Menu
logo
Með fulla vasa af grjóti
Með fulla vasa af grjóti

Með fulla vasa af grjóti

eftir Marie Jones

Um sýninguna

Ein vinsælasta sýning Þjóðleikhússins á síðari árum aftur á svið. Bráðskemmtilegt verk, fullt af leiftrandi gamansemi og hlýju.

Með fulla vasa af grjóti var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu í árslok 2000 og fékk frábærar viðtökur. Sýningar urðu alls 180 og yfir 40.000 manns sáu verkið. Nú gefst leikhúsunnendum að nýju færi á að sjá þessa vinsælu sýningu, eftir tæplega tíu ára sýningarhlé.

Með fulla vasa af grjóti var frumflutt á Írlandi árið 1999 í leikstjórn Ian McElhinney, sem setti verkið einnig upp hér á Íslandi. Verkið fór sigurför um heiminn og hefur sópað að sér verðlaunum.

Aðalpersónur verksins eru tveir náungar sem ráða sig sem aukaleikara í Hollywoodkvikmynd sem verið er að taka upp í nágrenni lítils þorps á vesturströnd Írlands. Fljótlega setur starfsemi kvikmyndafyrirtækisins allt á annan endann, og von bráðar eiga sér stað árekstrar á milli lífs Hollywoodstjarnanna og hversdagsleika sveitafólksins. Þessir árekstrar eru margir hverjir afar spaugilegir, en þeir geta einnig haft alvarlegar afleiðingar.

Í verkinu kynnumst við fjölda skrautlegra og skemmtilegra persóna og sem fyrr fara þeir Hilmir Snær Guðnason og Stefán Karl Stefánsson með öll fjórtán hlutverkin í sýningunni, og bregða sér jafnt í gervi karla sem kvenna. Stefán Karl stígur nú aftur á leiksvið á Íslandi eftir langt hlé, en hann hefur á undanförnum árum búið í Bandaríkjunum og leikið þar á leiksviði og í sjónvarpi.

Leikstjórn: Ian McElhinney. Útfærsla leikmyndar og búninga: Elín Edda Árnadóttir. Aðstoðarleikstjóri: Selma Björnsdóttir. Þýðing: Guðni Kolbeinsson.

Leikarar: Hilmir Snær Guðnason, Stefán Karl Stefánsson.

Frumsýning á Stóra sviðinu 15. september.Verð

Verð: 4400 kr.

Lengd sýningar

2 klst. 30 mín. 

Hvar og hvenær

Frumsýning:
15.09.2012 
Svið:
Stóra sviðið 

Aðstandendur

Sýningardagar

Hér koma sýningardagarnir...

Um verkið

Með fulla vasa af grjóti, eða Stones in His Pockets, eftir Marie Jones er meðal þekktustu leikrita sem skrifuð hafa verið á Norður-Írlandi á undanförnum árum. Verkið var upphaflega skrifað fyrir írska leikhópinn Double Joint og frumsýnt árið 1996. Jones endurskrifaði verkið fyrir Lyric-leikhúsið í Belfast árið 1999. Sýning Lyric-leikhússins var sýnd í Dublin og á Edinborgarhátíðinni sama ár. Verkið vakti þar mikla athygli og var í kjölfarið frumsýnt í New Ambassadors-leikhúsinu á West End árið 2000, í leikstjórn Ians McElhinneys. Sýningin sló í gegn, var flutt í Duke of York's leikhúsið og sýnd í þrjú ár samfleytt í London. Leikararnir í upprunalegu sýningunni léku verkið á Broadway, og tóku ýmsir leikarar við hlutverkum þeirra í London á sýningartímabilinu. Verkið hefur frá frumsýningunni í London farið sigurför um heiminn en það hefur þegar verið leikið í 32 löndum og þýtt á 27 tungumál. Með fulla vasa af grjóti hefur hlotið ýmis verðlaun, og má þar nefna Laurence Olivier verðlaunin, Evening Standard verðlaunin og Irish Times/ESB leiklistarverðlaunin.

 

Með fulla vasa af grjóti fer nú aftur á svið í Þjóðleikhúsinu eftir tíu ára sýningarhlé. Verkið var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu í leikstjórn Ians McElhinneys í árslok 2000, og léku þeir Hilmir Snær Guðnason og Stefán Karl Stefánsson öll hlutverkin. Sýningin fékk frábærar viðtökur. Hún var frumsýnd á Smíðaverkstæðinu en síðar flutt yfir á Stóra sviðið, og auk þess sýnd á leikför um landið. Sýningar urðu alls 180 og yfir 40.000 manns sáu verkið.

Úr leikdómum

 

"Það er ekkert af því skafið að ég skemmti mér konunglega! ... Allar persónurnar sem þeir léku voru virkilega vel unnar. Þeir hafa lagt mikið í karaktersköpun sem skilaði sér sannarlega í skýrum persónum og hreinum skiptingum milli þeirra. ... Þeim tókst meira að segja að vera brjálæðislega krúttleg börn! .... Þeir félagarnir sýndu mikla snilli í leiktúlkun…já og dansi!"

- Ástbjörg Rut Jónsdóttir, Víðsjá, RÚV:

 

 

* * * *

"Þeir Stefán Karl og Hilmir Snær gæða persónurnar slíku lífi að áhorfendur njóta hverrar setningar, glennu og grettu til fullnustu… Spriklandi fimi leikaranna hvort heldur var í hlutverki kvenna eða karla var einstök."

- Elísabet Brekkan, Fréttablaðinu

 

* * * *

"Það er gott dæmi um hvað ímyndunarafl okkar er þrátt fyrir allt virkt að tveir leikarar, sem skipta varla um föt og hafa enga sérstaka leikmuni sér til aðstoðar, geti leikandi haldið stórum sal hugföngnum í meira en tvær klukkustundir. ... Þeir Hilmir Snær og Stefán brillera í þessari sýningu ....eftirminnilegt kvöld með góðu verki og enn betri leikurum."

- Sigurður G. Valgeirsson, Morgunblaðinu

 

Myndasafn