Menu
logo
Karma fyrir fugla
Karma fyrir fugla

Karma fyrir fugla

eftir Kristínu Eiríksdóttur og Kari Ósk Grétudóttur

Um sýninguna

*****

"Hreint út sagt magnað verk." Fréttatíminn, SÁS.

 

Óvenjulegt nýtt íslenskt leikrit eftir tvær ungar skáldkonur, um ofbeldi, ójafnvægi, ranglæti og fegurð.

Þjóðleikhúsið kynnir til leiks tvö ný leikskáld, þær Kristínu Eiríksdóttur og Kari Ósk Grétudóttur sem báðar eru myndlistarmenntaðar. Kristín hefur á undanförnum árum vakið mikla athygli fyrir ljóð sín og smásagnasafnið Doris deyr. Fyrsta skáldsaga, Hvítfeld, fjölskyldusaga koma út núna fyrir jólin.
 
Karma fyrir fugla er í senn ljóðrænt og sálfræðilegt verk um afleiðingar ofbeldis, heljartök fortíðarinnar á sálinni, ranglæti og fegurð.

Kannski er Elsa sautján ára stúlka sem er til sölu, kannski er hún miðaldra vændiskona, kannski heimilislaus gömul kona, kannski er hún 130 ára búddanunna. Kannski er Karma fyrir fugla að gerast einmitt hér og nú, kannski á öllum tímum og alls staðar.

Leikstjóri er Kristín Jóhannesdóttir en hún hefur á undanförnum árum leikstýrt hér í Þjóðleikhúsinu rómuðum uppfærslum á nýjum íslenskum verkum, Utan gátta og Svörtum hundi prestsins.

Leikstjórn: Kristín Jóhannesdóttir. Leikmynd og búningar: Anna Rún Tryggvadóttir. Lýsing: Halldór Örn Óskarsson.

Leikarar: Þórunn Arna Kristjánsdóttir, Hilmir Jensson, Kristbjörg Kjeld, Maríanna Clara Lúthersdóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Þorsteinn Bachmann og fleiri.

Frumsýning í Kassanum  1.mars.

Verð

Verð: 4400 kr.

Lengd sýningar

2 klst. 15 mín. 

Hvar og hvenær

Frumsýning:
01.03.2013 
Svið:
Kassinn 

Aðstandendur

Sýningardagar

Hér koma sýningardagarnir...

Gagnrýni

Brot úr gagnrýni um sýninguna:

 

* * * * * 

"Í Karma fyrir fugla tekst þeim Kristínu og Kari á einhvern undraverðan hátt að skapa söguþráð sem ferðast víðs vegar um heiminn með notkun ýmissa listforma, án þess að tapa nokkru af þeirri beittu ádeilu sem verkið byggist á. ... Karma fyrir fugla er pólitískt verk þar sem unnið er með málefni sem snertir okkur öll, samþykki samfélagsins á niðurlægingu kvenna. Hugsanlega er leikhúsið einn besti miðill til ádeilu á slíkum raunveruleika. ... Karma fyrir fugla er hreint út sagt magnað verk. Í lok sýningar gátu áhorfendur vart beðið eftir að rísa úr sætum að veita aðstandendum sýningarinnar virðingu sína og þökk fyrir þá list sem þeir höfðu orðið aðnjótandi. Þetta kvöld tókst það þrekvirki að neyða áhorfendur til að horfast í augu við napurlegan veruleika heimsins en á sama tíma leyfa þeim að njóta þeirrar fegurðar sem varð til við samruna ólíkra listgreina."

Fréttatíminn, SÁS.

 

"Sviðsetningin er kraftmikil, grípandi og áleitin, með sterku myndmáli. ... það var engin tilviljun að allir frumsýningargestir Kassans risu á fætur við sýningarlok á föstudaginn. Það er svo magnað að fara í leikhús og finna þar eitthvað sem skiptir máli. ... Áleitin sýning þar sem ótal hliðar sama vanda eru skoðaðar, vel leikin og kraftmikil."

Fréttablaðið, AÞ

 

"Margar senur í þessu skemmtilega og brýna verki verða minnisstæðar ... Öll var sýningin feiknavel leikin en sérstakt hrós fær Þórunn Arna sem hér sýnir ótvírætt að hún er listagóð leikkona sem getur hvað sem vera skal. ... Það má líka alveg hrósa Þjóðleikhúsinu fyrir að gera svona vel við ung leikskáld, tefla fram nokkrum af sínum sterkustu listamönnum til að lyfta þeim myndarlega upp."

TMM.is, SA

 

 

----

 

Leikdómar í heild:

 

Fréttablaðið, 4. mars 2013

 

Óhugnaður í Kassanum

Ardís Þórarinsdóttir skrifar

 

Karma fyrir fugla "Hún verður að vera góð ef hún á að fá að vaða uppi.“ 

 

Leikhús. Karma fyrir fugla. Leikstjóri: Kristín Jóhannesdóttir. Höfundar: Kari Ósk Grétudóttir, Kristín Eiríksdóttir. Leikmynd og búningar: Anna Rún Tryggvadóttir. Lýsing: Halldór Örn Óskarsson. Leikarar: Þórunn Arna Kristjánsdóttir, Hilmir Jensson, Kristbjörg Kjeld, Maríanna Clara Lúthersdóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Þorsteinn Bachmann og Herdís Þorvaldsdóttir. Kassinn.

 

"Maður verður alla helgina að jafna sig á þessu,“ var komið fram á varirnar á mér eftir frumsýninguna á Karma fyrir fugla eftir Kristínu Eiríksdóttur og Kari Ósk Grétudóttur. En um leið og hugsunin hafði runnið í gegnum hugann vonaði ég að hún væri misskilningur. Vonandi tekur miklu lengri tíma en eina helgi að jafna sig á þessari sýningu, vonandi eimir eftir af henni varanlega.

 

Karma fyrir fugla er pólitískt leikhús. Það er leikrit sem tekst á við samfélagsmein, leikrit með markmið, innlegg í yfirstandandi umræðu um stöðu konunnar á heimsvísu. Sögunni á sviðinu vindur fram á Íslandi en nokkur atriði eru aðeins öðruvísi en við eigum að venjast hér á landi. Þannig er það sett í samhengi hvað hlutir eins og mansal eru sammannlegt vandamál, ekki bara eitthvað úti í heimi sem einhver annar þarf að velta fyrir sér. Verkið er í dæmisagnastíl, svo boðskapurinn á sviðinu vegur nokkuð þyngra en sagan.

Karma fyrir fugla er fremur brotakennt stykki og helst þyrfti annað áhorf til þess að fá almennilegan botn í það allt saman. En flest þurfum við að láta okkur duga að sjá brotin falla smám saman í rammann, ekki fyllilega, ekki þannig að allt skiljist, en þó þannig að heildarmyndin verður smám saman stærri en ramminn sjálfur.

Það mæðir mikið á Þórunni Örnu Kristjánsdóttir, sem er á sviðinu svo til allan tímann í hlutverki Elsu, aðalpersónu verksins, en hún veldur því af næmni. Maríanna Clara Lúthersdóttir fór einnig vel með hlutverk móðurinnar, fulltrúa þeirra kvenna sem gangast inn á gildandi kerfi og taka þátt í að viðhalda því af því það er þægilegast.

Einnig verður að nefna Kristbjörgu Kjeld, sem var mögnuð í hlutverki sögumanns. Örvæntingarfullur hlátur aldraðrar gleðikonu hljómar lengi í eyrum áhorfenda.

 

Hilmir Jensson var verulega óhugnanlegur í hlutverki ungu karlmannanna. Þorsteinn Bachmann, sem faðir Elsu, gerði smáborgarann hættulegan. Er þá ótalin Ólafía Hrönn Jónsdóttir í hlutverki útlifaðrar vændiskonu: Augu hennar voru dauð. Herdís Þorvaldsdóttir birtist svo í lok sýningar í litlu en mikilvægu hlutverki sem hún sinnti af alúð eins og vænta mátti.

 

Leikmynd Önnu Rúnar Tryggvadóttur var heillandi, næstum því líkamleg, og þjónaði verkinu vel. Lýsing Halldórs Arnar Óskarssonar var svo listileg að hún virtist nánast hluti leikmyndarinnar. Búningar voru sömuleiðis vel hugsaðir.

Leikstjórinn Kristín Jóhannsdóttir hefur ekki fengið auðvelt verkefni með þessu leikverki, en hún leysir það vel af hendi. Sviðsetningin er kraftmikil, grípandi og áleitin, með sterku myndmáli. Lokamynd verksins var sérstaklega óhugnanleg, yfirþyrmandi og ljót, þar sem sýnd var tímabundin huggun í botnlausu vonleysi.

Þetta er ekkert þægileg sýning. Þeir sem vilja fara í leikhús til að hlæja, skemmta sér og gleyma ættu sennilega ekkert að eltast við hana. En það var engin tilviljun að allir frumsýningargestir Kassans risu á fætur við sýningarlok á föstudaginn. Það er svo magnað að fara í leikhús og finna þar eitthvað sem skiptir máli.

 

Niðurstaða: Áleitin sýning þar sem ótal hliðar sama vanda eru skoðaðar, vel leikin og kraftmikil.

 

TMM.IS:

Ofurseld

3. mars 2013 · Fært í Leikdómar Silju

Á sýningunni Karma fyrir fugla í Kassa Þjóðleikhússins er athygli áhorfanda krafist af ofstopa í byrjun verks með afar háu hljóði og svo löngu að smám saman grípur skelfingin mann. Það er líka eins gott að hafa athyglina vakandi því þó að sagan sé í sjálfri sér ekki flókin og skilaboðin beinskeytt þá fer verkið víða í tíma og rúmi og beitir ævintýralegum brögðum til að hreyfa við áhorfendum.

Karma fyrir fugla er eftir tvær ungar konur, Kristínu Eiríksdóttur sem hefur getið sér gott orð fyrir ljóð og skáldsögur og Kari Ósk Grétudóttur sem er byrjandi á opinberum ritvelli. Þær eru svo fádæma lánsamar að hafa fengið ekki aðeins Kristínu Jóhannesdóttur sem leikstjóra að þessu fyrsta sviðsverki sínu heldur hverja dívuna af annarri í kvenhlutverkin og úrvalskarlleikara líka.
Frumsagan í Karma fyrir fugla er um Elsu (Þórunn Arna Kristjánsdóttir) sem er spurul lítil dóttir Margrétar (Maríanna Klara Lúthersdóttir) og Heimis (Þorsteinn Bachmann). Í fyllingu tímans er hún gift Örvari (Hilmir Jensson) þótt henni sé það ekki ljúft. Hana hefur kannski grunað að hann yrði ofbeldisfullur eins og kemur á daginn og þegar hún hefur fengið nóg fer hún aftur heim til pabba og mömmu. En þá er hún orðin skemmd vara og ekkert fyrir hana að gera annað en feta í fótspor frænku Heimis, Dæju (Ólafía Hrönn Jónsdóttir), sem er vændiskona.
Í húsi Dæju er líka sögumaður okkar, útlifuð kona um áttrætt (Kristbjörg Kjeld), sem kannski er að segja hér sögu sína eins og svo margra annarra stúlkna víða um heim; í henni er allt dautt eftir áratuga niðurlægingu – nema samúðin með nýju stúlkunum.
Saga Elsu endurtekur sig líka í fortíð og annars staðar en þær stöllur, Kristínarnar tvær og Kari Ósk, leyfa okkur ekki að gráta fyrr en heim er komið, svo mikið er að gerast á sviðinu og svo vandlega draga þær persónur sínar sundur og saman í háði. Einkum verða foreldrar Elsu fyrir barðinu á gysi þeirra, uppbelgdi vísindamaðurinn Heimir og kúgaða konan hans sem jánkar öllu sem hann segir en hermir eftir honum (býsna vel!) á bak. Sömuleiðis eru þær fyndnar í hryllingi sínum sögukonan og Dæja, en erfiðara er að hlæja að Örvari.
Það er auðvelt fyrir fallega klædda og menningarlega leikhúsgesti á Íslandi að segja að þetta verk sé nú ekkert fyrir okkur. Hér eigi konur kost á ýmsu öðru en vændi ef þær hrekjast úr höfn hjónabandsins. En lítum yfir fréttir vikunnar, hugsum okkur á bak við sögur af réttarhöldum yfir ofbeldismönnum og fréttir af mönnum sem kaupa vegalausar stúlkur fyrir dóp, og við erum ekki langt frá veruleika verksins. Það er í rauninni sterkt um leið og það er ósvífið af höfundum að láta Elsu vera af menntaðri millistétt og meira að segja á Íslandi (þar sem Guðni Tómasson stýrir Víðsjá). Og ekki þurfum við að fara lengi yfir heimsfréttirnar til að vita hvernig verslað er með konur um víða veröld.
Margar senur í þessu skemmtilega og brýna verki verða minnisstæðar; æðisgenginn flótti Elsu um óhugnanlegan kynjaskóg (svið Önnu Rúnar Tryggvadóttur var ferlega flott), áhrifamikið söngatriði Elsu, fallegt fuglaatriðið með Herdísi Þoraldsdóttur í hlutverki níræðrar búddanunnu og þó umfram allt stórfenglegur dans þeirra Elsu og Örvars þar sem ofbeldið tók smám saman yfir í meistaralegri stílfærslu. Öll var sýningin feiknavel leikin en sérstakt hrós fær Þórunn Arna sem hér sýnir ótvírætt að hún er listagóð leikkona sem getur hvað sem vera skal.
Það má líka alveg hrósa Þjóðleikhúsinu fyrir að gera svona vel við ung leikskáld, tefla fram nokkrum af sínum sterkustu listamönnum til að lyfta þeim myndarlega upp.

Myndasafn