Menu
logo
Dýrin í Hálsaskógi
Dýrin í Hálsaskógi

Dýrin í Hálsaskógi

eftir Thorbjörn Egner

Um sýninguna

Örfáar aukasýningar í ágúst og september!

Aldurshópur: 3ja - 99 ára.

 

****

"Þjóðleikhúsið eins og það á að vera ... Þetta er sýning þar sem manni líður vel í salnum með öllum börnunum ... Ef þú ætlar bara á eina sýningu í vetur með alla fjölskylduna, þá er þetta sýningin."

MT - Fréttatíminn

 

****

"Byrjum á því mikilvægasta, lesandi góður: Farðu á Dýrin í Hálsaskógi! Farðu fyrir barnið í sjálfum þér og farðu með þau börn sem þér standa næst. Það verður skemmtilegt síðdegi og þið eigið eftir að koma syngjandi heim."

AÞ - Fréttablaðið

 

,,Mikki refur Jóhannesar Hauks var ótrúlega kómískur og Lilli klifurmús Ævars Þórs auðelskaður af öllum sem á hlýddu ....Þjóðleikhúsið getur verið stolt af þessari uppsetningu á Dýrunum í Hálsaskógi." ÁRJ - RÚV

 

DÝRIN Í HÁLSASKÓGI

Sívinsælt leikrit Thorbjörns Egners í bráðskemmtilegri nýrri uppfærslu.

Leikrit norska barnavinarins Thorbjörns Egners hafa notið ómældra vinsælda hjá íslensku þjóðinni allt frá því að Kardemommubærinn var sviðsettur í Þjóðleikhúsinu í fyrsta sinn árið 1960. Alls hafa yfir 300.000 áhorfendur séð leikrit Egners Dýrin í Hálsaskógi, Kardemommubæinn, Síglaða söngvara og Karíus og Baktus í Þjóðleikhúsinu á þeirri ríflega hálfu öld sem liðin er frá því að persónur hans stigu þar fyrst á svið.

Nú á hundrað ára afmæli Thorbjörns Egners (1912-1990) er enn á ný komið að því að kynna nýjum kynslóðum hið dásamlega leikrit hans um íbúa Hálsaskógar, og leyfa þeim eldri að rifja upp gömul kynni. Leikritið hefur fjórum sinnum áður verið sviðsett hér í Þjóðleikhúsinu, árin 1962, 1977, 1992 og 2003. Frumsýningin á Dýrunum í Hálsaskógi í Þjóðleikhúsinu í nóvember árið 1962 var jafnframt fyrsta frumsýning verksins í heiminum þar sem leikarar fóru með hlutverkin, en áður hafði verkið verið flutt í brúðuleikhúsi í Noregi. Í haust fögnum við því hálfrar aldar sýningarafmæli leikritsins. Og nú eru það þeir Jóhannes Haukur Jóhannesson og Ævar Þór Benediktsson sem bregða sér í hlutverk félaganna Mikka refs og Lilla klifurmúsar, en auk þeirra stígur á svið fjöldi leikara, barna og tónlistarmanna.

 

Hlutverkaskipan haustið 2013:

 

 

Mikki refur

Jóhannes Haukur Jóhannesson

 

Lilli klifurmús

Ævar Þór Benediktsson

 

Marteinn skógarmús

Oddur Júlíusson

 

Hérastubbur bakari

Örn Árnason

 

Bakaradrengur

Snorri Engilbertsson

 

Maðurinn á bænum og Patti broddgöltur

Þorleifur Einarsson

 

Konan á bænum

Ragnheiður Steindórsdóttir

 

Amma skógarmús

Ólafía Hrönn Jónsdóttir

 

Bangsamamma

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

 

Bangsapabbi

Baldur Trausti Hreinsson

 

Húsamúsin og uglan

Þórunn Arna Kristjánsdóttir

 

Elgurinn og hundurinn Habakúk

Saga Garðarsdóttir / Friðrik Friðriksson

 

Bangsi litli

Gunnar Hrafn Kristjánsson / Benedikt Gylfason

 

Íkornabörnin

Pétur

Grettir Valsson / Egill Breki Sigurpálsson

Tumi

Helena Clausen Heiðmundsdóttir / Elva María Birgisdóttir

Lísa

Hildur Clausen Heiðmundsdóttir / Svava Sól Matthíasdóttir

 

Mýs

Áslaug Lárusdóttir / Hekla Nína Hafliðadóttir

Alexandra Björk Magnúsdóttir / Ísabella Rós Þorsteinsdóttir

Steinunn Lárusdóttir / Andrea Birna Guðmundsdóttir

Vera Stefánsdóttir / Agla Bríet Gísladóttir 

 

 

 

Verð

Verð: 3950 kr.

Lengd sýningar

2 klst. 

Hvar og hvenær

Frumsýning:
08.09.2012 
Svið:
Stóra sviðið 

Aðstandendur

Sýningardagar

Hér koma sýningardagarnir...

Thorbjörn Egner

Thorbjörn Egner

 

Leikrit Thorbjörns Egners hafa notið mikilla vinsælda á Íslandi í rúmlega hálfa öld, eða allt frá því að Kardemommubærinn var frumsýndur í Þjóðleikhúsinu árið 1960. Egner þótti afar vænt um þær góðu viðtökur sem verk hans hlutu hér á landi, og hann tengdist Þjóðleikhúsinu og starfsfólki þess nánum böndum. Í ár eru liðin 100 ár frá fæðingu Egners, og Þjóðleikhúsið minnist á þessu leikári hins mikla barnavinar með sýningum á leikritum hans Dýrunum í Hálsaskógi og Karíusi og Baktusi. Við höldum um leið upp á afmæli Dýranna í Hálsaskógi, en leikritið var fyrst sett upp á leiksviði fyrir 50 árum, einmitt hér í Þjóðleikhúsinu okkar.

 

Norski listamaðurinn Thorbjörn Egner fæddist í Osló 12. desember árið 1912 og lést á aðfangadag árið 1990. Hann var afar fjölhæfur listamaður, fékkst við myndlist og samdi ljóð, sögur, leikrit og tónlist. Hann er einna þekktastur fyrir leikrit sín Dýrin í Hálsaskógi, Kardemommubæinn og Karíus og Baktus, en hann sendi einnig frá sér fjölda bóka, myndskreytti bækur og vann margskonar barnaefni fyrir útvarp. Hann lét til sín taka á ýmsum sviðum barnamenningar, og sá meðal annars um útgáfu lestrarbóka fyrir börn.

 

Myndlist, leikrit, sögur, ljóð og lög

 

Allt frá barnæsku lifði Egner í heimi sagna, myndlistar, tónlistar og leiklistar, eða eins og hann sagði sjálfur: „Að yrkja ljóð og vísur og leika tónlist og teikna og mála og setja upp leikrit er það sem ég hef haft mest gaman af allt frá því að ég man eftir mér, ég hef kannski alltaf verið nokkurs konar „klifurmús“.“

 

Egner ólst upp í Osló, en foreldrar hans ráku litla nýlenduvöruverslun á fyrstu hæð í húsinu þar sem fjölskyldan bjó. Í bakgarðinum var hesthús, heyloft og vagnskýli og þar gátu börnin sýnt leiksýningar og spilað í hljómsveit. Á sumrin dvaldi Egner á bóndabæ hjá skyldfólki sínu og í mörgum verka sinna styðst hann við minningar frá æskuárunum í Osló og í sveitinni.

 

Egner lærði teiknun og hönnun og vann fyrst í stað við að teikna og mála. Hann myndskreytti bækur fyrir börn og fullorðna, og þótti góður grafíklistamaður. Hann vakti þó fyrst verulega athygli með þátttöku sinni í barnatímum í útvarpi á fimmta og sjötta áratugnum. Hann samdi sögur, vísur, tónlist og leikrit fyrir útvarp, og söng sjálfur lög og las sögur. Hann eignaðist brátt stóran hóp aðdáenda, og mikið af því efni sem hann vann fyrir útvarp varð honum síðar innblástur fyrir bækur og leikrit.

 

Thorbjörn Egner hóf að senda frá sér barnabækur árið 1940. Hann myndskreytti sjálfur bækur sínar og þóttu teikningar hans sérlega skemmtilegar. Segja má að hann hafi slegið í gegn sem höfundur með Karíusi og Baktusi, sem kom út á bók árið 1949 en hafði áður verið flutt í útvarpi. Dýrin í Hálsaskógi (Klatremus og de andre dyrene i Hakkebakkeskogen) fylgdi í kjölfarið á bók árið 1953 og Kardemommubærinn (Folk og røvere i Kardemomme by) árið 1955. Þessi þrjú verk, sem síðar urðu leikrit, eru vinsælustu verk Egners, en hann sendi einnig frá sér fjölda annarra bóka.

 

Kardemommubærinn var frumsýndur á leiksviði í Noregi árið 1956 en það var á Íslandi sem Dýrin í Hálsaskógi voru fyrst frumsýnd á leiksviði, hér í Þjóðleikhúsinu þann 16. nóvember árið 1962. Tveimur vikum seinna var verkið svo frumsýnt í Kaupmannahöfn. Verkið hafði áður verið sýnt sem brúðusýning í Oslo Nye Teater haustið 1959. Karíus og Baktus var fyrst flutt sem útvarpsleikrit árið 1946. Leikrit Egners eru sett upp reglulega í Noregi og víðar á Norðurlöndum, og hafa verið leikin víða um heim.

 

Egner hannaði leikmyndir og búninga við fyrstu uppsetningar á verkum sínum, og leikstýrði nokkrum uppfærslum á eigin verkum.

 

Brúðukvikmyndir Ivo Caprinos frá árinu 1955 sem voru byggðar á Karíusi og Baktusi og Dýrunum í Hálsaskógi nutu mikillar hylli og gerð var kvikmynd byggð á Kardemommubænum árið 1988.

 

Egner þýddi barnaefni og vann margar lestrarbækur fyrir börn. Hann var vel að sér um gömul hús og sendi frá sér rit um þau efni. Hann ferðaðist um Norðurlöndin og Miðjarðarhafslöndin, og skoðaði þar byggingar sem urðu svo fyrirmyndir að barnateikningum hans.

 

Mikilvægt að lesa fyrir börnin

 

Egner og Anna kona hans kynntust þegar þau voru átján ára. Hún var alla tíð hans helsti samverkamaður og Egner segir að Anna og börnin þeirra hafi verið hans bestu hjálparmenn, gefið honum ráð og veitt honum innblástur. Þegar börnin voru ung höfðu foreldrarnir fyrir reglu að lesa fyrir þau á kvöldin. „Ég er þeirrar skoðunar að það hafi mikla þýðingu að lesa upphátt fyrir börn,” sagði Egner. „Þá upplifa stórir og smáir veröld bókanna saman og tala saman um efni þeirra. Svona kvöldstundir held ég að skapi grunninn að trausti og samheldni sem getur varað allt fram eftir unglingsárunum og kannski um alla framtíð. Þetta eykur orðaforða barnanna og nærir hugmyndaflug þeirra og sköpunargleði.”

 

Þegar Egner var spurður að því hvaða kröfur hann gerði til barnasýninga, svaraði hann: „Ég vonast fyrst og fremst til þess að leikritið veki spennu, og skemmti stórum sem smáum og gleðji þá. En ég óska þess að á bak við skemmtilega atburðarásina finni fólk dýpri merkingu, áminningu um að enginn er bara hetja og enginn er bara skúrkur. Og við verðum að sættast á það að við manneskjurnar erum svolítið ólíkar – og við verðum að reyna að skilja hvert annað.”

 

Egner var eitt sinn spurður að því hvaða persónu í Hálsaskógi hann líktist mest. Hann svaraði því til að honum væri oft líkt við Bangsapabba, en að hann myndi líka gjarna stundum vilja vera Lilli klifurmús.

 

Thorbjörn Egner og Þjóðleikhúsið

 

Þjóðleikhúsið og Thorbjörn Egner tengjast sérstökum böndum. Verk hans hafa verið samofin starfi Þjóðleikhússins í yfir hálfa öld, eða allt frá því að Kardemommubærinn var frumsýndur hér árið 1960. Skáldskapur Egners rataði beint að hjarta íslenskra barna, og fyrsta uppfærslan á verkinu naut svo mikilla vinsælda að hún var sett aftur á svið árið 1965. Síðan þá hefur verkið verið sett upp með reglulegu millibili, eða árin 1974, 1984, 1995 og 2009.

 

Leikrit Egners Dýrin í Hálsaskógi hefur einnig notið afar mikilla vinsælda í Þjóðleikhúsinu, og hefur verið sett á svið fjórum sinnum áður hér, árin 1962, 1977, 1992 og 2003. Tvö önnur leikrit eftir Thorbjörn Egner hafa verið sýnd í Þjóðleikhúsinu, Síglaðir söngvarar árið 1968 og Karíus og Baktus árið 2001, en síðarnefnda verkið verður frumsýnt á ný í Kúlunni seinna á þessu leikári. Yfir þrjú hundruð þúsund gestir hafa séð leikrit Egners í Þjóðleikhúsinu í gegnum tíðina.

 

Allt frá fyrstu sýningunni á Kardemommubænum áttu Þjóðleikhúsið og Thorbjörn Egner gott og náið samstarf. Egner gerði leikmynd og búninga þegar Kardemommubærinn, Dýrin í Hálsaskógi og Síglaðir söngvarar voru fyrst sýnd hér í Þjóðleikhúsinu. Leikmynda- og búningateikningar Egners voru notaðar við nýjar uppfærslur á verkum hans hér fyrstu 25 árin frá frumuppfærslu Kardemommubæjarins. Leikstjóri allra Egner-sýninganna hér í Þjóðleikhúsinu á þeim tíma var Klemenz Jónsson.

 

Egner kom oft til Íslands, og tengdist mörgum hér vináttuböndum. Á 25 ára afmæli Þjóðleikhússins, þann 20. apríl árið 1975, gaf hann Þjóðleikhúsinu sýningarrétt leikrita sinna á Íslandi. Við þetta tækifæri var stofnaður svonefndur Egnersjóður við Þjóðleikhúsið, en úr honum eru veittir styrkir til leikhúslistafólks.

 

100 ára afmæli

 

Norðmenn kunna vel að meta allar þær barnabækur, leikrit, hljómplötur, lestrarbækur, teikningar og fleira sem Thorbjörn Egner gaf þeim. Í Kristiansand Dyrepark hefur meðal annars verið reistur sérstakur Kardemommubær, þar sem börn og fullorðnir geta spókað sig meðal persónanna úr verkinu. Egner vann til fjölda verðlauna fyrir bækur sínar og tónlist og hann hefur verið heiðraður á margvíslegan máta í Noregi. Norðmenn halda upp á 100 ára afmæli Egners með ýmsum hætti, en um hátíðahöldin má fræðast nánar á vefsíðunni nb.no/egner.

 

Melkorka Tekla Ólafsdóttir

 

Söngtextar

Dýrin í Hálsaskógi

eftir Thorbjörn Egner

 

Söngtextar í þýðingu Kristjáns frá Djúpalæk

 

 


 

Rebbavísa

 

Hér mætir Mikki, sjá!

með mjóa kló á tá,

og mjúkan pels og merkissvip,

sem mektarbokkar fá.

Ég ligg í leyni þétt

við lágan runn og klett.

Ef lykt ég finn, hver lítil mús

er löngum illa sett.

Ég kalla: Gagg. Með kló í músarskinni

þá kveð ég: Gef mér brauð úr tínu þinni.

Ef mýsla neitar mér,

og máski stimpast fer…

Heyr! Einn og tveir og þrír – og þá

með þökk hún étin er!

 

Þá veiðiför ég fer

og frakkann rauða ber,

hin minni dýr um mörk og fjall

þá mega gá að sér.

Þau skjálfa eins og urt

í ógn, og flýja burt.

Því marga sögn um mína slægð

þau munu hafa spurt.

En, uss – í mosa músar tif ég greini.

Sjá, Marteinn kallinn læðist þar hjá steini.

Hver hafi hljótt um sig.

En hérna fel ég mig.

Hið litla, montna músargrey

nú mætti vara sig.

 
Hnetusafnaravísa

 

Held ég mig að starfi

því hnetum safna ber.

Tíu handa frænku

og tuttugu handa mér,

og af þeim ét ég átta

þá eru tólf að bjóða

Hérastubb í skiptum

fyrir hunangsköku góða.

 

Söngva- og músíkmús

 

Hér kemur Lillimann klifurmús,

sem kæti ber inní sérhvert hús,

ein regluleg söngva- og músíkmús

og meistara gítarsláttumús.

Tralala…

 

Raunakvæði um ref

Ég raula raunakvæði

um ref einn, sem hér býr.

Í græðgi vill hann gleypa

hin góðu skógardýr.

Já, þetta er sorgarsöngur víst

því sagan illa fer,

því fallera faddirúlan ræ,

og verstur endir er.

 

Einn dag hann var á veiðum

hvar voru músahús,

þá rak hann gular glyrnur

í gráa litla mús.

Ég tek þig, sagði tæfa þá,

upp trjábol músin rann.

Hæ fallera faddirúlan ræ,

hún fylgsni öruggt fann.

 

Þá varð hann súr á svipinn

og sagði: Fínt hjá þér,

en bíddu bara góða

ég bíða skal þín hér.

Svo tautar hann við sjálfan sig:

Þú síðsta leikinn átt.

Hæ fallera faddirúlan ræ,

hún bröltir niður brátt.

 

En Mikki mátti bíða,

og músin engu kveið.

Þú heyra skalt hvað skeði

hjá skrögg er vikan leið:

Þá hungrið alveg ærð ’ann

og enga veitti ró.

Hæ fallera faddirúlan ræ,

hann datt um koll og dó.

 

Vögguvísa

 

Dvel ég í draumahöll

og dagana lofa.

Litlar mýs um löndin öll

liggja nú og sofa.

Sígur ró á djúp og dal

dýr til hvílu ganga.

Einnig sofna skolli skal

með skottið undir vanga.

 

Hérastubbur bakari

 

Hinum fræga Hérastubb

helgast þessar stökur.

Hann á brauðabakarí,

bakar hverja stund í því

kostagóðar kökur.

 

Ótal kökur eru til

í því nægtabúri.

Ein er stór og önnur smá,

allar skreyttar til að sjá

rjóma og rósaflúri.

 

Vínarbrauðin volg þar fást,

vöfflur, hringir, snúðar,

hveitibrauð og hagldabrauð,

hverabrauðin seydd og rauð

og piparkökur prúðar.

 

Hérastubbur hefur og

hunangsbrauð með kremi.

Í bakaríi bakarans,

í brauðagerðarlistum hans

vildi ég vera nemi.

 

Piparkökuvísur

 

Þegar piparkökur bakast

kökugerðarmaður tekur

fyrst af öllu steikarpottinn

og eitt kíló margarín.

Bræðir yfir eldi smjörið

en það næsta sem hann gjörir

er að hræra kíló sykurs

saman við það, heillin mín.

 

Þegar öllu þessu er lokið

hellast átta eggjarauður

saman við og kíló hveitis

hrærist og í potti vel.

Síðan á að setja í þetta

eina litla teskeið pipar

svo er þá að hnoða deigið

og breiða það svo út á fjöl.

 

Amma skógarmús

 

Þegar litla músin úti er

hún má alltaf vera að gá að sér.

Þarna margur þrællinn fer á kreik

sem að þæði í kvöldmat girnilega músasteik.

Kannski fær hann mig,

kannski fær hann þig,

kannski fær hann tralalei.

Gömul ugla gáir niður úr tré

hvaða góðmeti að fá þar sé.

Hana grunar gjarnan hver það er

sem að gengur hjá með regnhlífina yfir sér.

Kannski sér hún mig,

kannski sér hún þig,

kannski sér hún tralalei.

Tófugreni út’ í skógi er,

framhjá engin mús þar vogar sér.

Máski liggur Mikki gægjum á,

og vildi mest af öllu eta þá sem fara hjá.

Hann vill éta mig,

hann vill éta þig,

hann vill éta tralalei.

 

Flugvísa ömmu

 

Á regnhlíf ég líð upp í loftin blá,

ég lyftist og sveiflast þar til og frá.

Og fuglarnir syngja, en hátt ég hlæ.

Húrra, húrra! Ég svíf fyrir blæ.

 

En broddgöltinn rak þá í rogastans

er reyndist ég sloppin úr greipum hans.

Hann nærri var farinn að narta’ í mig,

ó, nei, ó, nei – nú lék ég á þig.

 

En lækka ég má bráðum flugið mitt

því Marteinn þar stendur við húsið sitt.

Nú veifar hann hlæjandi’ og heilsar mér,

hæ hó, hæ hó – ég lendi hjá þér.

 

Klifurmúsarkvæði

 

Ein mús er best af öllum

og músin það er ég.

Í heimi mús er engin

slík hetja stórkostleg.

Ég geng um allan daginn

og gítarinn minn slæ,

en svengi mig á stundum

þá syng ég bara og hlæ:

Dúddílían dæ.

 

Er hnetum aðrir safna

í holur sínar inn,

ég labba út um hagann

og leik á gítarinn.

Ég vini á svo marga

í viði, tóft og bæ,

sem gleðjast er ég nálgast

og gisting hjá þeim fæ:

Dúddílían dæ.

 

Í veislur er mér boðið,

ég vitja þeirra í röð,

því seðja vil ég magann

og syngja og vera glöð.

Svo gaman er að lifa,

ég glaðst við lítið fæ.

Já, aðrir geta stritað,

ég aðeins syng og hlæ:

Dúddílían dæ.

 

Baðvísan

 

Baða litla Bangsamann

með blautasápu mamma kann.

Hann skal nú fá hreinan feld

hvað sem verður seinna í kveld.

Hörð er skán á hnjám á þér

og hálsinn kolasvartur er,

undrunar mér alveg fær

hvað eru skitnar tær.

 

Betur skal ég, Bangsi minn,

bursta á þér nefbroddinn,

einnig gá í eyrað þitt,

elsku krúttið mitt.

Buslar, buslar Bangsimann

í balanum hann við sig kann.

Er nú svona ekki neinn

á okkar landi hreinn.

 

Skola, skola skitin plögg

og skyrtur Bangsa enn með rögg

ber mér, þótt ég bleyti arm

og buxur hans og treyjugarm.

Sápa þar og sápa hér

hans sængurföt og koddaver.

Ég skal fá það fínt og hvítt.

Hvert fat skal eins og nýtt.

 

Grænmetissöngur

 

Þeir sem bara borða kjöt

og bjúgu alla daga

þeir feitir verða og flón af því

og fá svo illt í maga.

En gott er að borða gulrótina,

grófa brauðið, steinseljuna,

krækiber og kartöflur

og kálblöð og hrámeti.

Þá fá allir mettan maga

menn þá verða alla daga

eins og lömbin ung í haga,

laus við slen og leti.

 

Sá er fá vill fisk og kjöt

hann frændur sína étur

og maginn sýkist, molnar tönn

og melt hann ekki getur.

En gott er að borða gulrótina,

grófa brauðið, steinseljuna,

krækiber og kartöflur

og kálblöð og túmata.

Hann verður sæll og viðmótsljúfur,

vinamargur, heilladrjúgur,

og fær heilar, hvítar tennur.

Heilsu má ei glata.

 

Gras og garðakál

 

Nei, gras og garðakál

ei girnist heilbrigð sál.

Að öðlast slægð og afl af því

er alveg vonlaust mál.

En betri angan ber

nú blær að vitum mér.

Ég kannast við sviðin af svíni

og sósan og fleskið, það matur er.

Á svínasteik ég soltnum augum mæni.

Ég sveitabýlið niðr’ í ásnum ræni.

Nú líð ég líkast blæ,

að lágum moldarbæ.

Og – einn og tveir og þrír – og þá

ég þráðan bita fæ.

 

Húsamúsin

 

Ég er heldri húsamús,

hefi allt sem þarf til bús:

Mágál bæði og bringukolla,

bústin krof og sperðla holla.

Fæ mér bit’ og bita í senn,

bragðgott er það, viti menn,

uni við það alla daga

enda hef ég góðan maga.

 

Refaveiðivísur

 

Þræða mold á mjúkri tá

mjög er áríðandi.

Ef við skyldum skolla sjá

skulum læðast hægt á tá.

Það er áríðandi.

Okkar starf er vandi.

 

Æ er refaveiðar við

varúð áríðandi.

Kannski sérðu kvikindið

karl minn, ekki fær hann grið.

Það er áríðandi.

Okkar starf er vandi.

 

Meta rétt hvar rebbi er

reynist áríðandi.

Kannski líka hann sé hér,

hann er kannski rétt hjá þér.

Gát er áríðandi.

Okkar starf er vandi.

 

Frelsun Bangsa litla

 

Nú verðum við að læðast,

þá list hér margur kann.

Það framtak fyrir liggur

að frelsa Bangsimann.

 

Þau Bangsa burtu námu

frá bæ án dóms og laga.

Og segjast ætla að selja hann

í sirkus næstu daga.

 

Í hús þau leitt ‘ann hafa

og hespu fyrir smellt.

Og hund þau haf’ á verði

með háðslegt urr og gelt.

 

En nú mun rebbi reyna

að rugla vörðinn graman.

Við sigrum hundinn Habakúk

ef höldum allir saman.

 

Já, rebbi mun nú reyna

eitt ráð, sem ég tel best:

Hann gengur nið’rí gilið

og gólar þar sem mest.

 

Og Habakúk mun hlaupa

á hljóðið – drengir snjallir,

á meðan Bangsa björgum við

og burtu þjótum allir.

 

Afmæli Bangsapabba

 

Í skógi veisla gjörð skal góð

með gleði, söng og teiti,

því Bangsi okkar afmæli

nú á um þetta leyti.

Kunnur halur hærugrár

verður fimmtíu ára í ár.

Hæ, lengi, lengi lifi hann

sem listir allar kann!

 

Og dagur reis með kátan klið

og kvak frá ló’ og þresti.

Og velkomna hann Bangsi bauð

með brosi, sína gesti.

Bangsikarl….

“God dag, god dag!”

… höldum Bangsadag í dag.

Hæ, lengi, lengi lifi hann

sem listir allar kann!

 

Og dósir fjórar hérahjón

til hófsins lögðu gylltar,

af berjasultu bestu þær

til barma voru fylltar.

Bangsa þykir eflaust æt

krækiberjasultan sæt.

Hæ, lengi, lengi lifi hann

sem listir allar kann!

 

Frá músunum í Merkurbæ

barst mikill sleikjupinni.

Sjá, hann mun gott að huggast við

í híði sínu inni.

Sofna við að sjúga hann

gamla heiðurskempan kann.

Hæ, lengi, lengi lifi hann

sem listir allar kann!

 

Þá gamall elgur höfuð hyrnt

þar hóf með öldungstini,

og flutt var ræða firnasnjöll

þeim fræga skógarsyni:

“Góði Bangsi, kappinn knár,

þú ert fimmtíu ára í ár.”

Hæ, lengi, lengi lifi hann

sem listir allar kann!

 

Og ræðan klapp og húrra hlaut

sem hrós, án keims af spotti.

Og Rebbi þerrði þakkartár

í þögn, með loðnu skotti.

Húrra, landsins besti björn,

skógarbúa skjól og vörn.

Hæ, lengi, lengi lifi hann

sem listir allar kann!

 

Þá hérans rödd með blænum barst:

“Heyr, Bangsinn gamli hrýtur”.

Öll skógardýrin skildu að

hver skemmtan enda hlýtur.

Bangsi sæll, þú sofa skalt.

Þakkir fyrir allt og allt.

Hæ, lengi, lengi lifi hann

sem listir allar kann!

 

 

Jóhann G. Jóhannsson, tónlistarstjóri sýningarinnar í Þjóðleikhúsinu 1992 og 2003 gerði breytingar á nokkrum söngtextum með góðfúslegu leyfi þýðandans.

 

 

 

 

 

Myndasafn