Menu
logo
28.febrúar 2013

Karma fyrir fugla, nýtt íslenskt verk, frumsýnt á morgun

Þær Kristín Eiríksdóttir og Kari Ósk Grétudóttir þreyta frumraun sína sem leikskáld með nýju íslensku verki, Karma fyrir fugla, sem frumsýnt verður í Kassanum 1. mars í leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur.

 

Þær Kristín og Kari eru báðar myndlistarmenntaðar, en Kristín hefur jafnframt vakið athygli fyrir ljóðbækur, smásagnasafn og nú síðast skáldsöguna Hvítfeld sem tilnefnd var til Fjöruverðlaunanna.

 

Karma fyrir fugla í senn ljóðrænt og sálfræðilegt verk um afleiðingar ofbeldis, heljartök fortíðarinnar á sálinni, ranglæti og fegurð.

 

Kannski er Elsa sautján ára stúlka sem er til sölu, kannski er hún miðaldra vændiskona, kannski heimilislaus gömul kona, kannski er hún 100 ára búddanunna. Kannski er Karma fyrir fugla að gerast einmitt hér og nú, kannski á öllum tímum og alls staðar.

 

 

Leikstjóri er Kristín Jóhannesdóttir. Leikarar í sýningunni eru Kristbjörg Kjeld, Maríanna Clara Lúthersdóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Herdís Þorvaldsdóttir, Hilmir Jensson, Þórunn Arna Kristjánsdóttir og Þorsteinn Bachmann. Höfundur leikmyndar og búninga er Anna Rún Tryggvadóttir. Halldór Örn Óskarsson sér um lýsingu.  Höfundar tónlistar eru Guðlaug Mía Eyþórsdóttir, Helgi Þórsson og Steinunn Harðardóttir. Hljóðmynd gerðu Guðlaug Mía Eyþórsdóttir, Halldór Snær Bjarnason, Helgi Þórsson, Irma Þöll Þorsteinsdóttir og Steinunn Harðardóttir. Aðstoðarmaður leikstjóra er Halldór Halldórsson.