átt að gera nú
það veit enginn nema þú.
— nema þú.

Þó að leið þín sé löng,
leitin sé ansi ströng. (massaströng)
Farðu um fagran dal.
Finn þinn gral — finn þinn gral.Ef þig vantar talentinn

Í öllum ævintýrum

sem enda á réttan hátt.
Árangurinn veltur jú á þeim sem taka þátt.
Svo hlýddu elsku Artúr,
á orð mín kúturinn
Þú verður aldrei vinsæll — ef þig vantar talentinn.

Þó að sviðsmyndin sé svöl,
þó þú svífir yfir fjöl
— þó þú skartir glæstum glitklæðum og skóm.
Þó þú dansir drulluvel
þú drattast inn í skel
þegar áhorfendur kveða upp sinn dóm.

Þó svo að stjörnur stígi á svið
með sinn stinna rass og kvið.
Þó þú dragir sjimpansapa hingað inn.
Þó þú sýnir nóg af nekt
Þó að nöfnin séu þekkt.
Það verður voðalegt — ef þig vantar talentinn!

Þeir kollótta sig kæra
um kímnigáfu tæra.
Þeir fussa bara' og færa — sig úr stað.
Það þýðir ekkað þræta
þeir sem mæta munu græta
þig og taka þig og tæta — þig í spað.

Þó að gangi allt með glans
þó þú gleðjir milljón manns.
Þó svo gagnrýnendur glotti þetta sinn.
Þó svo áhorfendur missi
sig — og í sig flestir pissi
Allt er ónýtt — ef þig skyldi vanta — ANSANS TALENTINN!

Þó svo vasaklútar vætist,
föt af villtum meyjum tætist
Þó svo hvítur maður reki upp tæran tón,
allt sé ofsa lekker lýst
þá er ljóst og alveg víst
að án hans verður sjóvið ekki sjón — AÐ SJÁ!

Allt þitt glimmer gagnast lítt,
sviðið geislaflóði prýtt,
eða píur sem að dilla kinn við kinn.
Þú getur lagt þitt líf í sjóvið
látið stilla píanóið.
En færð aldrei ansans góið — ef þig vantar talentinn.

Þú mátt ráða hommaher
húlameyjar frá Níger
OKKUR STRIPLAST UNDIRFÖTUM Í.
Það er voða, voða leitt
en vanti þetta eitt
er fjárfestingin farin fyrir bí.

Þú mátt láta hopp' og hossa
alla heimsins dillibossa
en þú verður látinn gossa, góði minn.
Það kemst enginn inn um hliðið,
— það engum verður liðið
að hann stígi'á stóra sviðið — nema hafa talentinn.

Að æða upp á sviðið
að ætlað heilla liðið.
Að ætla sér að eiga það um sinn.
Því ekkert vit er í
— svo elskan gleymdu því
það vantar í þig — vantar í þig — vantar talentinn!

Það vantar, vantar, vantar, vantar, vantar talentinn!


Harmur dívunnar


Hvað varð um aðalhlutverkið?
ég átti skuldlaust þetta svið.
(Nú) annar hluti hálfur er
— enn heyrist ekki múkk frá mér!

Hef þrammað ein um baksviðið
og það er býsna áliðið.
Ég er illa svikin díva.
Ég hef engan til að hrífa.
Eg vil komast — eins og skot — upp á svið.
Hvað varð um aðalhlutverkið?

Sett er annað sætið í.
Sæll, hvað ég er þreytt á því.
Ófullnægð — verulega gramt er geð.
Mannvirðingin engin er,
engar Grímur handa mér.
(Mér) er skipt út fyrir nýútskrifuð peð. — Lítil peð!

Hvað varð um aðalhlutverkið?
Ég sem var best — er sett á bið.
Og núna ráfa ég hér um
(með) riddurum á nærbrókum.

Ég get allt eins — arkað á bar
og alein hrunið í það þar.
(Þeir geta) tekið runnann sinn
og troðið honum inn
í handónýtt — og götótt handritið.

Ég heimta aftur hlutverk
— ég er með slæman hausverk.
Gefið mér aftur hlutverk
ekki þér — ekki þér
bara ... MÉR!


Hann heitir Lancelot

HERBERT
Lancelot þú ert nú alveg milljón
enda tilverunnar miðgildi.
Sviptu af þér skokknum
því inní stæltum skrokknum
þar býr ofurviðkvæmt lit-ríkt fiðrildi.

MENN
Hér...kem-ur Lancelot
og hann er ansi hott.
Um varir dansar glott
— hann er svo kjút.

LANSI
Kjút?

MENN
Hann heitir Lancelot
er loðið bangsaskott.
Við skulum hjálpa honum út.

MENN
Hann heitir Lancelot
hann elskar franskan þvott
og fríska menn og fjör — og táp.
Hvern hefði grunað þann
geðþekka sómamann
(um að) skýla sér inní skáp.

HERBERT
Kappinn hatar ekki ljúfa lífið
langar alltaf til að vera memm.
Öllum stundum hann — ræktar líkamann
í Kamelotdeild K.F.U.M.

MENN
Hann heitir Lancelot
Hárið hans glansar flott
Ráðvillt en viljugt villidýr.

LANSI
Tíhí!

MENN
Og ef hann dillar sér
þá dagljóst öllum er

HERBERT
(Að) hann er algerlega óumdeilanlega ...

MENN
H, Ý og R
Kenghýr!

LANSI
Drottinn minn dýr!


Ég aleinn er

ARTÚR

Ég aleinn er
aleinn sit hér
ekki kjaftur er hér hjá mér

Ég aleinn er

aleinn og sér.
Það eru allir farnir frá mér.

Hvers vegna' er enginn hér hjá mér?
það er enginn hér, né þar
sem axlar byrðarnar.
Bara ef einhver væri hér
þá hýrnaðyfir mér.
En ég er einn.
Svo ósköp einn.
Með sjálfum mér — ég aleinn er.

Ég aleinn er.
BLÓRI
Hann aleinn er.
ARTÚR
Aleinn sit hér.
BLÓRI
Nema með mér
ARTÚR
Ég höndla það mjög illa.
BLÓRI
Hann er að tryllast.
ARTÚR
Ég aleinn er.
BLÓRI
Samt er ég hér.
ARTÚR
Svo aleinn er.
BLÓRI
Hér rétt hjá þér.
ARTÚR
Og sorgir sálu fylla.

BLÓRI
Gamli, ég sé í gegnum þig.
þó grey sé, rétt og slétt.
Ég er lús — af lægstu stétt
Hann sýnist, sætur, góður
(uns) hann selur mig — í (svína)fóður.

ARTÚR
Nú ég er einn
BLÓRI
Nei, heyrðu mig!
ARTÚR
Svo ósköp einn.
BLÓRI
Ég hata þig!
ARTÚR
Með sjálfum mér — ég aleinn er.

BLÓRI & RIDDARAR
Aleinn hann er
ARTÚR
Ég aleinn er.
BLÓRI & RIDDARAR
Einmana hér.
ARTÚR
Aleinn með mér.
BLÓRI & RIDDARAR
Enginn huggar hann og passar.
Hann fer um svið.
ARTÚR
Horfið mitt lið.
BLÓRI & RIDDARAR
Ja, nema við!
Og enginn knúsar hann og kjassar.

ARTÚR
Já öllsömul jafn einsömul
og ekkert fær því breytt.
Svo afskipt, hvert og eitt.
Við gætum saman sest á grein
í sameiningu ein.

BLÓRI & RIDDARAR
Við erum ein.
ARTÚR
Við erum ein.
BLÓRI & RIDDARAR
Öllsömul ein.
ARTÚR
Öll erum ein.
Og ekki neinn
er er ei einn.


Umfjöllun

Kvennablaðið

"Allir sem þátt tóku gerðu þetta að kvöldi sem vert er að eyða tíma sínum í, já og magavöðvum, og heilmikilli gæsahúð líka! - Takk fyrir kátínuna – og til hamingju með gleðina!"

Sjá nánar hér.

Kvennablaðið.is


Fréttablaðið

"...leikhópurinn fór á kostum og verður að nefna Örn Árnason sem var sérlega traustur sem Artúr konungur. Selma Björnsdóttir var stórkostleg sem díva sýningarinnar, fyndin og söng snilldarlega – salurinn át úr lófa hennar. Og Stefán Karl Stefánsson sem brá sér í allra kvikinda líki; hann nýtti sér til hins ítrasta einstaka hæfileika til að skapa fígúrur sem svínvirka. Fyndnin er vel að merkja nokkuð sem leikararnir drógu uppúr sínu pússi en sóttu ekki til Idle og í því samhengi verður að hrósa Hilmi Snæ Guðnasyni leikstjóra jafnframt."


Morgunblaðið

★★★★

"Útkoman verður alveg konunglega skemmtilegt bull ... Það er mikið stuð í sýningunni ... Hljómsveitin er dúndurgóð og tónlistin fjörug og skemmtileg. Lífrænt samband leikara, söngvara og hljómsveitar er einnig sérlega skemmtilegt. Örn Árnason leikur Artúr konung og skilar því hlutverki vel. Örn er frábær gamanleikari og góður söngvari. ... Selma passar frábærlega í hlutverk vatnadísarinnar enda fer hún algerlega á kostum í þessari sýningu í söng og leik ... Stefán Karl Stefánsson leikur fjölda persóna, meðal annars Guð almáttugan, og gerir það með tilþrifum ... Ævar Þór Benediktsson leikur Blóra sem eltir Artúr og sér meðal annars fyrir hófataki á ferðum hans og gerir það vel ... Hrói Maríusa er mjög skemmtileg týpa og útlitið alveg pottþétt ... Jóhannes Haukur er manna riddaralegastur og auk þess með þrusu söngrödd þannig að hann fer létt með að sýna okkur riddarann. Þorleifur Einarsson stendur sig vel og þá er Friðrik Friðriksson einnig stórskemmtilegur sem Lancelot, ekki síst þegar hann finnur ástina. Eggert Þorleifsson leikur nokkur hlutverk og eins og venjulega rúllar hann þessu öllu upp með glæsibrag ... Mér virðist þýðing Braga Valdimars Skúlasonar alveg snilldargóð ... Hér er fyrst og fremst verið að gera grín að eða leika sér með alls konar sagnaminni. Hlátrasköllin sem það ferðalag kallar fram í salnum eru bæði há og mörg og það er á fárra færi að búa til slíkt efni."
Morgunblaðið


DV

"... gott að geta farið í musteri íslenskrar tungu og hlegið sig máttlausan af vitleysunni sem rennur upp úr Artúri konungi og riddurum hringborðsins ...sem betur fer hefur tekist að koma brandaranum til skila í bráðskemmtilegri þýðingu Braga Valdimars Skúlasonar... Engu að síður tekst að koma klikkuðum og útúrfríkuðum samtölum Erics Idle vel til skila enda afbragðs leikarar á ferð eins og Örn Árnason í hlutverki Artúrs konungs og Stefán Karl Stefánsson í fjölmörgum og ólíkum hlutverkum ... Það er engum blöðum um það að fletta, Stefán Karl er með fyndnari leikurum sem komið hafa fram á undanförnum árum, það leikur allt í höndunum á honum. Það þarf enga smáfimi til að halda uppi stuðinu sem krafist er af öllum flytjendum verksins og það er bókstaflega aldrei slegið af kröftunum, hvorki í leik, dansi né söng. Selma Björnsdóttir á glæsileg söngnúmer í hlutverki vatnadísarinnar Gunnvarar, já, hún er jafnvel aðalstjarna kvöldsins, ekki aðeins þegar hún rúllar sér upp og niður tónstigana í ýmsum tegundum tónlistar, heldur líka í leik sem sjálfhverfa prímadonnan bak við hlutverkið. Af öðrum leikurum verður hér að nefna Eggert Þorleifsson sem var óborganlegur einkum í hlutverki bróður Manfreðs og Jóhannes Hauk Jóhannesson sem var sömuleiðis dásamlegur Galahad riddari og ekki síður spaugilegur sem faðir Herberts prins. Það var líka fengur að Maríusi Sverrissyni í hlutverki Hróa en hann kemur nú til liðs við leikhúsið með áralanga söngleikjaþjálfun erlendis frá ... Músíkhliðin undir stjórn Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar var kraftmikil og örugg og samspil milli sviðs og gryfju líflegt og afslappað eins og vera ber í söngleik af þessari tegund ... Hilmir Snær Guðnason heldur um stjórnvölinn og stýrir sínu liði í klikkaðri sýningu sem iðar af stanslausu fjöri og skemmtun í fjölbreytilegri leikmynd Snorra Freys Hilmarssonar. "


Myndasafn