Menu
logo
Englar alheimsins
Englar alheimsins

Englar alheimsins

eftir Einar Má Guðmundsson, leikgerð: Þorleifur Örn Arnarsson, Símon Birgisson

Um sýninguna

Leikrit ársins 2013

★★★★★

Fréttablaðið

★★★★★

Morgunblaðið


Uppsetning Þjóðleikhússins á Englum alheimsins á liðnu vori var í huga margra einstakur leiklistarviðburður, og töluðu gagnrýnendur meðal annars um að hún væri „fullkomin útfærsla á skáldsögunni“, „mögnuð leikhúsupplifun“ og að Atli Rafn Sigurðarson í aðalhlutverkinu léki „snilldarlega“. Sýningin var tilnefnd til níu Grímuverðlauna, meðal annars sem sýning ársins, og uppskar verðlaun fyrir leikmynd, búninga og leikverk ársins.


Englar alheimsins er meðal kunnustu skáldsagna síðari ára á Íslandi og fáar sögur hafa hitt þjóðina jafnrækilega í hjartastað. Bókin hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs, hefur verið þýdd á fjölmörg tungumál og var efniviður vinsællar samnefndrar kvikmyndar.


Englar alheimsins lýsir árekstri tveggja heima, brjálseminnar og hversdagsleikans. Verkið er saga listamannsins Páls sem ungur að árum er orðinn illa haldinn af geðveiki og missir tökin á lífinu.


Verkið lýsir af miklu innsæi heimi hins geðveika, einsemd hans og útskúfun, og átökum hans við sjálfan sig og samfélagið.


Ógleymanlegt verk, fullt af sársauka en jafnframt hlýju og húmor.

 

 

Verð

Verð: 4750 kr.

Lengd sýningar

2 klst. 20 mín. 

Hvar og hvenær

Frumsýning:
20.04.2013 
Svið:
Stóra sviðið 

Aðstandendur

Sýningardagar

Hér koma sýningardagarnir...

Umfjöllun

★★★★★
Leikhús á öðru plani

Fréttablaðið, 22.4.2013

Niðurstaða: Fullkomin útfærsla á skáldsögunni. Mögnuð leikhúsupplifun þar sem unnið er með mörk heilbrigðis og geðsýki á áhrifamikinn hátt sem lætur engan ósnortinn


Eftir langa bið hafa Englar alheimsins lent á stóra sviði Þjóðleikhússins. Tveimur áratugum eftir útkomu einnar ástsælustu bókar þjóðarinnar hefur saga Einars Más Guðmundssonar verið færð í leikhúsbúning. Þorleifur Örn Arnarsson og Símon Birgisson sjá um leikgerð en sá fyrrnefndi er einnig leikstjóri verksins. Þeir félagar sækja efnivið sinn víða en í leikritinu er vísað á hugmyndaríkan máta í önnur verk Einars. Annars er það fyrirmynd aðalpersónu verksins, bróðir Einars, Pálmi Örn Guðmundsson og verk hans, sem njóta sín á Þjóðleikhússviðinu. Pálmi var sjálfur listamaður og hlaut góða dóma fyrir ljóðabækur sínar. Í dómi frá árinu 1984 voru ljóð Pálma sögð hafa "sérstakan tón sem ná til hjartans því þau hafa einkennilega skarpa birtu og sýna manni nýja fleti á tilverunni". Segja má að leikritið Englar alheimsins leitist við að fanga þennan sérstaka tón sem einkenndi sköpun Pálma.

Býður upp á nýja vídd

Eins og áður sagði þá þekkja nær allir Íslendingar sögu Pálma, eða Páls eins og hann er nefndur í bókinni, og mörgum er virkilega annt um að henni séu gerð góð skil. Þeir Þorleifur og Símon notfæra sér þær tilfinningar sem þjóðin ber til verksins og gera persónuna, Pál, að stjórnanda kvöldsins. Leikgerð þeirra er frumleg og býður upp á nýja vídd fyrir flytjanda að mæta áhorfendum sínum. Páll er staddur á stóra sviði Þjóðleikhússins með fullt hús af áhorfendum sem eru mættir til að heyra hann flytja sögu sína með hjálp leikara, tæknimanna og annarra starfsmanna Þjóðleikhússins. Í stað þess að skapa algjörlega nýja og sjálfstæða útfærslu á verkinu taka Þorleifur og Símon bókina sem og kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar með inn í leikhúsið. Þannig er ofsóknaræði Páls útfært á áhrifamikinn hátt, bók Einars Más er á sviðinu og svipmyndum úr kvikmyndinni er varpað á stórt bíótjald. Þessi stílbrögð eru sérlega vel heppnuð, miðlarnir keppa ekki hvor við annan heldur nýtir leikhúsið þá til að þjóna sögunni. Leikmynd, búningar, tónlist, lýsing og myndbönd vinna saman að því að skapa veruleika sem lýsir jafnan þeirri ringulreið sem einkennir hugarheim geðveiks manns en gefa einnig rými fyrir lágstemmd augnablik og einlæg samtöl. Útlit sýningarinnar er stórbrotið í alla staði.

Mögnuð tenging

Það er Atli Rafn Sigurðsson sem fer með hlutverk listamannsins Páls. Nálgun Þorleifs og Símonar stillir Páli nálægt áhorfendum, þeir eru gestir hans þetta kvöld, hann er sögumaður og aðalleikari en umfram allt stjórnandi kvöldsins. Hlutverkið er virkilega krefjandi en Atli Rafn skilar því með miklum sóma. Hann nær á magnaðan hátt að halda tengingu við áhorfendur en jafnframt að túlka þann mikla ólgusjó sem bærist innra með persónu hans. Þar birtist snilldarleg leikstjórn Þorleifs og frumlegar aðferðir hans á leiksviðinu. Aðrir leikarar standa einnig frammi fyrir fyrirframgefnum hugmyndum áhorfenda sem hafa flestir mætt persónum verksins á síðum skáldsögunnar og kvikmyndatjaldinu. En í stað þess að etja kappi við fyrirrennara sína eiga leikararnir í samræðu við fyrri túlkanir, áhorfendum til skemmtunar. Af afbragðs góðum flutningi annarra leikara ber helst að nefna Eggert Þorleifsson sem leikur Brynjólf, geðlækni á Kleppi. Samband hans við sjúklingana er sérstaklega fallegt í höndum Eggerts, en þar reyna sérfræðingur og geðsjúklingar að mætast á einhvers konar jafningjagrundvelli.

Sá grundvöllur var, að mínu mati, kjarninn í þessari stórkostlegu sýningu. Listamaður og geðsjúklingur eignast einn helgasta stað Íslands, stóra svið Þjóðleikhússins, eina kvöldstund og þar með athygli uppáklæddra samborgara sinna sem vilja ólmir heyra hvað hann hefur að segja. Ádeilan er fólgin í því hve samfélag okkar hefur jafnan haft lítinn skilning á sögum annarra vistmanna á Kleppi. Á meðan saga þeirra hefur fengið bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs, sex Edduverðlaun, framlag til Óskarsverðlauna og nú rými á stóra sviði Þjóðleikhússins hafa fyrirmyndir sögunnar í gegnum tíðina upplifað útskúfun úr samfélaginu.

Sólveig Sigurðardóttir

- - -

★★★★★

Arfurinn tekinn á hælinn

Morgunblaðið 23.4.2013

Atli Rafn Sigurðarson leikur Pál en persóna hans er eðli málsins samkvæmt í forgrunni allt verkið. Atli leikur snilldarlega og sýnir gríðarlegan kraft og sjarma,« segir gagnrýnandi meðal annars um Engla alheimsins. Hann segir þetta vera »frábært nýtt leikverk.«

Það fylgir því örugglega talsvert álag að gera leikgerð eftir hinni vinsælu og vel metnu skáldsögu Einars Más Englum alheimsins. Mjög margir hafa lesið bókina og séð samnefnda bíómynd sem einnig naut mikilla vinsælda. Margir koma því í leikhúsið með fyrirfram fastmótaðar hugmyndir og vilja sjá ákveðnar senur. Aðstandendur þessarar leiksýningar kikna ekki undir þessum kröfum heldur snúa eins og þeim sýnist upp á arfinn sem fylgir verkinu. Þeir hafa sótt efnivið í fleiri verk Einars Más en Engla alheimsins og nota einnig ljóð og sögur Pálma Arnar Guðmundssonar sem persóna Páls er byggð á.

Leikritið Englar alheimsins fjallar um líf Páls og hvernig geðsjúkdómur nær tökum á honum. Hann býður til leiksýningar um eigin ævi þar sem hann nýtur aðstoðar Þjóðleikhússins og krafta þess. Páll er svo glaður og spenntur í upphafi að hann getur ekki beðið. Sagan fer vel af stað en hann missir á köflum tökin. Þetta ágerist og í lokin er hann búinn að missa þau algerlega.

 

Eftir því sem sögunni vindur fram hverfur áhorfandinn jafnframt inn í ævi Páls og geðveiki hans. Leikhúsgestir fá að reyna að Páll er öðru vísi en gengur og gerist og hann dregur þá inn í verkið. Þá vita þeir sem í salnum sitja stundum ekki frekar en Páll hvort það sem hann er að upplifa gerist raunverulega eða bara í hugarheimi hans. Sýndur er meðal annars sársauki aðstandenda hans og vina en leikararnir sem þá leika eru líka persónur á sviðinu. Sagan er því margföld í roðinu en samtímis spennandi og fullkomlega aðgengileg. Í uppfærslunni er ekki tekin sterk afstaða til geðspítalans sem stofnunar. Ekki er heldur hægt að ráða af atburðarásinni hvort eitthvert eitt atvik hafi orðið til þess að geðsjúkdómur hans blossar upp. Þetta gerist bara og þannig er því einmitt sennilega farið í veruleikanum þó að mannskepnan leitist við að búa til örlagaaugnablik eða söguþráð eftir því sem kostur er.

 

Leikmyndin undirstrikar að veruleiki verksins er leiksvið en býður líka upp á fallegar og fjölbreyttar myndir. Fremst til hægri og vinstri á sviðinu eru eins konar tjarnir, fullar af bókinni Englum alheimsins og lítið líkan af Hallgrímskirkju í gegnsæjum kassa vinstra megin og af Þjóðleikhúsinu í sambærilegum kassa hægra megin. Á sviðinu eru svo háar og stórar málmgrindur sem hægt er að aka um á hjólum. Á grindunum eru ýmsir munir úr lífi Páls sem koma við sögu eftir atvikum. Sviðið er vel nýtt. Við fáum myndir af leikjum Páls og vina hans, ástarmálum og samskiptum hans við fjölskyldu sína sem eru erfið og sorgleg í atriðum sem eru leikin ýmist fremst á miðju sviðinu eða aftarlega. Stemning er sköpuð með lýsingu. Búningar persónanna eru viðeigandi og bítlatíminn laðaður fram með viðeigandi tónlist.

 

Atli Rafn Sigurðarson leikur Pál en persóna hans er eðli málsins samkvæmt í forgrunni allt verkið. Atli leikur snilldarlega og sýnir gríðarlegan kraft og sjarma. Allir aðrir leikarar skila hlutverkum sínum vel. Jóhannes Haukur Jóhannesson er flottur sem Viktor. Sömuleiðis er Ólafur Egill Egilsson stórskemmtilegur sem Óli bítill. Þá er Snorri Engilbertsson eftirminnilegur sem Pétur. Þessum persónum er öllum miðlað með virðingu, bæði kómískum hliðum og sorglegu hlutskipti. Vert er að hrósa því sérstaklega að hvergi er fallið í gryfju tilfinningasemi sem lok verksins gætu til dæmis boðið upp á.

 

Allir aðrir leikarar standa sig vel. Eggert Þorleifsson er til dæmis mjög skemmtilegur sem Brynjólfur geðlæknir. Ágústa Eva Erlendsdóttir er einnig aðlaðandi sem ástin í lífi Páls. Ævar Þór Benediktsson leikur Rabba bróður Páls og fleiri vel. Lag Hjaltalíns og flutningur Högna Egilssonar á því í lokin er fallegur.

 

Þessi leikgerð Engla alheimsins stendur ein og sér en kallast jafnframt á við skáldsöguna og kvikmyndina. Hún ber vott um skýra sýn, dugnað, alúð, kunnáttu og vit. Sama á við um leikstjórnina. Afraksturinn er frábært nýtt leikverk.

 

Sigurður G. Valgeirsson.

 

- - -

 

Saga skjótta hestsins

TMM.is, 21. apríl 2013

Sjaldan hef ég á langri leikhúsævi séð leikara „taka salinn“ eins og Atli Rafn Sigurðarson gerði í gær á frumsýningu Engla alheimsins á stóra sviði Þjóðleikhússins. Ekki aðeins ávarpa salinn og gera hann að trúnaðarmanni sínum heldur stjórna honum eins og stórum kór eða sinfóníuhljómsveit. Enda „átti“ Atli Rafn sviðið alla sýninguna út í gegn í hlutverki Páls Ólafssonar, ríkti yfir því – eins og Páll gerir að sínu leyti í samnefndri sögu Einars Más Guðmundssonar sem hvert mannsbarn þekkir.

Þorleifi Arnarssyni var vissulega vandi á höndum að sviðsetja þetta verk. „Allir“ hafa lesið bókina og „allir“ hafa líka séð bíómyndina sem Friðrik Þór Friðriksson gerði eftir bókinni og handriti Einars Más. Í þetta sinn kom Einar Már ekki að handritsgerð – þó að sjaldan sé farið út úr texta hans – heldur gerði Þorleifur leikgerðina sjálfur ásamt Símoni Birgissyni. Þeir fara þá leið að hafa allar þessar upplýsingar uppi á borðinu. Páll Ólafsson er staddur í Þjóðleikhúsinu, núna, þar er hann að segja fólkinu í salnum frá lífi sínu (og dauða), á gólfi er búin til mósaíkmynd úr hundruðum eintaka af einni útgáfu sögunnar og hann fléttar líka bíómyndina inn í sögu sína, bæði til að minna á að saga hans hefur verið sviðsett áður og til að deila við þá útfærslu á henni sem hann gefur í skyn að hafi verið helst til einföld eða sársaukalítil. Þrátt fyrir þennan ramma „raunsæis“ náði Atli Rafn að laða áheyrendur inn í sögu Páls og sýna þeim inn í þann stóra heim þjáningar sem Páll býr í og hvernig hann eyðileggur hreinlega allt í kringum sig með ofstopa sínum og sjúklegri sjálfsmaníu. Þetta var gríðarlega áhrifaríkt.
Atli Rafn hefur skinið í mörgum ólíkum hlutverkum á undanförnum árum, ég get nefnt Játgeir í Lé konungi, Georg í Öllum sonum mínum, Edmund í Dagleiðinni löngu og Skarphéðin í Svörtum hundi prestsins, öll í Þjóðleikhúsinu, og Ólaf útrásarvíking í Eilífri óhamingju sem Þorleifur Arnarsson stýrði á litla sviði Borgarleikhússins. En túlkun hans á hamsleysi – takmarkaleysi – hins geðveika fór jafnvel fram úr þessum prestasjónum.
Eins og eðlilegt er fengu engir aðrir að skína í þessu verki en margir verða samt minnisstæðir í litlum hlutverkum. Sólveig Arnarsdóttir fór afar vel með erfitt hlutverk Guðrúnar, móður Páls, sem segir okkur bæði í byrjun og enda sýningar drauminn um hestana fjóra og þar af einn – þann skjótta – sem „hagaði sér undarlega“. Snorri Engilbertsson snart mann djúpt í hlutverki geðsjúklingsins Péturs, Ólafur Egill Egilsson var fyndinn og brjóstumkennanlegur Óli bítill, hlutverk Brynjólfs geðlæknis varð þakklátt í höndum Eggerts Þorleifssonar og ástarsena þeirra Páls og Dagnýjar, sem Ágústa Eva Erlendsdóttir lék af miklum krafti, var einn af hápunktum sýningarinnar. Nær öll textameðferð var til fyrirmyndar eins og skylt er þegar farið er með annan eins snilldartexta. Helst að maður heyrði ekki alltaf orðasskil hjá Jóhannesi Hauki í hlutverki Viktors – sem var leitt.
Svið og búningar voru í höndum langreyndra snillinga, Vytautas Narbutas og Filippíu I. Elísdóttur og þarf þá ekki að sökum að spyrja. Sviðið var afar margslungið og flókið framan af en varð einfaldara eftir því sem örlagasögu Páls vatt fram og mætti eyða löngu máli í öll táknin sem þar var að sjá. Búningar voru í anda sögutíma þó að ekki væri hikað við samtímavísanir í leikgerðinni. Bítlatónlistin var auðvitað áberandi í hljóðheimi sýningarinnar en frumsamdir tónar voru eftir hljómsveitina Hjaltalín og söngvari hennar, Högni Egilsson, lýkur sýningunni með glæsibrag.
Þetta er fyrsta verkefni Þorleifs Arnarssonar hjá Þjóðleikhúsinu. Ég spái að það verði ekki hið síðasta.

Silja Aðalsteinsdóttir

- - -

 

Mögnuð sýning

 

Hugras.is, apríl 2013

 

Skáldsagan Englar alheimsins (1993) eftir Einar Má Guðmundsson er orðin hluti af „bókmenntaarfi“ þjóðarinnar. Kynslóðir hafa lesið hana sem skyldunámsefni í skólum og setningar úr henni eins og: „Kleppur er víða“ eru orðnar eins og málshættir í tungumálinu. Enn fleiri hafa séð bíómynd Friðriks Þórs eftir bókinni. Í leikgerð Þorleifs Arnar Arnarssonar og Símonar Birgissonar er bókinni sýnd mikil virðing og bíómyndin er líka efniviður en hvort tveggja verkið er túlkað, ávarpað, það er prjónað við bókina og bíómyndin afbyggð – í miklu sjónarspili!

Kleppur er víða

Ég stillti mig um það af hetjuskap (þó ég segi sjálf frá) í síðustu umsögn minni um sýninguna Núna, að bera saman leikþættina þrjá af því að það var ekki sanngjarnt gagnvart hinum ungu höfundum. Það er hins vegar ekki hægt annað en bera saman bók Einars Más, bíómynd Friðriks Þórs og leikgerð og sýningu Þjóðleikhússins. Allir munu gera það. Þorleifur og Símon leggja áherslu á geðveiki Páls í Englunum og gera hana að þeim harmleik og gamanleik sem allt hverfist um. Skilningur þeirra er rómantískur þar sem tengsl hins geðveika við sköpun og tortímingu eru undirstrikuð. Páll (Atli Rafn Sigurðarson) er ofurnæmur, ljóðrænn, heillandi og húmorískur á góðum dögum en á vondum dögum er hann haldinn af ofskynjunum, ofsóknarbrjálæði og ótta. Allt þetta einkennir persónu Páls í bók Einars Más en samt verður saga hans mýkri þar af því að lesandi er leiddur inn í hinn mikla einmanaleika sem fylgir þessum unga manni.

Allir eiga sér uppáhaldsatriði úr bók og/eða mynd, flestir nefna senuna þegar Viktor, Páll og Óli bítill borða á Grillinu á Sögu. Þorleifur og Símon velja þessa frægu senu, ekki minnst úr bíómyndinni sem svífur yfir vötnunum í bókstaflegum skilningi, til að sprengja allt í loft upp í hryllilega fyndnu uppgjöri þar sem skotið er föstum skotum. Fólkið hans Páls getur ekki annað en staðið utan við heim hans og í Englunum er sagt frá því ofboði sem felst í því þegar Páll fær köst og umbreytist fyrir augum ástvina sinna. Bíómyndin „krúttvæðir“ hins vegar bæði Pál og vini hans. Í leikgerð Þorleifs og Símonar og túlkun Atla Rafns er martröðin hins vegar sýnd og fylgt eftir til enda. Þeir sýna líka ljóðrænu, ofsóknarbrjálæði og ofskynjanir, velja með öðrum orðum ýktar tilfinningar, miklar andstæður, stundum melódramatík en harmleikurinn tekur við.

Og þarna sveif Brecht yfir vötnunum, áhorfendur voru minntir á að þeir væru að horfa á tilbúinn veruleika, sviðsetningu og sjónhverfingar og þessari tuttugu ára gömlu bók var vippað inn í veruleikann í „spaugstofusenum“ sem fengu áhorfendur til að öskra úr hlátri. Ekkert var hafið yfir leikinn/leikaraskapinn.

Sjónrænt

Sýningin er marglaga og mjög metnaðarfull. Ysta lagið er kalt og hrátt, í leikmyndinni notar Vytautas Narbutas grindur sem sýna hús og herbergi, troðfull af hlutum sem glöggir áhorfendur gátu lesið mikla merkingu úr. Leikmyndin á miðsviðinu hafði svartan tóman geim baksviðsins fyrir aftan sig en fremst á sviðinu voru tvær litlar sviðsmyndir, hvor sínu megin, sem stóðu í flóði af bókum/mynddiskahulstrum sem augljóslega voru með veggspjaldinu af kvikmynd Friðriks Þórs framan á. Yfir leikmyndina var varpað myndbandi sem horfði á áhorfendur eða tvöfaldaði sýninguna og hið sama mátti segja um sjónvarpið í stofunni á heimili Páls sem sýndi bíómyndina og tvöfaldaði, bergmálaði stundum samtöl á sviðinu, Páli til mikillar armæðu. Þetta er póst-módernískur speglasalur sem endurskapaði um margt merkingarbrenglun hins geðklofa huga. Búningar Filippíu I Elísdóttur eiga mikinn þátt í að skilja sundur sjónræna upplifun kvikmyndar og sýningar og hér var valin meiri stílfærsla en í kvikmyndinni. Stundum fannst mér offramboð á áreitum sem kepptu innbyrðis– stundum komu áhrifin saman og urðu ótrúlega sterk; myndir, músik, orð sem mynduðu stundum „tableaux“, kyrrmyndir sem sitja á sjónhimnunni. Líka fannst mér lýsing Halldórs Arnar Óskarssonar markviss og flott, hörð ljós og grimm úr öllum áttum þegar mest gekk á, flæðandi óraunveruleiki í lokasenu.

Leikrænt

Innra og innsta lag sýningarinnar er það sem leikararnir gefa og fá úr að moða. Það er ekki spurning að Atli Rafn fær hér sitt stærsta hlutverk til þessa. Páll límir sýninguna saman og leikritið er hans leikrit. Eins og Páll segir í forleik verksins (eftir minni): Þetta er mín sýning og ef þið dæmið hana neikvætt drep ég mig! Salurinn tók þessari svörtu fyndni og öðrum ámóta mjög vel og lét vel að stjórn. Samfélagið á Kleppi, þar sem geðlæknirinn Brynjólfur, Eggert Þorleifsson fer á kostum og er vinur og (leik)félagi strákanna, er á köflum eins og leikhús í leikhúsinu.

Páll er látinn fara allan skalann og sýna þær hliðar sjúkdómsins sem erfiðast er fyrir samfélagið að bera; ofbeldið, rökleysuna og kaldlyndið – en við sjáum lítið af hinum tilfinningasama Páli bókarinnar. Hann er bara nítján ára þegar hann veikist og hann bindur miklar vonir við hverja kærustu (í bókinni) á meðan hann heldur í einhverja von um að verða frískur. Ástarþrá hans og tilfinningasemi kom fram í ljóðum/ljóðabrotum sem féllu illa inn í þá hörðu mynd sem dregin var upp. Raunar var hlutur kvenna rýr í sýningunni sem endurspeglar karlaheima.

Það reynist vera móðirin sem lengst hefur í honum tilfinningaítök með jarðsambandi sínu og væntumþykju sem Sólveig Arnardóttir túlkaði fallega. Hún og systkinin ásamt fámálum föðurnum eru uppistaðan í skekktu sálarlífi Páls og það er endurspeglað í miklu vægi fjölskyldurýmisins í sýningunni. En sambandið við fjölskylduna verður æ óraunverulegra eftir því sem líf þeirra færist sundur og þetta er sýnt á áhrifamikinn hátt í sviðsmyndinni í síðasta þætti þar sem leikmyndin er opnuð út í tóm baksviðsins.

Ögrandi

Þegar Þorleifur Arnarsson sagði í Kastljósi að það ætti að setja sígildar sögur á svið aftur og aftur og oft samtímis til að brýna þau á samtímanum var ég ekki viss um hvað í þessu fælist. Hvort það þýddi að nóg væri skrifað? Ný verk væru ekki mikilvæg? Ég skil betur hvað við var átt eftir þessa flottu sýningu og túlkun Þorleifs og hans fólks. Leikgerðin og sýningin á Englum alheimsins varpar í raun nýju ljósi á bók Einars Más og getur opnað umræður um mál sem voru og eru brýn – með aðferðum sem aðeins leikhúsið hefur yfir að ráða. Til hamingju með magnaða sýningu!

Dagný Kristjánsdóttir
prófessor í íslenskum nútímabókmenntum

 - - -

 

RÚV, Víðsjá, 23.4.2013

 

Leikverk fara ekki bara fram uppá sviði eða í skjóli listrænnar framsetningar. Allt í kringum okkur eru heilu leikverkin leikin alla daga. Af okkur sjálfum og öllum í kringum okkur. Lífið er í raun algjört leikhús. Við erum stöðugt að leika einhver hlutverk í baráttunni við að finna kjarnann í okkur sjálfum, einlægnina og sannleikann. Og svo getum við misst tökin. Sviðsmyndin brotnar.

 

Í sviðsetningu leikstjórans Þorleifs Arnar Arnarssonar og samstarfsfólks hans, á Englum alheimsins, sem nú er á fjölum Þjóðleikhússins, er sem áhorfendum sé boðið inn í hugarheim geðsjúks manns. Aðalpersóna verksins, Páll, hefur fengið stóra svið Þjóðleikhússins að láni til að miðla ævisögu sinni. Hann er jafnt leikstjóri og leikari í eigin verki og fer í gegnum helstu atburði lífs síns, bæði raunverulega og ímyndaða, á kraftmikinn og heillandi hátt. Hann missir þó smátt og smátt stjórnina og veikindi hans ná yfirhöndinni. Stjórnleysi hans endurspeglast meðal annars í því að fyrri hluti verksins er töluvert ruglandi – á stundum er vaðið úr einu í annað og farið fram og aftur í tíma. Páll virðist ýmist næstum heilbrigður eða mjög veikur og allt þar á milli. Áhorfendur fljóta þannig með í öllum hans sveiflum og fá sterka innsýn inní huga hans.

 

Það er auðvelt að hrífast með Páli í öllum hans klikkuðu en heillandi hugmyndum og hann fær áhorfendur meira að segja til að taka þátt í öllu saman. Ein þeirra stunda, sem ég ætla ekki að ljóstra frekar upp um hér, var einstaklega falleg, en á sama tíma afhjúpandi og örlítið skelfileg. Hún endurspeglaði fegurðina og sköpunarkraftinn í geðveikinni á sama tíma og hún vakti upp tilfinningu fyrir samkennd og meðvirkni. Fjöldi ólíkra tilfinninga samanþjappaðar á undraverðan hátt í eitt augnablik. Í gegnum þetta augnablik – og raunar í gegnum allt verkið, fann maður sterkt fyrir manneskjunni bakvið veikindin, sársaukanum og ringulreiðinni. Hvernig hjálparleysi allra í kringum þann veika og örvinglan hans sjálfs var alltumlykjandi. Það var átakanlegt að sjá hvernig hann áttaði sig stöku sinnum á hversu veikur hann var orðinn, við það að sjá hvernig áhrif hann hafði á fólkið sem stóð honum næst.

 

Það að nota leikhúsið sjálft sem svo sterkt tákn í uppsetningunni, undirstrikaði meðvirknina sem oftast fylgir geðsjúkdómum. Leikritið er ekki aðeins sett á svið af þeim veika, sem spilar sig heilbrigðan af öllu afli, heldur einnig leikið af allri fjölskyldunni, sem reynir allavega framan af, að breiða yfir sjúkdóminn og brosa framan í umheiminn eins og ekkert sé að. Þannig er líf þeirra í raun algjört leikhús. Og þau standa berskjölduð frammi fyrir áhorfendum. En það er líka sterk tilfinning fyrir því heilbrigða við þann geðveika og geðveikinni í þeim sem kallast  heilbrigðir. Línan er óljós, dómararnir alls staðar.

 

Uppsetningin er, eins og flestum ætti að vera kunnugt, byggð á samnefndri bók Einars Más Guðmundssonar og kvikmynd sem gerð var uppúr henni. Tilvera bókarinnar og kvikmyndarinnar var sterk í leikverkinu og var blandað inní það á eftirminnilegan hátt. Það jók enn á upplifunina á leiknum með raunveruleikann og leikhúsið og máði línuna þar á milli enn frekar. Leikararnir voru meira að segja farnir að renna saman við hlutverkin sem þeir léku.

 

Og allir leikararnir lögðu sig hundrað prósent í verkið allan tímann og orkan á sviðinu var áberandi sterk. Flest fara þau með fleira en eitt hlutverk og þar sem flakkað er stundum fram og aftur í tíma getur verið auðvelt að rugla saman persónum, eða þær renna einhvern vegin saman í eitt. Það kemur þó á óvart að þetta truflaði ekki, en hjálpaði frekar, þar sem innsýnin í huga Páls var meira viðloðandi með þessu móti. Ég átti hins vegar dálítið erfitt með að meðtaka það í byrjun, hversu nálægt leikararnir voru hvor öðrum í aldri og á það sérstaklega við um yngri systkini Páls, Pál og foreldrar hans. En það hætti fljótt að skipta máli, enda sagan alltaf á mörkum raunveruleika og ímyndunar, tíminn í henni oft afstæður og flæðið nánast ljóðrænt.

 

Atli Rafn Sigurðarson, sem fer með hlutverk Páls, sýnir ótrúlegan styrk sem leikari í þessu hlutverki. Hann treystir persónu Páls fullkomlega og það er greinilegt að hann er leikari sem þorir að fara alla leið með hlutina. Hann vinnur af nákvæmni, mikilli innlifun og einlægni í tjáningu, svo að þrátt fyrir ofgnótt tilfinninga, hæða og lægða fellur hann aldrei í gryfju tilgerðar eða ofleiks.

 

Þeir Ólafur Egill Egilsson, Snorri Engilbertsson og Jóhannes Haukur Jóhannesson, fóru  með hlutverk vina hans þriggja af geðspítalanum, en brugðu sér í upphafi einnig í hlutverk æskuvina og ýmissa annarra persóna. Í þeim hlutverkum var nærvera Óla bítils, Viktors og Péturs, þó sterk, líkt og þeir væru táknmyndir fyrir undirliggjandi veikindin Páls, eða jafnvel hluti af persónu hans.

 

Ólafur Egill stóð uppúr af kumpánunum þremur, hvað leik varðar, að hinum ólöstuðum, en hann er afar sjarmerandi í hlutverki Óla bítils. Stóísk ró og hlýja einkenndi leik hans, sem og mikið öryggi.

 

Ágústa Eva Erlendsdóttir brá sér í hlutverk ýmissa stúlkna og kvenna í lífi Páls, bæði sem hugarburður hans og í raunveruleikanum og fórst það verk vel úr hendi. Dagný, sem Ágústa Eva lék, varð eins og tenging Páls við umheiminn þegar hann var inni á Kleppi, hún var alltaf í huga hans. Hún er reyndar skráð sem Stína í leikskrá, sem mér finnst sérstakt val, þar sem Dagný er mun veigameiri í sögunni en Stína.

 

En ofboðslega fannst mér frelsandi að sjá Eggert Þorleifsson í hlutverki Brynjólfs geðlæknis. Það hlutverk gaf honum tækifæri til að sanna að hann er fjölhæfari leikari en hann hefur fengið að sýna undanfarið. Að lokum langar mig að nefna Sólveigu Arnars, sem hafði afar sterka nærveru á sviðinu og gerði sársauka Guðrúnar nánast áþreifanlegan.

 

Leikmyndin þótti mér ágætlega heppnuð. Hún var blanda af formföstum og hreinum myndum og gífurlegri kaótík, líkt og hugur Páls. Þar var tenging við fangelsið, heimilið og spítalann. Það mátti jafnvel merkja þar tengingar við aðrar sögur sem fjalla um geðveiki. Mér þótti þessi margslungna og hlaðna leikmynd þó örlítið vannýtt. Á stórum skjá bakvið leikmyndina voru svo sýnd myndbrot og myndbandsverk, sem engan vegin náðu að njóta sín, því þau hurfu nánast bakvið leikmyndina. Vísanir í kvikmyndina, bæði í umræddum myndbrotum og í búningum voru skemmtilegar.

 

Það er óhætt að segja að þessi uppsetning sé afar vel úr garði gerð, af ástríðu og fagmennsku. Auk fjölda tilkomumikilla og listrænna lausna, var verkið hlaðið merkingu í ótal lögum og húmorinn var oftast ekki langt undan, svo auðveldara reyndist að takast á við sársaukann. Bæði skáldverkið og umfjöllunarefni þess, geðveikin, voru meðhöndluð af virðingu og einhver undarleg yfirvegun fólst svo í öllum hamaganginum. Þannig varð lokasenan einlæg og lágstemmd og laus við alla óþarfa dramatík. Það var friður yfir henni, einhver lausn.

 

Ég get mælt með því af fullum hug að hlustendur bregði sér í Þjóðleikhúsið og láti hreyfa við manneskjunni í sér.

 

Og munið að gæta englanna ykkar.

 

 

Ástbjörg Rut Jónsdóttir

 

 

 

 

 

 

Tónlist

Myndasafn