Menu
logo
Tímaþjófurinn
Tímaþjófurinn

Tímaþjófurinn

eftir Steinunni Sigurðardóttur, leikgerð Melkorka Tekla Ólafsdóttir

Um sýninguna

Einstakt verk um ástina – um óslökkvandi þrá, höfnun og missi


"Una Þorleifsdóttir hefur sýnt undanfarin ár að hún er einn af okkar færustu leikstjórum og er Tímaþjófurinn fullkomið dæmi um hvernig hægt er að aðlaga eitt listaverk og skapa úr því nýtt verk sem getur staðið eitt og sér og á sínum eigin forsendum."

GB, Víðsjá


Hin vel ættaða, sjálfsörugga og glæsilega Alda Ívarsen, tungumálakennari við Menntaskólann í Reykjavík, sem ætíð hefur boðið heiminum byrginn, reynist varnarlaus þegar ástin loks grípur hana fyrir alvöru, óvænt og miskunnarlaust.

Steinunn Sigurðardóttir er einn virtasti rithöfundur þjóðarinnar. Skáldsaga hennar Tímaþjófurinn hefur átt miklum vinsældum að fagna bæði hér heima og erlendis frá því hún kom út árið 1986. Nú birtist verkið í fyrsta sinn á leiksviði.

Einstakt skáldverk um leynilegt ástarævintýri, höfnun og missi, og þá sársaukafullu þráhyggju sem ást í meinum getur orðið. Verk sem er skrifað af djúpum mannskilningi og meitluðum húmor.


"Vígvöllur ástarinnar er áþreifanlegur í þessu flotta verki og það má með sanni segja að skáldsaga Steinunnar Sigurðardóttur fái það rými sem hún á skilið á sviði Þjóðleikhússins."

GB, Víðsjá


Í uppsetningu Unu Þorleifsdóttur öðlast skáldsaga Steinunnar nýtt líf á leiksviðinu á einstakan og hrífandi hátt. Samspil texta, tónlistar og sviðshreyfinga skapar margslunginn heim ástar, höfnunar og þráhyggju. 


Boðið er upp á umræður eftir 6. sýningu þriðjudagskvöldið 4. apríl.

Verð

Verð: 5500 kr.

Lengd sýningar

1 klst. 30 mín. 

Hvar og hvenær

Frumsýning:
24.03.2017 
Svið:
Kassinn 

Aðstandendur

Sýningardagar

Hér koma sýningardagarnir...

Leikskrá

Smelltu hér til að skoða pdf af leikskrá fyrir Tímaþjófinn.

Umfjöllun

Guðrún Baldvinsdóttir, Víðsjá, RÚV

„Að verða eftir í orrustu á ástarvelli eru stærstu mistök sem mannleg vera getur gert og þó getur hún gert mörg mistök.

Þeir sem ekki flýja af hólmi mega gjöra svo vel að telja daga sína.

Að verða eftir á vígvelli ástarinnar er semsagt vond hugmynd. En illviðráðanleg.“

Þetta segir Alda, aðalpersóna skáldsögunnar Tímaþjófurinn eftir Steinunni Sigurðardóttur. Alda er ein eftirminnilegasta persóna íslenskra bókmennta en hún verður ástinni og tímanum að bráð þegar hún kynnist Antoni, myndarlegum, kvæntum sögukennara.

Tímaþjófurinn kom fyrst út árið 1986 og hefur verið þýdd á fjölda tungumála og má vel segja að sé vinsælasta verk Steinunnar Sigurðardóttur frá upphafi.

Skáldsagan segir frá hinni ættgóðu Öldu Ívarsen, menntaskólakennara sem býr í húsi  látinna foreldra sinna í Sörlaskjólinu ásamt systur sinni og systurdóttur. Alda er tilfinningaheit ung kona sem hefur lifað lífinu eftir sínu höfði. Þegar hún kynnist Antoni tekur ástin yfir allt annað í huga Öldu - en þessi ást verður fljótt að djúpri ástarsorg sem ekki einu sinni tíminn getur læknað.

„Enn ein leikgerðin,“ hafa líklega sumir hugsað þegar fréttir bárust um að setja ætti Tímaþjófinn á svið í Þjóðleikhúsinu, og ég viðurkenni að ég var ein af þeim. En það er annað upp á teningnum nú en oft áður, en Una Þorleifsdóttir leikstýrir og Melkorka Tekla Ólafsdóttir skrifaði leikgerðina.

Una Þorleifsdóttir hefur sýnt undanfarin ár að hún er einn af okkar færustu leikstjórum og er Tímaþjófurinn fullkomið dæmi um hvernig hægt er að aðlaga eitt listaverk og skapa úr því nýtt verk sem getur staðið eitt og sér og á sínum eigin forsendum.

Tímaþjófurinn fjallar í hnotskurn um ástina og sorgina sem henni fylgir en ekki síður um tímann og hvernig manneskjur reyna að hafa áhrif á hann, án árangurs.

Nína Dögg Filippusdóttir fer með hlutverk Öldu í uppsetningu Þjóðleikhússins og gerir hlutverkið algjörlega að sínu. Björn Hlynur Haraldsson er karlmennskuviðfangið Anton og nær að setja gríðarlega dýpt í þær litlu upplýsingar sem áhorfendur fá um manninn, enda setur Alda hann í hásæti ástarinnar svo erfitt er að sjá hver maðurinn er í raun og veru.

Þær Edda Arnljótsdóttir og Snæfríður Ingvarsdóttir leika mæðgurnar Ölmu og Siggu og skapa þær heimili Öldu sem er umvafið kvenlegu trausti og sterkum fjölskyldutengslum. Oddur Júlíusson er síðan í ýmsum hlutverkum, hinn meðaumkunarverði Steindór, sem sögumaður auk þess sem hann og Snæfríður dönsuðu stóran part af sýningunni.

Leikgerð Melkorku Teklu er einstaklega vel gerð og ber virðingu fyrir upprunalega texta verksins, án þess þó að reyna að halda of föstum tökum í alla þætti bókarinnar sjálfrar. Aðlögunin verður til á öllum sviðum verksins, ljóðlistin verður að dansi, myndmálið raungerist á sviðinu, húmorinn er sýndur í litlum fínhreyfingum leikaranna og persónueinkenni sem komu fram í texta bókarinna eru túlkuð  yfir í hreyfingar, spennu, fjarlægðir og tíma.

Samspil þessarar leikgerðar, leikstjórnar Unu Þorleifsdóttur og sviðshreyfinga Sveinbjargar Þórhallsdóttur búa til heildstætt verk þar sem allir þessir þættir, auk leikmyndar og búninga Evu Signýju Berger og hljóðmyndar Kristins Gauta Einarssonar spila saman. Allt smellpassar í þessari sviðsetningu Þjóðleikhússins að þessu sinni.

Í viðtali við Önnu Gyðu Sigurgísladóttur í Lestinni síðastliðið haust lýsti Steinunn Sigurðardóttir ritferli bókarinnar  á sínum tíma sem ómengaðri brjálsemi. Það er eitthvað svipað sem sér stað á sviði Unu Þorleifsdóttur og hópsins sem stendur að baki þessarar sýningar. Tíminn, sem er auðvitað mikilvægasti þáttur í verki Steinunnar, og á sama tíma það sem oftast fer úrskeiðis í svipuðum leikgerðum sem gerðar eru eftir skáldsögum - er einstaklega fallega túlkaður og er miðlægur í gegnum alla sýninguna.

Ástarsorg Öldu hverfur aldrei, jafnvel þó að tíminn geri allt hvað hann getur til þess að vinna á henni. Tíminn, sem er sagður eiga að hafa þann mátt að geta læknað öll sár, snýst upp í andhverfu sínu, enda verður harmurinn sem fylgir ástarsorginni hinn raunverulegi tímaþjófur.

Frásagnarstíll aðalpersónunnar Öldu í bók Steinunnar er fullur af kímni, enda fer hún toppanna á milli, upplifir sjálfa sig sem dívu, vel menntaða og auðvitað af afar góðum ættum. Hún er vön því að geta haft stjórn á öllu aðstæðum og hleypir fólki ekki að sér án þess að setja upp sterka brynju.

Sagan er sögð frá hennar dýstu hjartarótum og því fá lesendur að sjá heiminn út frá hennar sjónarhorni. Elskhuginn Anton verður því að algjöru viðfangi brjálaðrar ástar Öldu án þess að það komi honum sem persónu beint við.

Persónueinkennum Öldu kemur Nína Dögg vel frá sér og gerir að sínum eigin. Í upphafi er hún góð með sig og hreyfir sig þokkafullt um sviðið en þegar harmurinn nær tökum á henni hnígur hún smám saman niður og verður að manískri útgáfu af sjálfri sér. Hið gróteska fær rými, bæði í orðum Öldu en einnig í öllum hreyfingum leikkonunnar.

Húmorinn er undirliggjandi í texta Steinunnar en honum er komið á framfæri með fíngerðum hreyfingum leikaranna sem gefið er rými og áhorfendur fá tækifæri til þess að sjá smáatriðin í öllum samskiptum og hugsunum fólksins. 

Tíminn líður hraðar og hraðar og venjulegt frásagnarform er brotið upp sífellt meira, rétt eins og texti skáldsögunnar gerir. Danshreyfingar leikaranna skiptast á að túlka það sem á sér beint stað í frásögninni og að endurskapa þær tilfinningar sem eru alltumlykjandi í sögunni. Þegar við fylgjumst með Öldu kasta sér endurtekið í fang Antons og renna niður steinrunninn líkama hans verður sorgin áþreifanleg.

Í upphafi sýningarinnar þótti mér erfitt að ímynda mér atburðarrás verksins án þess að hafa Reykjavík í bakgrunni, alla þá staði sem Steinunn lýsir svo vel og skipta miklu máli í öllum verkum hennar. Staðsetningar í borgarrýminu eru áberandi og eru mjög einkennandi í öllum  verkum höfundarins. En þegar líður á sýninguna verður leikmyndin órjúfanlegur hluti af sögunni – blá, þung tjöldin sem minna á sjóinn sem er alltaf nálægur í lífi Öldu. Þau minna einnig á að Alda er fyrst og fremst staðsett innan sinna eigin hugsana í einbýlishúsinu í Sörlaskjólinu.

Tónlistin hjálpar að sama skapi við að skapa tilfinningaþrungið ástand á sviðinu. Hljóðmyndin er byggð upp af jazz-töktum sem eru síðan brotnir upp með ábreiðum af ástarlögum frá 9. áratugunum í flutningi leikaranna.

Vígvöllur ástarinnar er áþreifanlegur í þessu flotta verki og það má með sanni segja að skáldsaga Steinunnar Sigurðardóttur fái það rými sem hún á skilið á sviði Þjóðleikhússins.

http://ruv.is/frett/vigvollur-astarinnar-athreifanlegur

 


Myndasafn