Menu
logo
Gott fólk
Gott fólk

Gott fólk

eftir Val Grettisson, leikgerð Símon Birgisson og Valur Grettisson í samvinnu við Unu Þorleifsdóttur

Um sýninguna

Nýtt og ágengt íslenskt verk um ungt fólk, ástarsambönd, ofbeldi og refsingu


"Ísland er ástarsamband; tveir spennuþrungnir flekar sem eru að gliðna í sundur. Í eilífum átökum, dansandi hægan en viðkvæman dans þar til spennustigið er ofhlaðið og úr verða sársaukafullir og óhjákvæmilegir skjálftar. Því þannig er ástin. Að lokum hristumst við í sundur, við verðum að tveimur eyjum. Þetta er alveg skýrt, er það ekki?"


 

Sölvi og Sara kynnast við ofbeldisfullar aðstæður og eiga í stuttu en ástríðufullu ástarsambandi. Nokkru síðar fær Sölvi bréf þar sem Sara sakar hann um að hafa beitt sig kynferðisofbeldi. Sölvi þarf að játa á sig brot sem hann er þó ekki viss um að hafa framið. Af stað fer atburðarás þar sem engum sem hlut eiga að máli er hlíft, og lífi Sölva og Söru er umturnað.

Gott fólk er byggt á samnefndri skáldsögu Vals Grettissonar sem hlaut frábæra dóma þegar hún kom út á síðasta ári. Sagan varpar fram áleitnum spurningum: Er hægt að beita ofbeldi án þess að átta sig á því? Er hægt að vera dæmdur til refsingar án þess að vita hver refsingin er? Hver eru mörk hefndar og réttlætis?


Boðið verður upp á umræður eftir 6. sýningu, laugardagskvöldið 21. janúar. 

Verð

Verð: 5500 kr.

Lengd sýningar

2 klst. 30 mín. 

Hvar og hvenær

Frumsýning:
06.01.2017 
Svið:
Kassinn 

Aðstandendur

Sýningardagar

Hér koma sýningardagarnir...

Ábyrgðarferlið

Ábyrgðarferlið

 

* Ábyrgðarferlið var fyrst kynnt opinberlega á Íslandi árið 2011, í Róttæka sumarháskólanum.

 

* Það á rætur að rekja til bandarískra anarkistahreyfinga, óháðra félaga róttækra femínista og sjálfboðaliðasamtaka sem takast á við ofbeldi utan ramma laganna.

 

* Ábyrgðarferlið er leið til að taka á afleiðingum ofbeldis í nærsamfélaginu – með það að markmiði að uppræta ofbeldi.

 

* Ábyrgðarferlið felur í sér ákveðið vantraust á réttarkerfi, lögreglu og dómstólum og er sett fram sem valkostur fyrir þolendur ofbeldis, gerendur og aðstandendur sem treysta ekki lögum til að vernda sig eða leysa úr sínum málum.

 

* Aðferð ábyrgðarferlisins er að miklu leyti mótuð af feminískum samtökum sem berjast fyrir kynfrelsi, valdeflingu og virðingu fyrir líkamlegum og tilfinningalegum mörkum, s.s. The Feminist Action Support Network, Philly’s Pissed & Philly Stands Up.

 

* Ferlinu má t.a.m. beita í tengslum við einelti, kynferðisofbeldi, heimilisofbeldi, andlegt ofbeldi, ofbeldi í nánum samböndum eða hverslags kynbundið ofbeldi.

 

* Ferlið kallast á frummálinu Accountability Process.

 

* Í orðinu sjálfu liggur grunnhugmyndin að baki ábyrgðarferlinu, þ.e.a.s. ferlið er leið til ábyrgðar -  færsla ábyrgðar á verknaði frá þolanda til geranda – sem og sameiginleg, samfélagsleg ábyrgð nærumhverfis á hverskyns ofbeldi.

 

* Aðferðafræði ábyrgðarferlisins markast af nokkrum þrepum sem laga má að hverju tilfelli fyrir sig. Það hefst þó á samtali þolanda og geranda, oftast í gegnum millilið.

 

* Þolandinn orðar sína upplifun við geranda og fer fram á að hann gangist við brotum sínum og axli ábyrgð á þeim.

 

* Samtalið miðar að því að gerandi átti sig á skaða sem hann hefur valdið, jafnvel þótt það hafi verið ómeðvitað – sem og að gerandinn viðurkenni áhrif gjörða sinna á þolanda/þolendur og nærsamfélagið.

 

* Þolandi setur gerandanum skilyrði - sem geta verið mismunandi í hverju tilfelli fyrir sig -  en snúa í grundvallaratriðum að því að gerandi viðurkenni brot sín og gangist við þeim með einhverjum hætti; gefi þolanda svigrúm til að ná bata; og skuldbindi sig til þess að horfast í augu við skaðlega hegðun sína og hugsanamynstur sem leiða til ofbeldis.

 

* Í þessum skilyrðum getur falist sú krafa að gerandi geri einhverskonar yfirbót gagnvart þolanda, hlutaðeigandi einstaklingum og/eða nærsamfélagi.

 

* Þá er mælst til þess að bæði þolandi og gerandi fái viðeigandi stuðning meðan þeir fylgja ábyrgðarferlinu, sem og stuðning til að takast á við ofbeldið og afleiðingar þess.

 

* Ábyrgðarferlið hvetur til þess að hlutaðeigandi nýti sér þjónustu félagsráðgjafa, sálfræðinga eða annarra sérfræðinga við að vinna úr afleiðingum ofbeldis.

 

* Ferlið kallar á að samfélögin sem því beita vinni sameiginlega að því að takast á við ofbeldi í sínu nærumhverfi. Þessi samfélög geta m.a. verið vinahópar, fjölskyldur, vinnustaðir og skólar.

 

* Hugmyndafræðin hvetur til þess að unnið sé gegn hverslags einangrun eða útskúfun geranda. Mælt er gegn því að gerandi sé fordæmdur eða úthrópaður opinberlega. Fremur skuli vettvangur ábyrgðarferlisins vera það nærsamfélag þar sem ofbeldið átti sér stað, með tilheyrandi aðstoð fagaðila eða sérfræðinga.

 

* Mikilvægur hluti ferlisins er að hlusta á og styðja geranda á vegferð hans til að viðurkenna skaðann sem hann hefur valdið, horfast í augu við skaðlega hegðun sína og leitast við að uppræta hana.

 

* Hugmyndafræðin miðar í grunninn að betrun allra hlutaðeigandi fremur en því að fullnægja réttlæti í réttarfarslegum skilningi eða refsa geranda.

 

* Ábyrgðarferlið er sett fram sem leið fyrir samfélög til að skapa og staðfesta gildi og verklag til að vinna gegn ofbeldi; hvers kyns misbeitingu og kúgun -  en auka í stað öryggi, stuðning og ábyrgð.

 

* Þá er markmið ferlisins að samfélög þrói aðferðir til að takast á við ofbeldisfulla hegðun ákveðinna meðlima samfélagsins og aðstoða þá við að brjótast út úr skaðlegum hegðunarmynstrum.

 

* Hugmyndin er sömuleiðis að vinna að framförum samfélagsins og allra meðlima þess – beina kastljósi að og breyta pólitískum aðstæðum sem ýta undir kúgun og ofbeldi.

 

* Ábyrgðarferlið hvetur til þess að samfélög veiti þeim hópum og einstaklingum sem verða fyrir ofbeldi öryggi og stuðning, samfara því að virða sjálfsákvörðunarrétt þeirra.

 

* Grunnforsenda ábyrgðarferlisins er viðurkenning á réttmæti upplifunar þolanda, óháð lagalegum skilgreiningum á saknæmu athæfi.

 

* Ferlið er sett fram sem þolendamiðað, þ.e. það tekur mið af þörfum þolanda í því ástandi sem hann kann að vera eftir að hafa orðið fyrir ofbeldi.

 

Samantekt: Gréta Kristín Ómarsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

Leikskrá

Myndasafn