Menu
logo
Karíus og Baktus
Karíus og Baktus

Karíus og Baktus

eftir Thorbjörn Egner

Um sýninguna

Það er miklu skemmtilegra að sjá Karíus og Baktus í leikhúsinu en að hafa þá uppi í munninum á sér!

Aldurshópur: 2ja - 8 ára.


Þjóðleikhúsið heldur upp á 100 ára afmæli Thorbjörns Egners með því að setja á svið tvö af hans vinsælustu leikritum, Dýrin í Hálsaskógi á Stóra sviðinu og Karíus og Baktus í Kúlunni. Sagan um Karíus og Baktus kom fyrst út á bók árið 1949 og síðan þá hafa þessir litlu þrjótar notið fádæma vinsælda meðal barna víða um heim. Þeir hafa skotið upp kollinum víða, meðal annars í brúðukvikmynd, á hljómplötu og í leikhúsi.

Karíus og Baktus eru pínulitlir tannálfar sem hafa komið sér fyrir í munninum á drengnum Jens. Þar lifa þeir sældarlífi, enda er Jens helst fyrir að borða allskyns sætindi og hann notar tannburstann lítið. En þessir tveir hrappar skemma tennurnar í Jens og þegar þeir gerast of aðgangsharðir verður Jens að fara til tannlæknis. Og nú þurfa Karíus og Baktus að glíma við tannbursta og tannlæknabor...!

 

Verð

Verð: 1900 kr.

Lengd sýningar

0 klst. 35 mín. 

Hvar og hvenær

Frumsýning:
05.01.2013 
Svið:
Kúlan 

Aðstandendur

Sýningardagar

Hér koma sýningardagarnir...

Úr leikdómum

****

Fjörugir og fyndnir bræður

 

 

Þetta var skemmtileg sýning og Karíus og Baktus voru bara sætir.“ Svo hljóðaði umsögn sonar míns á fimmta ári að lokinni sýningu á leikritinu Karíus og Baktus í Þjóðleikhúsinu. Nokkur uggur var í honum fyrir sýningu um að Karíus og Baktus yrðu ljótir og ógnvænlegir enda oft notaðir sem hálfgerðar grýlur í uppeldinu þegar kemur að sælgætisáti og tannburstun. En svo var ekki með þá kappa í þetta sinn, þeir voru bara sætir og svolítið aumkunarverðir.

Leikritið var frumsýnt um síðustu helgi og fer fram á litla sviðinu í Kúlunni sem hentar afskaplega vel til barnasýninga. Þessi uppsetning er góð fyrir yngstu börnin. Um er að ræða hálftíma sýningu þar sem stiklað er á því helsta í dvöl Karíusar og Baktusar í munni Jens. Lengd sýningarinnar er passleg og er frásögnin hnitmiðuð og góð en rödd sögumanns skiptir henni í fjóra kafla. Sögu Thorbjörns Egners þekkja flestir og óþarfi að tíunda hana hér.

Friðrik Friðriksson og Ágústa Eva Erlendsdóttir fara með hlutverk bræðranna og standa sig stórkostlega vel. Friðrik er eins og skapaður til að leika fyrir börn. Ég sá hann líka í hlutverki litla skrímslisins í uppsetningu Þjóðleikhússins í Kúlunni síðasta vetur á Stóra skrímslinu og litla skrímslinu. Þar lék hann einnig listilega vel. Hann fer með hlutverk Karíusar og er hvort tveggja tjáning hans og framburður óaðfinnanlegt í þessu verki. Raddbeiting Ágústu var hennar veikasti þáttur en leikur hennar sem Baktus var annars frábær. Hún stóð sig vel í hlutverki hins ævintýragjarna og kærulausa Baktusar og gæddi hann séstöku lífi.

Leikmyndin hentar rýminu og uppsetningunni mjög vel og er vel útfærð, hún er einföld en hefur allt sem þarf. Gott þótti mér að hljóðið var hófstillt og tónlistin vel útsett af meðlimum Pollapönks.

Það er ekkert annað um þessa uppsetningu Þjóðleikhússins á Karíus og Baktus að segja en að ég og sonur minn skemmtum okkur konunglega. Þetta er kröftug sýning, vel útfærð, fjörug og skemmtileg og um meira er ekki hægt að biðja í leikhúsi.

 

Ingveldur Geirsdóttir, Morgunblaðið

 

 

"... Það var mikil gleði meðal lítilla leikhúsgesta í gær þegar tannbursti í yfirstærð kom eins og loftfar inn yfir sviðið og fór að bursta tennur Jens með sápukúlumergð! ...  Því hefur verið haldið fram að boðskapur þessa verks missi marks vegna þess að börn samsami sig með krílunum og harmi örlög þeirra, þess vegna hefði það öfug áhrif. Ekki var það að heyra í leikhúsinu í gær enda léku þau Friðrik og Ágústa Eva hrekkjalómana af slíkri meinfýsni að öllum mátti vera ljóst að þess konar skemmdarvarga væri ekki gott að hýsa í munni sér. ... tónlistarumsjón var í höndum Pollapönksmanna sem kunna sitt fag og Ásta S. Jónsdóttir sá um gervin á krílunum sem voru alveg frábær. Í leikskránni eru teikningar af þeim bræðrum sem greinilega eru eftir Brian eins og sviðið og búningarnir, rosalega sniðugar. Stutt en frábær skemmtun – og það fannst mínum fjögurra ára fylgdarmanni líka!"

 

Silja Aðalsteinsdóttir, TMM.is

 

 

 

 

 

 

Myndasafn